Skyldleiki íslenskra laxastofna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég mun aðeins gera örstutta athugasemd varðandi þessa fsp. sem er fyllilega tímabær. Það er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af erfðafræði laxastofna, sérstaklega með tilliti til þeirrar erfðablöndunar sem nú á sér stað. Í orðum hv. fyrirspyrjanda Guðmundar G. Þórarinssonar, fannst mér gefið í skyn að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli vegna þess að um sé að ræða villtan lax í eldiskvíum. Ég held að það skipti verulegu máli að laxar hafa mismunandi eiginleika eftir því hvaðan þeir eru. Það getur skipt máli hvaðan laxinn kemur, t.d. ef villtur lax að norðan sem er í eldi sleppur út og blandast löxum hérna í Elliðaánum getur það haft þau áhrif að laxarnir missi hluta af eiginleikum sínum við blöndunina. Það þýðir að þeir geta misst ratvísina eða þá að þeirra náttúrlegu eiginleikar um varnir gegn sjúkdómum og fleira glatast eða a.m.k. dofnar, þ.e. mótstaðan minnkar. Það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar mikið af laxi sleppur í burtu og fer upp í ár og er vafamál hvort það er nægjanleg vörn þó að það sé vissulega til bóta að frysta svil og væntanlega hrogn líka til að reyna að koma í veg fyrir skaða. Það er samt varasamt ef það er langt bil á milli þess að lax fer alveg úr á og nýir laxar eru settir í hana. Það getur verið hæpin aðferð og ekki víst að hún takist.