Pálmi Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs um þingsköp án samráðs við aðra hv. þm. sem hér hafa talað. Tilefnið var tvenns konar.
    Í fyrsta lagi: Hér liggur fyrir starfsáætlun Alþingis sem ég tel þakkarverða nýbreytni. Og eins og hæstv. forseti hefur sagt hefur sú starfsáætlun staðist í sumum greinum og er skemmst að minnast þess að eldhúsdagsumræður fóru hér fram í gærkvöldi svo sem ákveðið var í starfsáætlun þingsins sem sett var í haust. Þetta er að mínum dómi lofsvert. Á þessari starfsáætlun er gert ráð fyrir að ræða á hv. Alþingi í dag vegáætlun. Ég er kunnugur því að vegáætlun er til meðferðar í fjvn. og þar hefur það mál ekki verið rætt efnislega nú á aðra viku.
    Ég hlýt að vekja athygli hæstv. forseta á því að þetta er háttalag sem ekki er viðunandi. Ég hef farið fram á það hvað eftir annað á fundum fjvn. að þetta mál væri þar tekið fyrir og til afgreiðslu, m.a. með tilliti til þeirrar dagsetningar sem er á starfsáætlun þingsins og einnig vegna þess að Alþingi á að ljúka 6. maí samkvæmt þessari starfsáætlun og engin önnur áætlun liggur fyrir af hálfu hæstv. forseta um meðferð mála og um þinghaldið. Ég hef boðist til þess að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar, a.m.k. við fulltrúar Sjálfstfl., legðum okkar lið að því að leysa ágreiningsmál stjórnarflokkanna um vegáætlun og meðferð þess máls. Það boð stendur. Ef svo fer að stjórnarliðið kemur sér ekki saman um meðferð vegáætlunar í stórum dráttum held ég að fjvn. Alþingis verði að taka það mál og afgreiða það án tillits til vilja meiri og minni hl. eða hæstv. ráðherra. Það mál er eitt af þeim sem þarf að afgreiða á hinu háa Alþingi og kannski hið eina sem nauðsynlegt er að sé afgreitt. Ég taldi því ástæðu til í upphafi þessa seinni fundar að vekja athygli hæstv. forseta á þessu.
    Annað tilefni þess að ég kem upp í ræðustól er dagskrá þessa fundar að öðru leyti en því sem hér hefur þegar komið fram. Hér eru 11 mál á dagskrá og ýmis þeirra tiltölulega nýlega fram komin. 3. nóv. var útbýtt hér á hv. Alþingi þingskjali þar sem 11 alþingismenn báðu um skýrslu um starfsemi Þróunarfélagsins hf. Þó svo að þessi skýrsla hafi a.m.k. í tvígang verið tekin á dagskrá hefur hún ekki komist að í umræðum. Ég hlýt að finna að því að mál þar sem farið er fram á skýrslu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í byrjun nóv. skuli ekki enn hafa verið tekið fyrir á dagskrá og til umræðu þegar komið er að lokum aprílmánaðar. Þetta er vitaskuld ekki viðunandi. Þessu beini ég mjög eindregið til hæstv. forseta.