Hornafjarðarós
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans og fagna því að það skuli liggja fyrir frumúttekt og hugmyndir af hálfu Hafnamálastofnunar á því hvernig best verði staðið að aðgerðum til að bregðast við því ástandi sem þarna hefur skapast og getur skapast í öðrum og meiri mæli en nú liggur fyrir ef marka má reynslu sögunnar. Ég geri mér ljóst að hér er um mjög flókið samspil að ræða. Einn þáttur hefur ekki verið nefndur sem gerist á löngum tíma, en það er landsig eða landris, breytingar á sjávarhæð með tilliti til landsins. Um það liggja fyrir mjög ljósar heimildir, m.a. mór í Skarðsfirði þar sem land hefur sigið svo mikið að jarðvegur er á allmiklu dýpi. Allt þetta þarf að athuga mjög gaumgæfilega og vinna í áföngum að úrlausn.
    Ég bendi á að það er mjög nauðsynlegt að nokkru fjármagni verði varið til athugunar þessara mála til að byggja allar aðgerðir á sem bestum grunni hvað rannsóknir snertir. Fjármagn í þessu skyni finnst mér eðlilegt að sé tekið af óskiptu fé. Hér er um þannig verkefni að ræða. Og ég held að það ætti að gilda fyrir hliðstæð atriði, þar sem um er að ræða rannsóknir sem varða öryggi til lengri tíma hvar sem er á landinu, að það verði tekið sérstaklega í sambandi við hafnafjárveitingar og blandist ekki framkvæmdafjárveitingum til einstakra hafna hverju sinni.
    Ég skal ekki orðlengja þetta, virðulegi forseti. Ég hef undir höndum margvíslegt efni sem snertir þetta mál. Eitt er greinarkorn í blaðinu Eystra-Horni frá 30. mars 1989, hugleiðingar eftir Heimi Þ. Gíslason, sem ég leyfi mér að afhenda hæstv. ráðherra. En ég þakka svar hans.