Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hv. 1. flm. frv., 4. þm. Vestf., fór nokkrum orðum um það hér í seinni ræðu sinni í gær í hv. deild að ég hefði misskilið grundvallaratriði þau sem hann segir vera í frv. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. um minn skilning á tillögugreinunum. Ég held mig við það að hér er lagt til að afli verði skammtaður á skip eftir nýjum reglum. Þær eru ekki eins og þær reglur sem við búum við núna nema að hluta til, en það eru samt ákveðnar reglur sem eru bundnar við skip.
    Hv. þm. sagði að það sem nú þyrfti fyrst og fremst að gera í íslenskum sjávarútvegi, og ég skrifaði það orðrétt upp eftir honum: Það sem varðaði öllu væri að minnka sóknargetuna. Ég ætla ekki að halda því fram að fiskiskipaflotinn okkar sé ekki of stór, en ég tel ekki að það sé forgangsverkefni að minnka hann. Forgangsverkefni tel ég vera að byggja upp fiskstofnana í þá stærð sem fiskifræðingar telja að eigi að geta verið og hefur verið á undanförnum áratugum, þ.e. við getum sótt í þorskstofninn okkar, sem mest er deilt um og kvótinn er fyrst og fremst tengdur, jafnvel yfir 400 þús. tonn að meðaltali á ári. Ég lít svo á að með því frv. sem hér liggur fyrir sé ekkert auðveldara að nálgast það meginmarkmið heldur en með þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við í dag.
    Það er alveg rétt, sem ráðherra sagði hér áðan, að á undanförnum árum hefði veiðin þurft að vera minni en raun ber vitni um. Þó tel ég sérstaklega að það hefði þurft að sækja öðruvísi í þorskstofninn. Ég fór nokkrum orðum um það í gær að sú þróun hefði átt sér stað á undanförnum árum að möskvar í veiðarfærum hafi farið minnkandi og nefndi þá sérstaklega þorskanet. Það væri öfugþróun. Fyrir stuttu síðan eða sumarið 1984 var minnkaður möskvi í snurvoð. Með því kerfi sem við búum við er frelsið því aukið með þeim takmörkunum sem tengdar eru kvótakerfinu. Það er verið að auka frelsi til alls konar sóknar en mönnum er leyft að sækja á mikið harðari máta í fiskstofnana en eðlilegt er. Sú þróun hefur einnig átt sér stað á þessum árum að togaraflotinn okkar hefur stækkað óeðlilega mikið mundi ég segja, þó að erfitt sé að fullyrða hvað sé eðlilegt og hvað óeðlilegt í þessu. Það er ósköp eðlilegt undir þeirri fiskveiðistjórn sem við búum við. En með því að togaraflotinn hefur stækkað hefur sóknin í smáfiskinn á uppeldisstöðvunum aukist.
    Ég tel því að það að minnka sóknargetuna sé ekki fyrsta boðorðið heldur sé það að sækja á réttan máta í fiskstofnana. Ég tel að okkur hafi tekist það mætavel og þá með kvótakerfi, ég skal fúslega viðurkenna það, bæði á síldveiðunum og á loðnuveiðunum. Sóknin í þá stofna er reyndar byggð á allt annarri veiðitækni en í sambandi við þorskinn. Það eru mikið fleiri rök sem hníga að því að það kvótakerfi sem þar hefur verið við lýði verði áfram frekar en það kerfi sem við búum við í sambandi við þorskveiðarnar.
    Það eru þó ýmsir annmarkar að koma í ljós í sambandi við kvótakerfið t.d. í loðnuveiðunum. Það er að verða æ algengara að loðnuverksmiðjurnar eignist

loðnuveiðiskipin og skipaeignin er að færast á fárra manna hendur. Sumir halda því sjálfsagt fram að þetta sé af hinu góða, en með því er að eiga sér stað ákveðin tilfærsla á framleiðslutækjum, skipum og atvinnutækjum í byggðarlögunum með því að verksmiðjur í ákveðnum landshlutum, fyrst og fremst á Norður- og Austurlandi og reyndar nokkrar hér á Suðurlandi, eignast þessi skip sem færast frá hinum dreifðu byggðarlögum vítt um land. Það er ágalli á kerfinu í kringum loðnuveiðarnar.
