Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég bar fram þessa einföldu spurningu um það hvenær hæstv. utanrrh. væri væntanlegur vegna þess að mér dettur ekki í hug annað en að hæstv. ráðherra ætli sér að vera viðstaddur umræðuna um sína eigin skýrslu og sitja fyrir svörum eftir því sem þarf við slíkt tækifæri. Ég hlýt að undrast skipulagið á þessari vinnu. Mér finnst það með ólíkindum. Annars vegar finnst mér það óvirðing við hæstv. utanrrh. að láta þessa umræðu fara fram að honum fjarstöddum þegar hann er bundinn við önnur skyldustörf. Ég undrast skapstillingu hæstv. utanrrh. að láta bjóða sér slíkt. Á hinn bóginn er það líka óvirðing við Alþingi að umræðan fari fram án þess að sá sem til hennar stofnaði, hæstv. ráðherra, sé viðstaddur. Og svo ég nefni annan hv. þm. sem sýnir mikla skapstillingu, þá þykir mér það vera formaður utanrmn. sem hér flutti ítarlega og ágæta ræðu. Sjálfur formaður utanrmn. þarf að flytja sína ræðu að fjarstöddum hæstv. utanrrh. Nú má það vel vera að það hafi verið samkomulag þeirra í milli að svo skyldi verða en óneitanlega lítur þetta ákaflega einkennilega út.
    Ég hlýt að gagnrýna það að þingstörfin skuli þá ekki hafa verið skipulögð með þeim hætti að hafa frekar deildarfundi í kvöld og byrja fyrr í dag á utanríkismálaumræðunni þannig að hæstv. ráðherra hefði getað sinnt þeim störfum sem hann þarf á þeim tíma sem hann þarf. Ég gagnrýni það alls ekki að hann þurfi þess. Ég gagnrýni hins vegar skipulagið á vinnubrögðunum. Ef hæstv. ráðherra er væntanlegur innan skammrar stundar, eins og hæstv. viðskrh. sagði, þá vil ég leggja það til við hæstv. forseta að hún geri örlítið hlé á fundinum. Það yrði þá hlé til sameiginlegrar kvöldkaffidrykkju eins og tíðkaðist hér í þingæsku minni en slíkt fyrirkomulag hafði afskaplega góð áhrif á þingheim og samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu. Vil ég stinga upp á því að þessi tilraun verði gerð.