Umferðarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Flm. (Pálmi Jónsson):
    Herra forseti. Á þskj. 821 er flutt frv. það til breytinga á umferðarlögum sem hér er tekið á dagskrá. Frv. er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum nema Alþfl., eins og flokkaskipun var þá hér á Alþingi, þ.e. einum þingmanni úr hverjum hinna flokkanna, en ekki var horfið að því ráði að safna nöfnum að öðru leyti á þetta frv.
    Það skal tekið fram að síðan það gerðist hefur einn af stjórnmálaflokkunum klofnað og ef það hefði verið um garð gengið áður en frv. var flutt hefði að sjálfsögðu verið leitað til þingmanns úr núverandi Borgaraflokki.
    Frv. þetta er stutt og aðeins tvær greinar ásamt ákvæði til bráðabirgða. Það fjallar um það að fella niður 4. mgr. 65. gr. laganna, þ.e. 3. gr. laga nr. 62/1988, en þetta er sú grein núverandi umferðarlaga sem heimilar ríkissjóði að taka þátt í hlutafélagi til þess að annast þau verkefni sem áður voru á hendi Bifreiðaeftirlits ríkisins.
    Í ákvæði til bráðabirgða segir: ,,Við slit á félaginu ,,Bifreiðaskoðun Íslands hf.`` skal dómsmrh. heimilt að semja um kaup á þeim hluta af eignum félagsins sem henta þykir fyrir Bifreiðaeftirlit ríkisins.``
    Á Alþingi 1987 voru afgreidd ný umferðarlög nr. 50/1987. Þau lög áttu sér alllangan aðdraganda og hafði verið lögð í það mikil vinna að afgreiða þau og undirbúa. Á síðasta þingi var þessum lögum á hinn bóginn breytt þrátt fyrir þá vönduðu lagasetningu sem Alþingi hafði afgreitt árið áður.
    Tvö meginatriði þeirra breytinga, sem gerðar voru á síðasta Alþingi í lögum sem samþykkt voru 10. maí 1988, voru þau að upp var tekið svokallað fastnúmerakerfi og síðan heimild sú í 4. mgr. 65. gr. umferðarlaga sem hér er lagt til að falli brott.
    Það er skoðun flm. sem að þessu frv. standa að þær breytingar sem gerðar voru á umferðarlögunum á síðasta Alþingi hafi ekki reynst til bóta. Ég vil þó taka fram að hér er ekki lagt til að kippa því til baka sem var önnur meginbreyting þessara laga, þ.e. er varðaði hið svokallaða fastnúmerakerfi enda má segja að skoðun flm. frv. hafi á því atriði verið nokkuð misjöfn.
    Ég vil þó taka það fram fyrir mína parta að ég tel að sú breyting hafi síst verið til bóta og þó að það sé ekki stórmál þá er þar mál á ferðinni þar sem tölvukerfi tekur við af öðru sem er mannlegum viðhorfum skiljanlegra. En eigi að síður er það kerfi komið svo langt á veg að ekki þykir rétt að leggja til að því verði kippt til baka.
Varðandi það atriði sem hér er fjallað um, þ.e. að fella niður heimild ríkisins til þess að taka þátt í hlutafélagi sem tekið hefur við hlutverki Bifreiðaeftirlits ríkisins, þá hefur það einnig reynst svo að þessi breyting hefur síst reynst vera til bóta og horfir svo að hún muni ekki reynast til bóta í framtíðinni. Það var mjög látið í veðri vaka þegar verið var að knýja þessa breytingu í gegn að henni mundi fylgja aukið öryggi í meðferð og skoðun ökutækja, hagræðing, sparnaður og bætt þjónusta.

Reyndin sýnist ætla að verða nokkuð á annan veg því að ekki verður betur séð en þessu nýja fyrirkomulagi fylgi stóraukinn kostnaður, handahófskennd þjónusta og aukið óöryggi í meðferð þessara mála. Auk þess tel ég að það sé skipulagslega rangt að eftirlit af þessu tagi, sem í raun er í eðli sínu öryggiseftirlit og lögreglueftirlit, sé fært í hendur einkaaðila.
