Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Eins og ég vakti athygli á í fyrirspurnatíma fyrr í vetur er það auðséð ef maður skoðar það og veltir fyrir sér hverjir hafa fengið rækjuvinnsluleyfi á undanförnum árum að það er ekki ráðherra frá Norðurlandi sem hefur veitt þau rækjuvinnsluleyfi heldur þingmaður Austfirðinga. Það er auðvitað laukrétt að það óhóf sem verið hefur í veitingu rækjuvinnsluleyfa hefur kippt fótunum undan rekstri þeirra rækjuvinnslustöðva sem fyrir voru í landinu, þar á meðal Siglósíldar. Þegar samningurinn um sölu á Siglósíld var gerður voru allar ástæður til þess að ætla að reksturinn gæti staðið undir sér. Það hefði hann og gert ef hæstv. sjútvrh. hefði sýnt varkárni, aðhald og gætni í sambandi við veitingu rækjuvinnsluleyfa og hagað sér í samræmi við lög um nýtingu sjávarafla og veitingu veiðileyfa. Ég vísa því hrakyrðum hæstv. fjmrh. heim til föðurhúsanna þaðan sem hann er upprunninn, í fæðingarsveit hans, framsóknarsveitina.