Þjóðminjalög
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég tel sérstaka ástæðu til að flytja hv. menntmn. þakkir fyrir hvernig hún hefur staðið að þessu máli. Hún hefur greinilega tekið málið til vandlegrar meðferðar og ég verð að segja alveg eins og er að ég fagna því alveg sérstaklega að það hefur verið gengið rækilega til móts við okkur flm. frv. um verndun fornleifa og þau rök sem við lögðum þar fram og þýðingu þess að auka gildi þess að sinna þeim þætti í sambandi við þjóðminjalög og verndun fornleifa alveg sérstaklega. Þar með tel ég að nefndin hafi stórbætt þetta frv. til þjóðminjalaga og ber vissulega að fagna því. Um svona mikilvæga löggjöf þarf sjálfsagt að vanda vel til verka og einnig að gæta þess að ná samkomulagi á breiðum grundvelli um málið meðal þeirra sem um þau fjalla. Ég vil alveg sérstaklega fagna þeirri breytingu sem hér kemur fram og ekki síst að stofnuð verði sérstök fornleifanefnd sem hafi með yfirstjórn að gera í sambandi við fornminjavörslu og fornleifarannsóknir í landinu. Ég sætti mig vel við þessa niðurstöðu málsins og hún er að öllu leyti skynsamleg.