Fiskeldisfyrirtæki
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að svara fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e. og hefði reyndar verið rétt af mér að reyna að fella það inn í svar við fsp. hv. þm. Egils Jónssonar þó að ekki væri sérstaklega um það spurt. Nefnd hefur nú tekið til starfa sem endurskoða skal rekstrar- og afurðalánamálefni landbúnaðarins. Sú varð niðurstaðan eftir allnokkurn aðdraganda að í stað þess að setja niður eina nefnd sem skoðaði afurðalánamálefni í heild sinni, þ.e. allra atvinnugreina, var ákveðið að setja sérstaka nefnd í málefni hverrar greinar fyrir sig, m.a. vegna þess að í landbúnaðinum er fyrst og fremst um innlend afurðalán að ræða og þar gegnir nokkuð mikið öðru máli en varðandi afurðalánamálefni útflutningsgreinanna eins og sjávarútvegsins. Hér eru að vísu á ferðinni afurðalánamálefni útflutningsgreina þar sem er fiskeldið. Ég mun beita mér fyrir því að þessi nefnd, sem auðvitað er ætlað að taka öll afurða- og rekstrarlán landbúnaðarins eins og hann leggur sig til athugunar, snúi sér að fiskeldinu eins fljótt og kostur er, en réttast er að viðurkenna að fram að þessu hefur nefndin fyrst og fremst einbeitt sér að því að leysa vandkvæði sem uppi hafa verið til að unnt væri að hefja afgreiðslu rekstrarlána á þessu vori til bænda.
    Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að í bankakerfinu hefur gætt verulegrar tregðu til að taka ný fiskeldisfyrirtæki í viðskipti og af því höfum við auðvitað áhyggjur. Það er að vísu kannski fremur bankalegt málefni en viðfangsefni fagráðuneytis að taka á slíkum vanda því þessi tregða er ekki eingöngu bundin við ný fiskeldisfyrirtæki heldur verða mörg fleiri fyrirtæki að sæta slíku. Því miður er það svo að hið íslenska bankakerfi er allnokkuð mengað af þeim hugsunarhætti svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið að horfa fyrst og fremst til trygginga í fasteignum en ekki til þess hvers konar rekstur er á ferðinni þegar um nýja fyrirgreiðslu og nýja viðskiptavini er að ræða --- og segi ég nú ekki meira um þetta m.a. vegna þess að hæstv. bankamálaráðherra er fjarstaddur. En það var sem sagt von okkar að með tilkomu tryggingasjóðsins mundu bankarnir treysta sér betur til að taka ný fyrirtæki í viðskipti. Verði sú ekki raunin á mun þetta mál verða tekið til sérstakrar skoðunar og ég mun beita mér fyrir því að taka það upp við hæstv. bankamálaráðherra og sinna því þá í framhaldi.