Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. En ég verð að segja í fullri vinsemd að ég varð dálítið hissa á þessum svörum. Ég held að bændur landsins telji að það hafi verið frumhlaup blátt áfram að haga þessari talningu svona. Það hefði átt að fela þá sveitarstjórnum slíka talningu ef ástæða hefði verið til.
    Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að Búnaðarfélaginu var skrifað bréf og þar segir að Búnaðarfélagi Íslands sé falið að hafa yfirstjórn þessarar talningar í sambandi við sýslumenn og lögreglustjóra og hefur stjórn félagsins ákveðið að verða við því sem varðar samþykki við sveitarstjórnir og forðagæslumenn. En það virðist alveg vera ástæðulaust að þurfa nokkuð að tala við bændur um þetta. Sá sem hringdi í mig sagði: Ég spurði sýslumann minn að því hvað gera skyldi ef bændur höfnuðu því að láta telja hjá sér búfé og hann heldur því fram að það mætti með engu móti beita neinu valdi í því máli. Þarna væri greinilega verið að fara inn á friðhelgi heimilanna og það yrði ekki hægt að framkvæma þessa talningu gegn vilja eigenda nema með dómi. Það hefði ekki orðið nokkur óánægja með það þó að tveir menn hefðu farið að telja búféð.
    En ég vona að svona aðgerð verði aldrei gerð aftur. Og ég vona svo sannarlega að það verði ekki mikið uppistand út úr þessu máli. En svona aðferð er ekki möguleiki á að taka þegjandi.