Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. nú við 1. umr. málsins, enda verður það væntanlega sent til hv. iðnn. Nd. og þar gefst mér tækifæri til þess að taka þátt í umræðum um málið.
    Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta frv. er komið fram. Það hlýtur væntanlega afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra byggir frv. að meginefni til á þeirri vinnu sem nefnd á vegum iðnrn. vann á sínum tíma, en sú nefnd var sett á stofn í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra tókst því miður ekki að leggja fram annað frv. sem byggðist á frumvarpsdrögum þeirrar sömu nefndar um brotamálma, en það frv. hefur verið sýnt þingmönnum og harma ég að ekki skuli hafa tekist að leggja fram heilsteypt frv. á þessu þingi því þar er ekki síður um þjóðþrifamál að ræða heldur en það frv. sem hér er til umræðu.
    Mér finnst skipta máli þegar við 1. umr. að það komi fram að skilagjaldið og þau gjöld sem hugsanlega verða lögð á umbúðir í því skyni að sjá fyrir því að dósum og öðrum ílátum verði safnað saman, annaðhvort til eyðingar eða endurvinnslu, myndi ekki skattstofn þannig að skattar leggist ekki á þetta gjald. Þetta gjald er ekki skattur í eðli sínu eins og fram hefur komið og skýrt hefur verið tekið fram. Mér finnst vera full ástæða til þess að benda á það, sem mjög sterklega kemur fram í þessu frv. og grg. og hæstv. ráðherra minntist reyndar á, að hér er um hvort tveggja að ræða í senn: Annars vegar umhverfisverndarmál og hins vegar endurvinnslumál. Þess vegna var það eðlilegt að iðnrn. á sínum tíma tæki þetta mál upp, en það gerði ráðuneytið reyndar í samstarfi við heilbrmrn., en heilbrmrh. fráfarandi ríkisstjórnar, reyndar sá sami og situr nú í núv. hæstv. ríkisstjórn, tilnefndi nokkra aðila til nefndarstarfsins á sínum tíma.
    Það vekur auðvitað nokkra athygli að í meðförum hv. Ed. hefur verið gerð breyting á frv. þannig að nú nær skilagjaldið einungis til einnota umbúða utan um drykkjarvörur sem eru úr málmi, gleri eða plastefni en ekki úr pappa eða öðrum sambærilegum efnum. Nú er það reyndar svo að pappi er endurvinnanlegur eins og menn vita og hér á landi hafa starfað fyrirtæki sem hafa endurunnið pappír. Ég hygg að það sé nokkrum erfiðleikum bundið að endurvinna pappa þann sem notaður er í einnota umbúðir, en þó skal ég ekki um það segja. Mér finnst hins vegar að það sé ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að umbúðir úr pappa beri einhver gjöld sem mætti nota með þeim hætti sem endurvinnslunefndin benti á í 2. og 3. gr. þeirra frumvarpsdraga sem lýst er á bls. 14 í athugasemdum með frv. þessu á fskj. 2. Þar er reyndar gert ráð fyrir því að slíkar umbúðir beri nokkuð hátt skilagjald eða umhverfisgjald. Það mætti ugglaust vera lægra gjald og mín skoðun er sú að slíkt gjald ætti síðan að nota eins og fram kemur í 2. mgr. 3. gr. þeirra frumvarpsdraga sem ég nú hef vitnað til.
    Það er auðvitað góðra gjalda vert að ná til einnota

umbúða úr málmi, gleri og plastefnum. Það ríður auðvitað mest á því þessa stundina, en ég hygg að við megum ekki gleyma að aðrar einnota umbúðir, bæði úr pappa og öðrum sambærilegum efnum og nefnd hafa verið, eru umbúðir sem liggja í náttúrunni eins og hráviði á sama hátt og aðrar umbúðir. Reyndar má halda því fram að sumar málmumbúðir eins og þær sem eru úr járni séu forgengilegar ekki síður en pappinn því að þær auðvitað ryðga í tímans rás og hverfa sem betur fer, en sama verður vart hægt að segja um gler-, ál- og plastefni, þótt auðvitað rýrni slík efni í tímans rás.
