Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það er gott að vita til þess að hæstv. fjmrh. er hér í bænum einhvers staðar, en það nægir mér nú eiginlega ekki. Ég óskaði þess við forseta fyrir rúmum fimm klukkutímum eða skömmu fyrir kvöldmatarleyti að komið yrði á framfæri við hæstv. fjmrh. ósk um að hann kæmi hingað og honum yrði birt það erindi sem hann ætti hér. En þannig eru málavextir að það hefur spurst út að í viðræðum við forustumenn Ráðstjórnarríkjanna um viðskiptamálefni hafi þeir krafist þess, sumir segja jafnvel að það væri harkaleg krafa af þeirra hálfu, að þeir fengju veiðiréttindi innan íslenskra fiskveiðitakmarkana í sambandi við viðskiptasamning við þá.
    Spurningin sem ég bað hæstv. forseta að bera hæstv. utanrrh. var sú hvort þessar kröfur hefðu komið fram í viðræðum þeim sem hann auglýsti rækilega að hann hefði átt við ráðamenn í Ráðstjórnarríkjunum í marsmánuði sl. og ef þær hefðu komið fram hver svör hans eða viðbrögð hefðu verið. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að fá úr því skorið áður en þessum umræðum lýkur hvort það hafi verið í viðræðum við hæstv. fjmrh. sem þessar kröfur voru fram bornar af hálfu ráðamanna í Ráðstjórnarríkjunum og svör hans við því, hvað hann sagði þessum mönnum, hvernig hann tók þessum kröfum þeirra eða tilmælum. Ekki veit ég orðalagið, en mér hefur verið sagt að það a.m.k. nálgaðist kröfur.
    Ef það er ekki nokkur leið að finna manninn, hvorki með starfsliði þingsins né jafnvel lögreglu, það var nú einu sinni gert um miðja nótt að finna forseta með ... ( GHelg: Ekki um miðja nótt.) Jæja, en hæstv. forseti kannast við það atvik. En það er nú ekki neitt grín á ferðinni í þessu efni. Ég vil fá þessi svör áður en þessari umræðu lýkur. Kannski getur hæstv. utanrrh. eitthvað frætt okkur um málið. Ég heyrði að hann greip hér fram í eða eitthvað heyrðist í honum um það, að kannski gæti hann einhverju svarað. Það væri til bóta, en hitt er þó sjálfsagt að finna manninn. Það getur ekki verið að fjmrh. landsins feli sig svo rækilega þegar ekki er einu sinni komin nótt eins og hæstv. forseti sagði og ég legg til að það verði nú gerð ... ( Utanrrh.: ... samningafundur hjá BHMR?) Já, t.d. ef það væri nú vitað, þá ætti nú einhver úr fjölskyldu t.d. þeirra manna sem þar sitja að hafa hugboð um hvar þeir væru.