Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Hér er um afar mikilvægt mál að ræða, grundvallaratriði fyrir afkomu þessarar þjóðar og varðar miklu að við séum vakandi fyrir þeim hættum sem okkur eru búnar af margvíslegri mengun í hafinu.
    Við teljum okkur njóta fjarlægðar hér á Íslandi og búa við fæðuöflun úr hreinum ómenguðum sjó, auglýsum það jafnvel þegar við seljum sjávarafurðir okkar, aðalútflutningsvörur okkar. Í þeirri umræðu virðumst við gleyma því að straumar í höfum tengja í raun saman öll heimshöfin og tekur nokkra mánuði fyrir straumana að bera efni um allan hnöttinn. Vaxandi mengun frá iðnaðarþjóðum í þéttbýli ber því eiturefni víða um heimshöf langt frá upprunastað sínum. Einnig má nefna þá hættu sem stafar af því að mörg eiturefni eru fituleysanleg og sækja í fitu og finnast því í meira mæli í fituvef sjávardýra, einkum þeirra sem eru langlíf. Af þessu stafar hætta fyrir þá sem neyta slíkrar fæðu og þetta hlýtur að vera ríkulegt áhyggjuefni fyrir þjóð sem lifir af sjávarfangi.
    Það er löngu brýnt fyrir okkur Íslendinga að skipuleggja og efla rannsóknir og eftirlit með mengunarmálum hér á landi. Mikilvægt skref í þeim efnum er að stofna umhverfisráðuneyti sem lengi hefur verið rætt hér á Alþingi en vegna skammsýnna sjónarmiða af ýmsu tagi ekki fengist samþykkt. Þetta telur Kvennalistinn afar brýnt mál og værum við þingkonur hans sannarlega reiðubúnar að vinna hér á þingi í vor þar til það mál er í höfn.
    Annað mikilvægt skref er að taka af skynsemi og framsýni á fjárveitingum til uppbyggingar rannsókna á þeim sviðum sem varða mengun og ekki síst að sjá til þess að það fólk sem þar vinnur geti unað sínum hag sæmilega. Og beini ég þessum orðum sérstaklega til hæstv. fjmrh. ef hann kynni að vera hér í húsinu.