Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beindi máli sínu til mín þótt með óbeinum hætti væri. Áður en ég vík að því nánar vil ég byrja á að láta í ljós ánægju mína yfir að kjarasamningar skuli hafa tekist með þeim hætti sem þeir liggja nú fyrir við yfirgnæfandi meiri hluta launþega og þar með tryggður vinnufriður út þetta ár og reyndar að mínu mati langt fram á næsta ár.
    Hv. málshefjandi beindi ýmsum spurningum til hæstv. forsrh. varðandi bréf þau sem ríkisstjórnin eða forsrh. fyrir hennar hönd sendi aðilum vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambandi og Vinnumálasambandi og svo Alþýðusambandi Íslands. Hann vakti sérstaklega athygli á 4. tölulið erindisins til Alþýðusambandsins þar sem fjallað er um skattamál og segir svo, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um undirbúning og framkvæmd virðisaukaskattsins sem tekinn verður upp um næstu áramót, m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum.``
    Hv. málshefjandi rifjaði síðan upp tillögur forsrh. í fyrrv. ríkisstjórn um breytingar á söluskatti sem hann síðan ályktaði að hefðu valdið stjórnarslitum í því stjórnarsamstarfi. Jafnframt beindi hann því til mín hvort samstaða væri um það innan núv. ríkisstjórnar að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti. Um þetta er ýmislegt að segja, m.a. eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi vil ég rifja upp í þessum ræðustól í tilefni ummæla hv. málshefjanda hver voru meginatriðin í tillögum fyrrv. hæstv. forsrh. Þau voru sem kunnugt er um það að lækka söluskatt á matvörur og þar með taldar innfluttar matvörur, þær sem á annað borð er heimilað að flytja inn, úr 25 í 15% ef ég man rétt. Jafnframt skyldi vera um að ræða lækkun niðurgreiðslna. Þessar tillögur fólu í sér umtalsvert tekjutap fyrir ríkissjóð á þeim tíma. Tekjuöflun á móti átti að vera í formi hækkunar á tekjuskatti einstaklinga, en sú tekjuöflun hrökk ekki til til að vega upp tekjutapið sem lækkun söluskattsins fól í sér. Niðurstaðan varð þess vegna sú að nettóáhrifin af þessari tillögu voru þau að ríkissjóður hefði orðið fyrir tekjutapi sem af fjmrn. var þá metið á 1,3 milljarða kr. Því næst bættist við að fyrirsjáanlegt var á þessum tíma á sl. hausti að stefndi í umtalsverðan halla. Í lok septembermánaðar var sá halli þá fyrirsjáanlegur upp á um 2 milljarða þannig að tillögurnar hefðu leitt til þess að menn stóðu frammi fyrir vitneskju um halla a.m.k. á bilinu 3,3--3,5 milljarðar kr.
    Á það var bent að það væri ekki ásættanlegt af hálfu samstarfsaðila að framkvæma slíka tillögu við þessi skilyrði sem leitt hefði af sér slíka aukningu í hallarekstri ríkissjóðs. Sér í lagi er rétt að rifja upp að þá lá fyrir að ekki fengust undirtektir við tillögur um lækkun ríkisútgjalda og jafnframt lá fyrir samþykkt þingflokks þeirra sjálfstæðismanna um það að hann gæfi ekki kost á frekari tekjuöflun til ríkissjóðs þannig að heildarniðurstaðan varð sú að þessi tillaga eins og hún var fram sett á þessum tíma fól í sér afdráttarlaust að sætta sig við þetta mikinn halla á

ríkissjóði.
    Í umræðum um þetta mál var á það bent að það væri ekki ófrávíkjanlegt grundvallarstefnuatriði að ekki mætti hugsa sér fleiri en eitt þrep í söluskatti þó að það yrði að teljast óeðlilegt að ríkisstjórn sem hafði lagt slíkt kapp á þá skattkerfisbreytingu sem hún byrjaði störf sín með spilaði út slíkum tillögum sem lið í einhverjum bráðabirgðalausnum í efnahagsmálum og sætti sig þar með við það að ganga á svig við grundvallarstefnumótun um hallalausan ríkisbúskap.