    Ég fagna því að í Ed. skuli hafa gengið fram sú breyting að takmarka framlag ríkissjóðs til félagsins við 12 millj. kr. Mér skilst á þeim orðum sem fram komu í ræðu hæstv. ráðherra að einhverjar breytingar gætu orðið á hlutafjárframlagi einstakra aðila miðað við það sem fram kemur í athugasemdum með frv. og er ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Ég kýs þó að óska eftir, verði þetta mál afgreitt, að Alþingi eða a.m.k. iðnaðarnefndir Alþingis fái að fylgjast frekar með framvindu mála, fylgjast með því hvernig staðið verði að félagsstofnuninni og fái að hafa hönd í bagga vegna þess að hér er um að ræða fyrirtæki sem kemur til með að hafa einkaleyfi eins og skýrlega er tekið fram í frv.
    Þetta held ég, virðulegur forseti, að sé nauðsynlegt því að í raun er ekki að fullu ljóst hve fyrirtækið verður kostnaðarsamt í upphafi né heldur hvernig rekstur þess kemur til með að ganga jafnvel þótt stuðst sé við líklega eina skástu fyrirmyndina sem kemur frá Svíþjóð, en margar tilraunir hafa verið gerðar víða um heim til þess að kalla saman einnota umbúðir úr þeim efnum sem frv. nær til.
    Ég fagna því að sjálfsögðu líka að í 3. gr. frv. er nú vikið að því að félagið skuli hafa samstarf við sveitarfélög. Það var auðvitað nauðsynlegt vegna þess að það eru sveitarfélögin í landinu sem bera ábyrgð á sorpeyðingu og sorphirðu, en enn fremur bendi ég á --- ég heyrði ekki að það kæmi fram hjá hæstv. ráðherra --- að inn í frv. hefur nú bæst svohljóðandi málsliður, með leyfi forseta: ,,Enn fremur verði leitað samstarfs við þá aðila sem aðstöðu
hafa til úrvinnslu umbúðanna.``
    Þetta skil ég svo að það eigi að leita eftir samvinnu við þá aðila sem hér á landi starfa, sem geta unnið úr umbúðunum og koma þar auðvitað til álita þau iðjuver sem hér starfa sem gætu hugsanlega tekið við einnota umbúðum, til að mynda annars vegar úr áli og hins vegar úr öðrum málmtegundum.
    Ég held einnig að það sé nauðsynlegt að gera ekki verulegan mun á þeim aðilum sem annars vegar kalla saman einnota umbúðir til endurvinnslu og hinna sem geta með álíka góðum hætti eða jafnvel betri hætti náð sama árangri og jafnvel flutt þennan úrgang úr landi ef það reynist hentugra og ódýrara, en þetta sjónarmið mitt byggir einungis á því ef í ljós kemur að það sé heppilegra og kostnaðarminna að senda þennan úrgang úr landi fremur en að vinna hann hér á landi. Þess vegna tel ég eðlilegt að Alþingi fái að

fylgjast með málinu og framvindu þess þegar að því kemur að stofna fyrirtækið og það fer að taka til starfa.
    Hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu að síðar meir mundi þetta fyrirtæki hverfa undir svokallað umhverfisráðuneyti. Ég legg á það áherslu að það er ekki samstaða í þinginu um stofnun slíks ráðuneytis. Sjálfstfl. hefur lýst yfir þeirri stefnu sinni að óþarfi sé að stofna nýtt ráðuneyti um umhverfismál, það sé mun eðlilegra að eitt af ráðuneytunum, þá hugsanlega samgrn., hafi með samræmingaraðgerðir að gera og samhæfingu á þessu sviði. En ýmsir þættir umhverfismála verða ekki skildir frá þáttum þeim sem ríkisvaldið hefur með höndum á degi hverjum. Bendi ég þar t.d. á Siglingamálastofnun sem heyrir undir samgrn. og hefur með höndum ekki hvað minnstan þátt umhverfismálanna sem er vernd sjávarins gegn mengun og kannski eðlilegra að sá þáttur umhverfismálanna heyri áfram undir samgrn. þótt samhæfing þessara mála sé falin einu ráðuneyti. Ég hygg meira að segja að á Norðurlöndum, annars staðar en hér á landi, þar sem umræður hafa farið fram nýlega um þessi mál hafi menn verið að endurskoða það hvort heppilegt sé að vera eingöngu með umhverfisráðuneyti í stað þess að reyna að samhæfa þessa starfsemi í einu ráðuneyti og kalla þá fram þau viðbrögð ráðuneyta sem málið heyrir undir, enda er umhverfisvernd í eðli sínu afskaplega teygjanlegt hugtak og er síbreytilegt og nær reyndar til allra þátta opinberrar stjórnsýslu þannig að þótt í dag sé ákveðið að setja upp ákveðið umhverfisráðuneyti kann sú skipan að vera úrelt strax á morgun.
