Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Á þessum svölu en björtu vordögum nálgast sjö mánaða afmæli ríkisstjórnarinnar. Fyrstu mánuðirnir í lífi barns eru ekki aðeins mánuðir mikils þroska og örra framfara, heldur eru þeir líka afgerandi um líf barnsins í framtíðinni. Það sama er ekki hægt að segja um ríkisstjórnina. Hún hefur ekki dafnað í þeim mæli sem búist er við af börnum og engin ástæða til þess að fagna sérstaklega á þessum tímamótum. Enn sem komið er heldur hún varla höfði og sennilega mun hún aldrei standa á eigin fótum.
    E.t.v. trúðu margir í upphafi að það hefði verið hugsjónaólgan sem knúði menn til að mynda þessa ríkisstjórn. Þeir ætluðu að bjarga efnahagslífinu sem þeir töldu að mundi hrynja á næstu dögum ef þeirra lausnir ekki kæmu til og hér skyldi síðan draumaþjóðfélagið rísa.
    Við kvennalistakonur trúðum ekki á lausnir þeirra. Ekki gátum við vænst mikils af félagshyggjuríkisstjórn sem leyfði sér að hefja feril sinn með launafrystingu og samningsbanni. Það hefur reyndar komið á daginn að djúpt er á hugsjónunum ef þær eru þá einhverjar. Ráðherrarnir, alla vega sumir, hafa verið ferðaglaðir þrátt fyrir ófærð og vond veður. Leiðtogar alþýðuflokkanna tveggja fóru blysför um landið í mesta skammdeginu og menntmrh. hefur verið á hugsjónaskokki milli skóla. Vinnubrögð menntmrh. væru hróss verð ef einhvers staðar sæi þess merki að mörgum ágætum hugmyndum hans hefði verið fylgt eftir. En í kjölfarið fylgja niðurskurðartillögur flokksbróður hans, fjármálaráðherrans. Gera þær heimsóknir hans lítt trúverðugar og eru í andstöðu við þá skólamálastefnu sem hann boðar. Ekki vil ég draga úr nauðsyn þess að hagræða og spara, en það verður ekki gert án samráðs og aðstoðar við þá sem starfa í hinum ýmsu stofnunum. Ég tel það hæpinn sparnað sem kemur niður á menntun og aðbúnaði barna og unglinga, ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum þegar skólinn hefur tekið við hlutverki heimila og foreldra í ríkara mæli en áður þekktist. Það er líka alvarleg staðreynd að enn einu sinni hafa kennarar neyðst út í vinnudeilu við ríkið til að knýja á um að fá kjör sín leiðrétt. Ábyrgð á þeirri vinnudeilu lýsi ég algjörlega á hendur núv. ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórn. Hvergi birtist menntastefna stjórnvalda betur en í launastefnu þeirra. Í stjórnarsáttmálanum segir að góð menntun sé undirstaða framtíðarlífskjara þjóðarinnar. Ef svo á að verða er nauðsynlegt að gera kjör háskólamenntaðs fólks hjá ríkinu eftirsóknarverð. Nú ríkir ekki aðeins neyðarástand í skólum landsins heldur líka á heilbrigðisstofnunum og ýmsum öðrum stofnunum sem tryggja öryggi okkar. Það er með öllu óverjandi að í okkar svokallaða velferðarsamfélagi skuli skjólstæðingar þessa fólks þurfa að líða og lífi og heilsu jafnvel stefnt í hættu. Ábyrgðin er stjórnvalda.
    En hvað varð um alþýðuleiðtogana tvo? Sáu þeir hvorki né heyrðu á ferðum sínum ,,á rauðu ljósi`` um landið? Var janúarmánuður svo dimmur, skin blysanna

svo dauft og veðrahamurinn svo mikill að þeir hvorki sáu né heyrðu. Eða voru ljósin neyðarblys, tendruð í von um að einhver kæmi þeim til bjargar?
    ,,Ríkisstjórnin var mynduð til að leysa bráðan efnahagsvanda sem steðjar að þjóðinni,,, eins og segir orðrétt í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta. Og hverjar eru nú lausnirnar? Hér hafa verið stofnaðir sjóðir á sjóði ofan til bjargar atvinnulífinu og ekki vil ég draga úr því að aðgerða hafi verið þörf. Samt stöndum við frammi fyrir tapi, hruni eða gjaldþroti í undirstöðuatvinnugrein okkar með atvinnuleysi og upplausn í kjölfarið, ekki síst úti á landsbyggðinni.
    Á meðan þetta dynur yfir hefur skattbyrði landsmanna enn verið aukin, skattprósenta hækkuð um síðustu áramót um leið og persónuafsláttur var lækkaður. Það fer vissulega að verða spurning hversu vandi fólksins og heimilanna í landinu þarf að verða mikill, hversu margir þurfa að vinna myrkranna á milli sjálfum sér til óbætanlegs heilsutjóns, hversu margar fjölskyldur þurfa að missa húsnæði sitt og þola þá óhamingju og upplausn sem því fylgir, eða hve straumurinn á félagsmálastofnanir þarf að verða þungur til þess að stjórnvöld líti á það sem efnahagsvanda þjóðarinnar.