    Oft hefur verið til þess vitnað og var rækilega til þess vitnað í umræðum um bæði samræmdan söluskatt í einu þrepi og eins í umræðum um virðisaukaskatt að framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins hefur gert um það ályktun að beina því til bandalagsríkjanna að taka upp samræmingu á virðisaukaskatti þannig að í stað margra þrepa sem viðgengst í sumum bandalagsríkjanna verði tekin upp tvö þrep. Ef ég man rétt hið lægra þrep á bilinu 9--14% en hið seinna á bilinu 18, 19--22%.
    Margir hafa vitnað til þessa og spurt hvort ekki væri eðlilegt að Íslendingar tækju mið af þessu. Um það er margt að segja, en þó fyrst það að það er allra manna mál sem fylgjast náið með þróun mála að því er varðar hinn innri markað í Evrópu 1992 að sáralitlar líkur eru taldar á því að samkomulag geti tekist um það innan Efnahagsbandalagsins að þessi tillaga komi til framkvæmda. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. liggur fyrir að af hálfu danskra stjórnvalda hefur því verið lýst yfir að þetta sé óframkvæmanlegt að því er Dani varðar vegna þess gríðarlega tekjutaps sem danska ríkið yrði fyrir af þeim sökum. Heildarniðurstaðan er sú að menn telja litlar líkur á því að þetta náist fram fyrir árið 1992.
    Að því er okkur Íslendinga varðar er einnig margt að segja um þessa spurningu, eitt eða tvö þrep í söluskatti í virðisaukaskatti. Í fyrsta lagi er nú að meta reynsluna af framkvæmdinni að því er varðar eins þreps söluskatt. Samkvæmt upplýsingum fjmrn. er ljóst að söluskattsskil í matvöruverslun eftir breytinguna hafa batnað mjög verulega, þ.e. yfir 50%, þannig að hvað svo sem líður umræðum um göt og veilur í framkvæmd skattinnheimtu á Íslandi og þau eru
mörg er ljóst að að mati fjmrn. hefur þessi breyting skilað verulegum árangri að því er varðar matvöruverslun þannig að ef menn vilja velta því fyrir sér að hverfa aftur til tvíþrepa söluskatts eða virðisaukaskatts kallar það á rækilega úttekt á því hvort það samræmist viljayfirlýsingum trúlega allra stjórnmálaflokka á hinu háa Alþingi um að gera sérstakar ráðstafanir til að bæta innheimtu álagðra skatta. Þetta tvennt gæti auðveldlega rekist harkalega hvort á annað, nefnilega reynslan frá fyrri tíð fyrir því að tvíþrepa skattur leiddi til þess að það var verulegur misbrestur á innheimtu samkvæmt því kerfi, enda afar flókið og erfitt í framkvæmd eins og kunnugt er.
    Síðan er á hitt að líta að hið háa Alþingi hefur samþykkt að virðisaukaskattur skuli tekinn upp í einu þrepi miðað við álagningarprósentuna 22% um næstu

áramót. Það liggur fyrir að upptaka virðisaukaskatts með þessari álagningarprósentu mun leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem á sl. ári var metið upp á 1100 millj. kr. ef ég man rétt og væri því ekki óvarlegt að meta nú á bilinu kannski 1*y1/2*y--2 milljarðar kr. Hver sá sem vill beita sér fyrir því að taka upp virðisaukaskatt með tveimur þrepum verður að átta sig á því að hann stendur nú þegar frammi fyrir tekjutapi í samanburði við núverandi kerfi og mundi standa frammi fyrir enn meira tekjutapi ef um væri að ræða að taka upp lægra þrep en hækka ekki álagningarprósentuna á aðrar almennar vörutegundir sem ekki væru sérstaklega undanþegnar. Um þetta mál er lítið hægt að ræða út af fyrir sig fyrr en fyrir liggur í fyrsta lagi úttekt á tekjuþörf ríkissjóðs og fyrr en við nálgumst það að fara að ræða forsendur fjárlagagerðar fyrir næsta ár og þá liggur fyrir hvort hið háa Alþingi er reiðubúið að fallast á tillögur um verulega lækkun ríkisútgjalda og svo í annan stað hvort menn eru reiðubúnir