    Það sem skiptir auðvitað máli í þessu sambandi er, eins og Sjálfstfl. hefur margoft bent á, en hann hefur haft frumkvæði um umræður á þessu sviði á undanförnum árum, að samhæfing eigi sér stað og samræmdar aðgerðir. Þess vegna held ég að það sé ekki tímabært af hæstv. ráðherra við 1. umr. þessa máls að segja að þetta fyrirtæki eigi að færast undir umhverfisráðuneyti þegar það verður sett á stofn því að ég hygg að það verði bið á því, enda skiptir miklu meira máli að menn komi sér saman um samræmdar aðgerðir á því sviði en að setja formlega upp nýtt ráðuneyti í viðbót. Það eru auðvitað til kerfiskarlar, jafnvel í þingmannahópi, sem hafa trú á ráðuneytum og halda að stofnun nýrra ráðuneyta leysi alla hluti út af fyrir sig. Ég er ekki einn þeirra og ég vonast til þess að menn skilji það að það er mun betra að ná árangri í starfi með því að gera sem flesta ábyrga fyrir þessum málum fremur en að þvo hendur sínar með því að stofna nýtt ráðuneyti og telja þá að málum sé borgið. Þetta tel ég eðlilegt og nauðsynlegt að komi fram við þessa umræðu málsins þannig að menn geti ekki stungið öllu ofan í skúffuna hjá hinu nýja umhverfisráðuneyti og sagt: Jæja. Nú erum við búnir að gera skyldu okkar, nú tekur umhverfisráðherrann við, og halda þá að málið sé leyst með þeim hætti.
    Verndun umhverfis okkar verður ekki að veruleika

fyrr en allir, ekki bara stjórnvöld heldur sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, skilja að þeir bera ábyrgð á umhverfis- og náttúruspjöllum og til þess að vinna að því er eitt grundvallaratriðið að það kosti framleiðendur og einstaklinga fjármuni að menga náttúruna. Að því leytinu til er frv. spor í rétta átt og eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra var þetta starf að verulegu leyti unnið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar sem vann verulega mikið starf á sviði skipulagsmála í umhverfismálum.
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé ekki ástæða til við 1. umr. að ræða þetta mál frekar af minni hálfu. Ég held að í nefndarstarfinu hljóti menn að kalla eftir því hve hátt gjaldið eigi að vera í upphafi. Hér er sagt allt að 10 kr. Það gefur svigrúm frá 1 eyri til 10 kr. og auðvitað þurfa menn að vita nokkurn veginn hvað verið er að tala um, hvort það eru 5 kr. eða þaðan af hærri upphæð, enda er nú tryggt að sú upphæð getur hækkað í takt við aðrar verðbreytingar. Enn fremur þarf að koma fram í nefndarstarfinu, og ég vek athygli hæstv. ráðherra á því því að ég efast ekki um að ráðuneyti iðnaðarmála muni leggja nefndinni lið í sínu starfi, hvort ástæða sé til að innheimta skilagjaldið strax eða hvernig nákvæmlega hugmyndin er að standa að þessu máli í einstökum þáttum þar til starfsemi nýja fyrirtækisins hefur komist í það horf sem hún hlýtur að eiga að vera í í framtíðinni.
    Ég get ekki leynt því að ég hefði talið það affarasælast ef málum hefði
verið stillt þannig upp að hægt væri að reka fyrirtæki án þátttöku ríkisins í framtíðinni á þessu sviði, einfaldlega vegna þess að ég held að þegar þessi skilagjöld, og reyndar umsýsluþóknun, hafa verið samþykkt, sé grundvöllur til arðbærs rekstrar í endurvinnslu hér á landi. Þess vegna, í stað þess að taka undir með ráðherranum að þetta fyrirtæki eigi að fara undir nýtt umhverfisráðuneyti, held ég að það skipti mjög miklu máli að það komist þegar fram líða stundir í hendur einkaaðila og að hér verði um arðbæran rekstur að ræða í framtíðinni og að hver einstaklingur, hvert fyrirtæki, hvert sveitarfélag og stjórnvöld megi bera gæfu til þess í framtíðinni að bera þannig ábyrgð á náttúrunni og umhverfinu að okkur takist að snúa vörn í sókn í þeim efnum.