Fjáraukalög 1987
Föstudaginn 05. maí 1989

     Frsm. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Það kom fram við umræðu um þetta mál hér í Sþ. áður að ákveðinn formgalli væri á frv. eins og það hefur verið sett upp. Það mál hefur nú verið skoðað og reynst rétt vera, að ekki væri alveg rétt frá frv. til fjáraukalaga gengið eins og það var lagt fyrir Alþingi. Á þskj. 1036 flytur fjvn. því brtt. við frv. sem gerir það að verkum að uppsetning þess og afgreiðsla yrði með hefðbundnum hætti og þeim atriðum, sem bent var á hér í umræðum um málið fyrr, yrði breytt. Þarna er sem sé aðeins um að ræða formbreytingu til þess að afgreiðslan fari fram með hefðbundnum hætti.