að kaupa árangur af tveggja þrepa virðisaukaskatti því verði að hækka allverulega trúlega álagningu ýmissa annarra vara, í fljótu bragði kannski upp í allt að 30--33% ef farið væri með hið lægra þrep niður á bilinu 9--14%. Þetta þarfnast ítarlegrar skoðunar. Eins og kunnugt er er að starfi nefnd sem fjallar um þetta mál. Upphaflega var sett á laggirnar milliþinganefnd sem mér skilst að hafi lítt eða ekki starfað. Þar að auki er starfandi nefnd embættismanna til þess að undirbúa framkvæmd virðisaukaskattsins. Málið er með öðrum orðum fjarri því að vera komið á það stig að hægt sé að taka afstöðu til þess arna á grundvelli traustra upplýsinga, á traustum talnagrundvelli um það hvað slíkar hugmyndir fælu í sér. Alla vega er ljóst að þeir sem vildu beita sér fyrir þessu í þeirri von að það kynni að leiða til lækkunar vöruverðs að því er varðar helstu lífsnauðsynjar eða þýðingarmestu framleiðsluafurðir íslensks landbúnaðar yrðu að vera við því búnir að koma með tillögur um annað tveggja: verulega lækkun ríkisútgjalda eða aðra tekjuöflun sem gæti numið umtalsverðum upphæðum.
    Ef spurt er um afstöðu okkar alþýðuflokksmanna í því efni liggur hún ljós fyrir. Við erum eindregið að fenginni reynslu þeirrar skoðunar að skynsamlegast sé að því er varðar virðisaukaskattinn að hafa eitt þrep í virðisaukaskatti. Við vekjum athygli á því að frv. í heild sinni er allt saman við það miðað og hver sá sem vill breyta því verður þess vegna ekki aðeins að horfast í augu við að virðisaukaskatturinn sjálfur mun leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð og verður þá annaðhvort að hækka álagningarprósentu eða afla tekna með öðrum hætti.
    Ég mun ljúka þessu, virðulegi forseti, með því að segja að endanleg niðurstaða í þessu máli fæst vafalaust ekki að mínu mati fyrr en vinnu er miklu lengra á veg komið við að undirbúa forsendur fjárlaga næsta árs, en ef spurt er um grundvallaratriði er mitt svar það að bæði með vísan til reynslu okkar sjálfra og til reynslu annarra þjóða teldi ég affarasælast, skynsamlegast að hafa virðisaukaskattinn í einu þrepi

og vitna í því efni ekki síst til þeirrar reynslu sem fyrir liggur í öðrum löndum. Í viðræðum við forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar höfum við bent á og kynnt niðurstöður tveggja nefnda sem um þetta mál hafa fjallað bæði í Svíþjóð og Noregi, m.a. með mjög öflugri þátttöku fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í þessum löndum, þar sem efnt hefur verið til endurskoðunar í þessu efni, og í bæði skiptin hefur það verið sameiginleg niðurstaða þessara nefnda, opinberra nefnda með mjög öflugri þátttöku verkalýðshreyfingarinnar, að skynsamlegast væri og heppilegast ekki hvað síst fyrir hið lægra launaða fólk í þessum löndum að halda fast við eins þreps skatt en miða hins vegar tekjujöfnunaraðgerðir fyrst og fremst við niðurgreiðslur vöruverðs á lífsnauðsynjum og svo hins vegar að nota tekjurnar í auknum mæli til tekjujöfnunaraðgerða í gegnum fjölskyldubótakerfi. Þetta var niðurstaða sænsku verkalýðshreyfingarinnar, þetta varð niðurstaða norsku verkalýðshreyfingarinnar í þeirri endurskoðun sem fram hefur farið um þetta mál í tvígang.
    Að sjálfsögðu er það ekki trúaratriði að ekki sé unnt að framkvæma virðisaukaskatt í tveimur þrepum. En þá verður um leið að gera róttækar breytingar, nokkuð kostnaðarsamar, á framkvæmd innheimtukerfisins og jafnframt
verða menn að vera heiðarlegir gagnvart sjálfum sér og öðrum og vera reiðubúnir að styðja tillögur um verulegan niðurskurð ríkisútgjalda eða umtalsverða tekjuöflun á móti.