Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. v. vil ég segja þetta. Varðandi starfsáætlunina þá hefur hún auðvitað hnikast til innbyrðis. Ástæðan fyrir því er vitaskuld fyrst og fremst sú að utandagskrárumræður, þingskapaumræður og annar slíkur sjálfsagður réttur sem hv. þm. eiga hafa auðvitað valdið röskun á dagskrá. Slíkt er óhjákvæmilegt.
    Varðandi skýrslur sem óræddar eru vil ég upplýsa að þær eru reyndar óvenjufáar á þessu stigi máls. Einungis fjórar skýrslur eru óútræddar og þar á meðal, og það sem mér finnst kannski vítaverðast, er skýrsla sem hv. 10. þm. Reykn. bað um um stöðu fiskvinnslunnar og hefur dregist úr hömlu að ljúka umræðu um þá skýrslu. Staða þessara mála er að öðru leyti óvenjugóð leyfi ég mér að fullyrða.
    Varðandi dagskrána í dag er hér um að ræða afgreiðslumál sem samkomulag er um og ég taldi nauðsynlegt að afgreiða og losna við af dagskránni. Ég hef hugsað mér að fara þess á leit við forseta og þingflokksformenn að fá að halda fund í Sþ. á morgun. Ég veit ekki enn þá hvort það tekst en ef ekki, verður að draga þetta til næsta föstudags þar sem báðir fundardagar Sþ. í næstu viku eru augljóslega ónýtanlegir.