    Ég vil láta það koma fram að við flm. þessa frv., a.m.k. flestir hverjir, fluttum mikil varnaðarorð hér á Alþingi áður en þessi lagabreyting var knúin fram og ég greiddi atkvæði gegn þessum breytingum á þeirri tíð. Ég held að allt hafi sannast sem við sögðum þá, öll þau varnaðarorð sem við sögðum þá hafi sannast og meira til. Hygg ég að hverjum og einum, sem kynnst hefur fyrstu göngu þessa fyrirtækis, Bifreiðaskoðunar Íslands hf., og þeim handahófskenndu áætlunum sem þar virðast vera á borðinu um þjónustu við almenning, sýnist að þau varnaðarorð hafi átt fullan rétt á sér og síst verið á þeim vanþörf. Ég hafði til að mynda ekki trú á því að þeir aðilar sem komu þar til sem aðilar að þessu hlutafélagi, svo sem eins og tryggingafélögin, væru nein trygging fyrir því að þjónusta yrði betri, að kostnaður yrði minni eða að meira öryggis yrði gætt. Sú er ekki reynsla af gjaldskrá bifreiðatryggingafélaganna nú að undanförnu að þess mætti vænta.
    Ég bendi á að í grg. með þessu frv. eru rakin þau megintilefni sem flm. telja að liggi til þess að þeir sjá sig knúða til þess að flytja þetta frv. Þau eru, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Skráning, skoðun og eftirlit með ökutækjum, sem í eðli sínu er lögreglu- og öryggiseftirlit, á ekki heima í höndum einkaaðila.
    2. Þjónusta ,,Bifreiðaskoðunar Íslands hf.`` virðist eiga að vera stórum lakari og handahófskenndari en var hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, enda í sumum atriðum háð geðþóttaákvörðunum fyrirtækisins.
    3. Þjónustugjöld hafa verið hækkuð óhóflega, þvert ofan í boðaða hagkvæmni og sparnað.
    4. Bílpróf, sem áður voru á vegum Bifreiðaeftirlits ríkisins, eru nú á vegum dómsmrn. og í algerum ólestri, þannig að ungmenni þurfa víða að leggja í
stóraukinn kostnað og langferðir til þess að fá að gangast undir bílpróf.
    5. Samtímis því að gjaldskrá fyrir veitta þjónustu hefur stórhækkað hefur ríkissjóður verið sviptur tekjustofni því flest ár skilaði Bifreiðaeftirlit ríkisins verulegum tekjum til ríkissjóðs. Þannig voru t.d. tekjur af þjónustugjöldum Bifreiðaeftirlitsins 1986 216 millj. kr., útgjöldin 109,8 millj. og því skilað til ríkissjóðs 106,2 millj. kr.``
    Ég vil taka það fram að þetta mál, þ.e. starfsemi Bifreiðaskoðunar Íslands hf., er ekki það langt á veg komið að það sé ekki réttlætanlegt að snúa við. Ég tel að miðað við horfur um starfsemi þessa fyrirtækis sé rétt að menn geri sér grein fyrir þeim atriðum sem hér hafa verið talin og samþykki það frv. sem hér liggur fyrir. Ég tel að það sé augljóst að starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins eins og hún var gat verið þess

efnis að það þyrfti að endurskoða hana. Það er auðvitað rétt að geta þess hér að lagaákvæði um Bifreiðaeftirlit ríkisins eru enn óskert í lögunum sjálfum. En ég held til að mynda að það hafi verið eðlilegt, eins og margsinnis var búið að tala um, að hluti af skoðun ökutækja færðist í hendur verkstæða sem til þess væru sérstaklega löggilt eða fengju til þess sérstaka viðurkenningu. Það var því ástæða til þess að huga að breytingum þar. En það var sannarlega ómaklegt sem haldið var fram hér á Alþingi í fyrra að starfsemi Bifreiðaeftirlitsins væri þannig að þar væri haldið á málum á þann hátt að þjónustan væri dýr, hún væri slök og hún hefði ekki í för með sér nægilegt öryggi.
