Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Herra forseti. Ég tel mjög gagnlegt að það tækifæri gefist sem hér gefst til þess að ræða skipulag starfa á Alþingi og þá þætti stjórnskipunarlaganna sem lítt hafa verið til umfjöllunar hér á þingi að undanförnu því að umræða um þau hefur aðallega snúist um kosningalög.
    Eins og fram kemur á þskj. er ég einn flm. að þessu frv. til stjórnarskipunarlaga og tel að þær breytingar sem í því felast séu til mikilla bóta ef að lögum yrðu. Ég vil hins vegar kannski fyrst og fremst nota þetta tækifæri til þess að ræða lítillega störf þingsins, skipulag starfa hér á þingi.
    Með þessu frv. fylgir fskj. þar sem er greinargerð um breytingar á þingskapalögum og hugmyndir í þá veru. Og þó ég sé flm. frv. sem slíks þá hef ég ekki sömu skoðanir að því er þær breytingar varðar sem hér eru fram settar. Hér er t.d. hugmynd um að það eigi að mynda fjölskipaða stjórn þingsins. Ég held að það sé rétt að útvíkka það ekki heldur að forsetarnir þrír, sem væru væntanlega aðalforseti og tveir varaforsetar, fari með þessa stjórn. Hins vegar er nauðsynlegt að fá talsmenn eða formenn þingflokka til samráðs um ýmislegt sem varðar skipulag þingstarfanna. En stjórn þingsins og það vald sem á hendi forseta er, er að verulegu leyti stjórnunarlegt og ég held að það sé ekki ástæða til þess að fleiri komi að því heldur en forsetarnir einir eins og nú er reyndar.
    Að því er varðar ráðningu skrifstofustjóra þá er mér til efs að það eigi að gerast með kosningu í þinginu. Ég held að sá háttur sem hefur verið á hafður, um það að forsetar ráði hann, geti verið betri. En í þessu samhengi vil ég taka það fram að mín skoðun er sú að forsetar eigi einungis að ráða skrifstofustjóra þingsins og yfirmenn þeirra stofnana sem heyra beint undir þá, þ.e. Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis, en stjórn starfsmannamála að öðru leyti eigi ekki að vera í höndum forseta heldur í höndum þeirra yfirmanna sem forsetar ráða hvern til síns starfa, þ.e. skrifstofustjóranna og yfirmanna þeirra deilda eða stofnana sem ég rakti hér áðan. Ég held að það sé eðlilegra stjórnskipulag. Ég sé ekki ástæðu til þess að forsetar fari með starfsmannamál og tel það reyndar óheppilegt fyrirkomulag.
    Um þingskapalög vildi ég reyndar segja fáein orð til viðbótar. Ég tel að það sé sérstök ástæða til þess að skipulag þingfunda verði tekið til sérstakrar skoðunar. Ég tel að það sé nauðsynlegt að farin sé sú braut að samdar séu áætlanir, vikuáætlanir og ársáætlanir um það hvernig þingfundir séu skipulagðir. Kannski höfum við verið að fikra okkur svolítið inn á þá braut. Ég sé að þær sömu hugmyndir eru hér uppi í því sem varðar breytingar á þingsköpum. En jafnframt því sem við ætlum okkur að gera það þá tel ég líka að það þurfi að vera jákvætt ákvæði um að það skuli að jafnaði semja um heildarræðutíma eða heildarfundartíma sem ætlaður er til einstakra mála. Það sé hin jafnaðarlega regla og það væri þá forseta og þingflokksformanna eða talsmanna flokkanna að ná

samkomulagi um það þannig að skipulag þingstarfanna geti verið öruggara og betra en núna er, þar með talinn fjöldi talsmanna í einstökum málum. Ég segi að þetta eigi að gera að jafnaði því mér er auðvitað ljóst að frá því þurfi að gera undantekningar, en ég held að það sé til mikilla bóta að slíkt jákvætt ákvæði kæmi inn í þingsköpin og að þá mætti skipuleggja störf þingsins betur og nýta tíma þingmannanna líka betur. Kannski höfum við verið að fikra okkur í þá áttina, samanber þá umræðu sem nú fer fram og það samkomulag sem varð um hvernig hún skyldi eiga sér stað.
    Ég held að það þurfi líka jákvætt ákvæði um skyldur nefnda til að skila nál. á tilteknum tíma sem sjálfsagt verður að fela forseta að ákveða en þá að höfðu samráði við formenn nefndanna og fulltrúa flokkanna. Mín skoðun er sú að í þingsköp ætti að koma jákvætt ákvæði um þetta efni. Ég tel líka að það eigi að gera ráð fyrir föstum atkvæðagreiðslutímum og allt er þetta í þá veru að koma störfum þingsins í fastari skorður.
    Þetta vildi ég sérstaklega gera að umræðuefni í þessu samhengi en væntanlega þurfa menn að íhuga útfærsluna á þessu nánar. Ef samið er t.d. um heildarfundartíma fyrir tiltekin mál þá hlýtur það að fylgja með, eins og maður sér að tíðkast sums staðar annars staðar, að þegar tíminn er liðinn þá fellur aftan af mælendaskránni, þ.e. þeir sem ekki komast að á þeim tíma, ef einhver hefur misnotað tíma, ef ekki tekst að ljúka þessu á tilteknum tíma, þá fellur aftan af mælendaskránni og umræðunni telst vera lokið. Þetta þykir mönnum kannski nokkuð harkalegt en þetta tel ég að sé íhugunarefni.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um það frv. sem hér er í rauninni til umræðu. Ég nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri ýmsum ábendingum varðandi störf þingsins sem ég tel nauðsynlegt að séu rædd og að hér hafi einmitt gefist tækifæri til að ræða. Að því er varðar frv. sjálft hef ég þegar lýst því yfir að ég er ánægður með það framtak sem í því felst og tel að rökstuðningur fyrir því sem í frv. felst sé glöggur og skilmerkilegur, bæði í greinargerðinni með frv. og í framsöguræðu 1. flm. frv., og tel að ástæðulaust sé að bæta þar neinu frekar við.