Verkfræðingar
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 769 um breyting á lögum nr. 62 frá 5. sept. 1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Þetta frv. kemur frá hv. Ed.
    Þetta frv. er samið í iðnrn. og með því er lagt til að starfsheitið ,,landslagshönnuður`` verði lögverndað hér á landi á sama hátt og þau starfsheiti sem ég las upp áðan. Með starfsheitinu ,,landslagshönnuður`` er hér átt við þá menn sem að menntun og starfsþjálfun eru hliðstæðir þeim sem á ensku bera starfsheitið landscape architect, á dönsku landskabsarkitekt og á þýsku Landschaftsarkitekt. Frv. er flutt að tilmælum Félags landslagsarkitekta, sem svo er nefnt, sem fyrst óskaði eftir lögverndun á starfsheiti sínu árið 1983. Ekki þótti fært að verða við þeim tilmælum félagsins að lögvernda orðið arkitekt, enda hafa t.d. félagar í Arkitektafélagi Íslands hið lögverndaða starfsheiti ,,húsameistari`` en ekki arkitekt eins og starfsbræður þeirra í öðrum löndum. Reyndar var það svo að af hálfu iðnrn. var lagt til að starfsheitið yrði þýtt annaðhvort með orðunum ,,umhverfishönnuður`` eða ,,landslagsmeistari`` sem væri þá líkt hinu íslenska starfsheiti arkitekta sem er eins og alþjóð veit ,,húsameistari``. Félagið óskaði hins vegar eindregið eftir að fá að bera starfsheitið landslagshönnuður. Með vísan til þess að önnur félög, sem höfðu lögverndað starfsheiti samkvæmt þessum lögum, voru meðmælt því heiti og eftir atvikum getur það fallið að sinni gerð við heiti húsgagna- og innanhússhönnuða hefur ráðuneytið fallist á að gera þessa tillögu.
    Ég vil gera það alveg skýrt í þessari framsögu að í frv. er aðeins lagt til að starfsheitið sé lögverndað, en í því felst ekki einkaréttur til starfa. Það verður að teljast sanngirnismál að þeir sem fást við hönnun á landslagi og gerð garða, og hafa búið sig undir það starf líkt og aðrar stéttir sem til var vitnað, fái lögverndun á sínu starfsheiti eins og sambærilegar stéttir þótt auðvitað megi hafa þá skoðun að ástæða geti verið til að endurskoða þá tilhögun sem hér tíðkast.
    Ég vil í þessu sambandi taka það sérstaklega fram að Alþjóðavinnumálastofnunin hefur viðurkennt starfsheitið landslagsarkitekt, gerði það þegar árið 1968 og flokkaði það samhliða starfsheitunum húsameistari og skipulagsfræðingur. Ég vil líka taka það fram að umsagna um þetta mál var leitað frá þeim aðilum sem lög nr. 62 frá 5. sept. 1986 taka til og eru þær umsagnir prentaðar sem fskj. með frv.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. og 2. umr.