Tilhögun þingfundar
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Áður en gengið er til dagskrár skal upplýst að fyrirhugað, um talað og um samið er við fulltrúa stjórnmálaflokkanna að á tímabilinu frá tvö til fjögur geti farið fram umræða um 12. dagskrármálið með nokkuð skipulegum hætti þannig að einn fulltrúi frá hverjum flokki fái afmarkaðan tíma til þess að taka til máls og verði það fyrsti hluti umræðunnar um þetta mál, en henni yrði svo frestað að því loknu.
    Í annan stað skal tekið fram að ekki er fyrirhugaður kvöldfundur, en ég vil biðja þingflokka að virða það ef tekst ekki nákvæmlega að ljúka fundi kl. 4 þó að að því sé stefnt. Enn skal tekið fram að forseti ætlar sér að taka fyrst fyrir, og þá á fyrsta klukkutímanum önnur mál sem hér eru en í þeirri röð að fyrst verði tekin fyrir þau mál sem talin eru ágreiningslaus, og loks að deildarmenn ætli sérstaklega tímann skömmu fyrir kl. 2, seinasta korterið fyrir tvö, fyrir atkvæðagreiðslur í þeim mæli sem þær fara ekki fram jafnóðum.