Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég átti kannski von á að fleiri tækju til máls áður en ég kveddi mér hljóðs. Ég átti t.d. von á því að hæstv. sjútvrh. talaði, en ég sé að hann er að ganga inn í salinn og ég vil ekki fara að gera því skóna að hann hafi ekki áhuga á að tala um þetta mál.
    Það er rétt að það komi hér fram að meðflm. mínir gátu ekki komið því við að vera á þessum fundi og þeim þótti það miður. Annar er erlendis og hinn er á mjög áríðandi fundi og gat ekki komið því við að vera hér viðstaddur.
    Ég vil þakka hv. 4. þm. Vesturl. fyrir hans innlegg inn í þessar umræður. Hann skýrði kvótakerfið og reynsluna af kvótakerfinu og ég vil segja að í meginatriðum er ég sammála því sem hv. þm. sagði um þau efni. Við erum báðir andvígir kvótakerfinu og viljum nýtt kerfi. Það var þess vegna, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., að ég færði það í tal við hann hvort hann vildi gerast meðflm. frv. sem við hér nú ræðum, en hann taldi sér ekki fært að gera slíkt eins og frv. ber með sér og orð hans hér áðan.
    Mér þykir það hins vegar miður að ég fæ ekki annað séð en að það sé á algjörum misskilningi byggt að hv. 4. þm. Vesturl. skuli ekki vera meðflm. frv. Hann vék að því sem hefði fælt hann frá því að vera meðflm. frv. og taldi fyrst upp, og ég ætla að það sé aðalatriðið, að með frv. sem við nú ræðum sé verið að búa til nýjan kvóta, nýtt kvótakerfi. Þetta er algjör misskilningur og furðulegt að jafnglöggur maður, sem er jafn vel inni í þessum málum og hv. þm., skuli láta sér þessi orð um munn fara því að það er ekki hægt að komast að þessari niðurstöðu nema með því að snúa við því sem sagt er í frv. og sem sagt er í grg. með frv. og, sem ég sagði hér í ræðu minni áðan, gjörsamlega snúa því við.
    Hv. þm. verður að hafa það í huga að orsök vandans sem við er að glíma er sú að fiskiskipastóllinn er of stór, sóknargetan er of mikil. Og þess vegna varðar öllu að minnka sóknargetuna til samræmis við veiðiþol fiskstofnanna. Sú skipan sem frv. gerir ráð fyrir er þannig, eins og ég skýrði í minni fyrri ræðu, að hún stuðlar að því að minnka sóknargetuna. En til þess að flýta fyrir þeirri þróun er gert ráð fyrir að úreldingarsjóður fiskiskipa sé stofnaður og það er gert ráð fyrir, til öryggis ef á þarf að halda, að sérstakar reglur gildi um endurnýjun skipastólsins ef svo er ástatt að sóknargetan er of mikil. Auðvitað verður alltaf undir öllum kringumstæðum að endurnýja fiskiskipaflotann, en það er gert ráð fyrir að sérstakar reglur gildi ef sóknargetan er of mikil.
    Til þess að framkvæma þessa stefnu er nauðsynlegt að það liggi fyrir sem gleggst hver sóknargeta fiskiskipastólsins er á hverjum tíma. Þess vegna er gert ráð fyrir að hverju fiskiskipi skuli ákveðin sóknargeta þannig að metið sé það aflamagn sem skipið hefur burði til þess að veiða á hverju ári. Hvers vegna er þetta gert? Það er gert vegna þess að hin venjulega smálestamæling skipa gefur ekki

fullkomnar upplýsingar um það sem þarf til þess að gera sér grein fyrir hvað sóknargetan er mikil og til þess að gera sér grein fyrir hvað þarf að úrelda af skipum á móti nýjum skipum sem koma til ef sóknargetan er of mikil því að það fer alls ekki eftir smálestatölunni hvað sóknargeta hvers skips er mikil. Sóknargeta gamals skips, þó að það sé minna að smálestatölu, getur verið verulega meiri en sóknargeta skips sem er verulega stærra að smálestatölu, nýs skips, m.a. af þeirri einföldu ástæðu að í hinu nýja skipi fer miklu meira rúm fyrir skipshöfn. Það er búið allt öðruvísi að skipshöfn í nýbyggðum skipum nú en gert var fyrir kannski tugum ára. Slíkar ástæður sem þessar valda því að það þarf að gera sér grein fyrir hvort hægt er að koma upp nýjum mælikvarða um sóknargetu skipanna.
    Þetta á hins vegar ekkert skylt við það hvað skip megi veiða mikið. Það er allt annað mál. Það er búið að afnema kvótann. Hvert skip má veiða eins og það hefur burði til innan þeirra marka sem takmarkanir á fiskstofnum leyfa. Og hvers vegna leyfir jafnglöggur maður og hv. 4. þm. Vesturl. sér að misskilja þetta? Hvert barn sem er læst getur séð hvað er hið rétta í þessu og mundi ekki misskilja þetta.
    Mér hefur komið til hugar hvort það geti verið svo að hv. 4. þm. Vesturl. hafi í raun og veru verið brennandi í skinninu að vera meðflm. en af einhverjum ástæðum, sem hann hefur ekki látið í ljós hverjar eru, lét hann ekki stjórnast af þeim vilja sínum. Og ég sé ekki annað en að þessi ástæða, að verið sé að búa til nýjan kvóta, sé hrein gerviástæða og kannski til þess að friða samvisku hv. þm. En þetta er meginástæðan sem hann nefndi fyrir því að hann hefði ekki gerst flm. að frv. Hinar ástæðurnar, sem hann taldi upp, eru að mínu viti allar minni háttar miðað við mikilvægi málsins. Þá á ég við ákvæði 8. gr. frv. um upplýsingar og 9. gr. um samráðsnefnd og svo 10. gr. um nánari reglur.
    Ég hef nú að gefnu tilefni gerst nokkuð fjölorður um ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Nú mega menn ekki halda að ég sé að mæla þessi orð í einhverju ádeiluskyni á þennan ágæta hv. þm., síður en svo, því að ég kann vel að meta andann í því sem hann mælir um þessi mál. Við erum báðir sammála um
meginatriðið, að það þurfi að afnema kvótakerfið og koma upp nýrri aðferð við stjórnun fiskveiða. Við erum sammála um það sem er höfuðatriði málsins. Og þó að hv. þm. hafi ekki talið rétt að gerast beinn flm. að þessu máli nú er ég ekki að álasa hv. þm. fyrir það, síður en svo. Ég þykist hins vegar mega vona að hv. þm. telji að frv. sé gott innlegg í umræðuna um fiskveiðimálin og stjórn fiskveiða, enda sagði hann það sjálfur. Og ekki kæmi mér á óvart þó að hv. þm. gæti haft stuðning af þeim hugmyndum sem koma fram í frv. í viðleitni hans til þess að bæta það ástand sem við nú búum við.