    Þrátt fyrir nýgerða kjarasamninga ríkisstarfsmanna sem fólu í sér örlitla viðleitni til launajöfnunar er með öllu óviðunandi að enn í dag skuli samið um laun sem engan veginn duga til framfærslu. Ekki þarf ég að tíunda það að enn þá fylla konur lægstu hópana. Fyrir ári síðan taldi Alþb. það lágmark að fólk fengi 45--50 þús. á mánuði. Nú hefur fjmrh. þess sama flokks hreykt sér af nýgerðum samningum þar sem stórir hópar eru undir 50 þús. þrátt fyrir verðhækkanir og vaxandi verðbólgu.
    Þessa dagana eru það ekki bara ráðherrarnir sem leggja land undir fót. Farfuglarnir flykkjast hingað norður eftir og samkvæmt frétt Tímans í gær eigum við von á fleiri ferðamönnum nú í ár en í fyrra. Þjóðin öll bindur miklar vonir við uppbyggingu ferðamannaþjónustu, ekki síst íbúar landsbyggðarinnar sem gætu horft fram á mörg ný atvinnutækifæri, einkum fyrir konur. Síðustu ríkisstjórn tókst að fæla erlenda ferðamenn frá með álagningu matarskattsins og hvergi sér þess stað að til standi að fella niður þann
óréttláta og íþyngjandi skatt fyrir okkur landsmenn alla og erlenda gesti okkar þrátt fyrir alla félagshyggjuna. Vinsælir ferðamannastaðir eru auglýstir upp án þess að nægilegt aðhald eða aðstaða sé fyrir hendi, hvað þá að verndunarsjónarmið séu virt. Það stórsér nú á mikilvægum ferðamannastöðum vegna þess m.a. að Ferðamálaráð hefur aldrei fengið sín lögbundnu framlög og því lítið svigrúm gefist til að sinna umhverfisvernd.
    Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta: ,,Unnið verður gegn umhverfisspjöllum af átroðningi og umferð ferðamanna um viðkvæm svæði.`` Lögum samkvæmt ætti Ferðamálaráð að fá 110 millj. í ár en fær 28. Þetta er eitt dæmið um þau lög sem sett eru hér á Alþingi en aldrei er hægt að standa við. Það er

því vart fyrirsjáanlegt að Ferðamálaráð muni sinna umhverfisvernd eða ýmsum öðrum lögbundnum verkefnum þetta árið. Bættar samgöngur eru ekki aðeins undirstaða byggðar í landinu heldur eitt mikilvægasta atriðið í uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins. Enn eitt árið megum við búa við stórskert framlög til vegamála þannig að víða munu krónurnar rétt hrökkva til þess að greiða skuldir vegna framkvæmda síðasta árs. Þetta er eitt dæmi um það hvernig staðið er að atvinnuuppbyggingunni í þessu landi. Ferðamannaiðnaðurinn er þegar orðin drjúg tekjulind og við ætlum okkur enn stærri hlut í henni á næstu árum.
    En þau eru mörg önnur, fögur fyrirheit sem finnast í stjórnarsáttmálanum. Eitt er þess efnis að ríkisstjórnin ætli að auka og efla fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, einkum með tilliti til kvenna. Öll vitum við hvernig er umhorfs í atvinnulífinu, enn eykst atvinnuleysið og alls staðar eru konur í meiri hluta atvinnulausra. Stóraukin atvinnuþátttaka kvenna og breytt staða þeirra í fjölskyldunni skiptir miklu um þróun byggðamála og óhjákvæmilegt er að taka mið af þeirri staðreynd.
    Á ráðstefnu Kvennalistans um atvinnumál í dreifbýli á Hvanneyri sl. sumar var athyglisvert hversu hugmyndaríkar og frjóar konur eru og hvernig þær hugsa sér atvinnuuppbyggingu sem hefur í fyrirrúmi samvinnu og tillit til aðstæðna kvenna. Það er lykilatriði í búsetuþróun landsbyggðarinnar að hlustað verði á hugmyndir kvenna og tillit tekið til þeirra. Landsbyggðin er greinilega ekki gæluverkefni þessarar ríkisstjórnar. Nær væri að segja að hún sé olnbogabarn.
    Um aldir hefur það verið hlutskipti kvenna að hlúa að lífi og rækta umhverfi sitt. Ekki síst vegna þess hlutverks er konum tamt að líta til framtíðarinnar, hvernig þjóðfélag þær vilja búa börnum sínum. Sú heimsmynd sem blasir við okkur í dag er máluð köldum litum og grófum dráttum. Hernaðarhyggja stórveldanna stíar ekki einungis þjóðum sundur, heldur sundrar hún þeim einnig innbyrðis og leiðir okkur lengra og lengra frá því að leysa vandamál okkar sameiginlega.
    Kvennalistinn hefur valið leiðina sem vænlegust er til að mýkja drætti heimsmyndarinnar. Kvennalistinn kom fyrst fram til að vinna að málum kvenna og barna. Æ fleiri gera sér nú grein fyrir að stjórnmál eru umönnun og aðbúnaður fólks og ræktun umhverfisins. Í hugsjónum kvenna felst kraftur og þor til breytinga, til að byggja upp samfélag sem er í jafnvægi við náttúrulegt umhverfi sitt.
    Ég óska landsmönnnum öllum gleðilegs og gróskumikils sumars.