Lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svörin. Þau urðu reyndar eins og mig grunaði, að það hefur ekki mikið skipulagt starf átt sér stað til þess að ná fram verulegri lækkun á raforkukostnaði sem þó var heitið. Ég hef séð þau gögn sem samtökum garðyrkjubænda hafa borist og þar er ekki í raun um neinar úrbætur að ræða frá því sem er. Það hlýtur þó að vera kappsmál að styrkja stöðu þessarar atvinnugreinar og samkeppnisaðstöðu hennar gagnvart innflutningi sem stöðugt eykst. Því vil ég beina því til hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin setji í gang meiri og markvissari vinnu í anda þeirrar þáltill. sem hér var samþykkt fyrir ári.