    Gjaldskrá, sem gefin hefur verið út af dómsmrn. og er dags. 2. jan. 1989 fyrir hið nýja fyrirtæki, sem og er hér birt sem fskj. II með frv. Hún ber það með sér að nú á að tylla á þessi þjónustugjöld. Hér er einnig prentuð sem fskj. síðasta gjaldskrá Bifreiðaeftirlits ríkisins frá 2. júní 1989. Séu þessar tvær gjaldskrár bornar saman sést að í ýmsum gjaldskrárliðum eru þjónustugjöldin tvöfölduð, öðrum þrefölduð, sumum að vísu hækkuð kannski nokkuð eðlilega, um 20--30% á milli ára, en í einstaka lið jafnvel meira en þrefaldað. Og það er þar ofan í kaupið allsendis óljóst hvers konar ökutæki það eru t.d. sem falla undir gjaldskrárliðinn ,,breytt ökutæki``, þ.e. ökutæki sem búið er að breyta. Eru það t.d. breytt ökutæki sem settar hafa verið á nýjar hlífar til varnar grjótkasti? Eru það breytt ökutæki sem settur hefur verið á dráttarkrókur? Eða hvaða breytingar eru það sem ráða því að ökutæki fellur undir þennan gjaldskrárlið? En þar kostar einföld skoðun 10 þús. kr.
    Þó að þetta sé nú sá gjaldskrárliðurinn sem stingur mest í augu þá hafa eins og áður sagði ýmsir aðrir gjaldskrárliðir hækkað, að vísu sumir eðlilega kannski en aðrir hafa tvöfaldast og sumir þrefaldast. Þegar svo á að halda á málum samtímis því sem þjónustan verður, eins og hér segir, handahófskennd og miklu lakari fyrir þá sem hennar þurfa að njóta en áður var, þá held ég að við eigum ekki að halda áfram með þetta mál. Við eigum að snúa við. Og það er enn tími til þess að það sé gert.
    Ég tók eftir því varðandi þann þátt þessara mála sem í sjálfu sér kom ekki Bifreiðaskoðun Íslands við, að til að mynda í vetur var í fyrsta skipti í 60 ár ekki hægt að fá að taka bílpróf á Vestfjörðum. Ungmennum á Vestfjörðum var skipað að koma suður á Akranes til þess að fá að taka bílpróf. Á sumum öðrum stöðum er það svo að það kemur maður langa vegu til þess að gefa ungmennum kost á að taka bílpróf á einum stað fyrir stórt svæði á tilteknum dögum. Allt hefur þetta í för með sér aukin óþægindi, stóraukinn kostnað. Það er óþolandi fyrirkomulag að fyrirskipa ungmennum að fara landsfjórðunga á milli til þess að fá að gangast undir próf sem er jafnsjálfsagt að þau geti tekið í sínum heimahögum nú eins og verið hefur að undanförnu.
    Flest sem snertir þetta mál er þessu marki brennt. Það var auðvitað flumbrugangur af Alþingi að fallast

á að afgreiða þessi lög á síðasta ári og reynslan hefur orðið með sama hætti.
    Ég vil taka það fram vegna þess að við sjálfstæðismenn teljum að ýmis fyrirtæki og ýmis starfsemi og stofnanir eigi að færast úr höndum ríkisins yfir til einkaaðila eða til hlutafélaga, þá á það ekki við um þau atriði og þau fyrirtæki sem eiga að sinna öryggisgæslu, yfirstjórn er varða lögreglu- og öryggismál. Það á ekki heima í höndum einkaaðila. Það á heima í höndum fyrirtækis á vegum ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.