    Síldveiðarnar hafa aftur á móti að ég best veit verið stuðningur við hið hefðbundna útgerðarmynstur. Það eru ákveðnir útgerðarmenmn sem eiga skipin þannig að þetta vegur kannski að einhverju leyti salt.
    Um sóknina í þorskstofninn og það sem kemur fram í greinargerðinni með frv. um að sótt hafi verið umfram áætlaðan afla er athyglisvert. Ráðherra fjallaði nokkuð um það í ræðu sinni og benti á það að einn þáttur í því hefðu verið ákveðnar kröfur, m.a. ýmissa aðila á hv. Alþingi, um betri stöðu fyrir smábáta. Sóknarmarkið hefði líka haft þarna ákveðin áhrif á. Sjálfsagt koma þessir þættir báðir inn á þann veg að afli hefur orðið meiri þegar upp er staðið í lok ársins en gert var ráð fyrir í tillögum ráðuneytisins.
    Annar þátturinn sem hér var nefndur, þ.e. sóknarmarkið, átti að vera töframeðalið til þess að laga stöðu þeirra aðila sem voru óánægðir með sinn kvóta samkvæmt aflamarki. Það var mikið rætt um það hér haustið 1984 að þarna væri lausnin fengin til þess að jafna stöðu báta sem hefðu farið illa út úr aflamarkinu og bæta stöðu afburðamannanna því þeir hefðu möguleika til þess að njóta sín betur undir sóknarmarkinu. Eftir reynslu af sóknarmarkinu í tvö ár kom það fram, eins og ýmislegt fleira í sambandi við kvótann, að það voru hin mestu mistök að heimila sóknarmarkið á þann veg sem gert var. Það var sótt of mikið í stofnana. Nú er stefnan sú að það eigi að draga úr þessu svo sem mögulegt er og mætti draga úr fleiru.
    Það má fjalla um þessa hluti í löngu máli en ég mun ekki gera það mikið meira nú. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í gær að ég þakka flm. fyrir að hafa flutt frv. Það er mjög nauðsynlegt að nú á næstu mánuðum fari fram í
þjóðfélaginu umræða um fiskveiðistefnuna. Gallar hennar eru að koma betur og betur í ljós, en jafnvel þó að menn séu að tíunda gallana, eins og hv. 9. þm. Reykn. var að gera hér áðan, þá falla þeir í þá gryfju að lýsa því jöfnum höndum yfir að þeir séu samþykkir þessari stefnu að meira og minna leyti. Ég sé ekki hvernig það kemur heim og saman. Ég tek alveg undir lýsingu hv. þm. á því að það gengur ekki að einhverjir og einhverjir útgerðarmenn hafi möguleika til þess að selja atvinnumöguleikana úr byggðarlögunum. Í beinum tengslum við þetta vil ég bæta því við að það gengur ekki heldur að ef eitthvert útgerðarfyrirtæki fer á hausinn í þessari eða hinni byggðinni geti það undir flestum kringumstæðum orðið til þess að ekki aðeins það fari á hausinn heldur sé kippt atvinnugrundvellinum undan byggðinni vegna

þess að það eru engir aðilar heima til þess að komast yfir þrotabúseignirnar.
    Ég held að þessir og fleiri gallar bendi eindregið til þess að kvóti á skip í þeirri mynd sem við höfum búið við undanfarin fjögur ár gengur ekki nema með einhverjum mjög ákveðnum takmörkunum. Ég ætla ekki að fara að fullyrða það og dettur það ekki í hug í þessari umræðu að við neitum því alfarið að kvóti á skip geti verið lausnin. Það þurfa að koma inn í fiskveiðistefnuna ótalmargir aðrir þættir sem afmá þá vankanta sem við höfum séð og fylgja þessu kerfi sem við búum við. Það er kannski þessi þáttur, sem var nefndur nú síðast og einnig af hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, sem er einn af stóru þáttunum sem verður að afmá. Og svo hitt, sem ég hef nefnt hér sem aðalatriði, að sókninni í fiskstofnana, sérstaklega þorskstofninn eða bolfiskstofnana, verði stjórnað með fleiru en því að segja til um ákveðið tonnatal. Það verður að stjórna þeim þætti með breyttri möskvastærð og með því að tengja magnið ekki aðeins vigt heldur líka hausatölunni, eins og nú er talað um að Norðmenn séu að íhuga að gera þegar þeir standa frammi fyrir algerum aflabresti á sínum þorskmiðum.