Búfjárrækt
Mánudaginn 08. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. málsins að afstaða mín til þessa máls og afgreiðslu þess mundi fara mikið eftir því hvernig spilaðist úr tillögum búnaðarþings, en aukabúnaðarþing var þá í undirbúningi og þar af leiðandi fjallaði ég ekki efnislega ítarlega um málið við þá umræðu.
    Nú hafa mál skipast þannig, eins og hefur komið fram hjá hv. frsm., að í meginatriðum og það má segja nálega algjörlega hefur verið tekið mið af tillögum búnaðarþings, vel undirbúnum og vandlega fram settum. Það er að sjálfsögðu afar þýðingarmikið að þannig skuli hafa fengist sátt um þetta mál.
    Menn geta haft ákveðnar meiningar um hitt eða þetta ákvæðið í þessum lögum. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að hér í landinu er hægt að halda uppi vönduðu ræktunarstarfi og mikilvægu á grundvelli þessara laga og það er grundvallaratriði.
    Þetta frv. felur í sér einhvern sparnað frá fyrri lögum og út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja. Það er ekkert sérstakt markmið að eyða miklum fjármunum í félagsmálum í landbúnaði heldur hitt, að ná góðum markmiðum. Það mun koma í ljós á grundvelli þessara laga, verði þau á annað borð gerð virk, hvort hér verður, eins og ég sagði áðan, hægt að halda uppi vönduðu og árangursríku ræktunarstarfi á sviði búfjárræktar í landinu.
    Mér finnst ástæða til að fagna því alveg sérstaklega að hér skuli hafa náðst samstaða. Það hefði verið afar slæmur kostur ef afgreiðslu þessa máls hefði þurft að fylgja ágreiningur og deilur meðal bændanna í landinu og er flestu öðru mikilvægara að hér skuli hafa náðst jafneindregin niðurstaða og ágreiningslaus. Mér finnst ástæða til að færa samnefndarmönnum í landbn. Ed. sérstakar þakkir fyrir afgreiðsluna og störfin í þessari nefnd og ég vona að það verði ekki tekið svo að ég halli á neinn þó að ég geti sérstaklega formanns nefndarinnar, en samkvæmt eðli málsins hefur það komið í hans hlut að leiða þetta mál og ná því fram þannig að full sátt væri og því fylgdi góður hugur.
    Ég legg áherslu á að það hefur verið uppi í þjóðfélaginu, a.m.k. á Alþingi, nokkur ágreiningur í kringum þessa lagagjörð og framkvæmd hennar og ég treysti því að þeim ágreiningi sé eytt og að menn geti tekið höndum saman við að ganga þannig frá þessum málum, m.a. við fjárlagagerð, að ekki þurfi að vera þar í stöðugum átökum og erjum út af jafnlitlum fjármunum og hér um ræðir sem þó hafa mikla þýðingu í störfum bændanna í landinu og fyrir framþróun í búfjárrækt. Þetta er grundvallaratriði og ég treysti því að hæstv. landbrh. beiti sér mjög í þá veru að ná fram góðum vinnubrögðum. Landbn. Ed. og væntanlega Ed. hefur gefið tóninn um gott fordæmi í því starfi sem hér hefur verið unnið og það auðveldar eftirleikinn.
    Ég endurtek svo þakklæti mitt fyrir drengilega afstöðu efrideildarmanna og úrvalsvinnubrögð.