Búfjárrækt
Mánudaginn 08. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál þar sem ég á sæti í hv. landbn. Ég get eins og aðrir sem hafa talað á undan mér þakkað fyrir ágæta samvinnu í nefndinni. Það hefur verið farið nokkuð vel og ítarlega yfir þetta frv. og ég tek undir það að nauðsyn er á ákveðinni endurskipulagningu í sambandi við búfjárræktina. Farið var nokkuð náið eftir þeim breytingartillögum sem gerðar voru á búnaðarþingi þannig að frv. ber nú merki meiri valddreifingar en áður og er það vel.
    Hins vegar er þarna um nokkurn samdrátt að ræða í landbúnaði eins og líka kemur fram í öðru frv., um jarðræktarlög, sem hér er til umfjöllunar. Það er eðlilegt að á tímum samdráttar og breyttra búhátta sé endurskipulagt og jafnvel að dregið sé saman eitthvað í fjárveitingum. Hins vegar tel ég það vera meginefni að þegar verið er að draga saman fjárveitingar til landbúnaðarins og dreifbýlisins sé það ekki gert á þann veg að það renni aftur til ríkissjóðs og e.t.v. til framkvæmda annars staðar. Ég tel það mjög mikilvægt til að halda byggð í landinu að það fjármagn sem sparast í hefðbundnum greinum landbúnaðar fari til að byggja upp atvinnuhætti í dreifbýli þannig að endurskipulagningunni fylgi jafnframt hugsun um byggðastefnu.
    Eftir umfjöllun í nefndinni hef ég velt því talsvert fyrir mér, einkum vegna þess tillits sem tekið var til valddreifingar í nefndinni varðandi frv., hver væru lýðræðislegustu samtök bænda, hvort það væru í raun búnaðarþing og þá búnaðarsamböndin eða Stéttarsamband bænda. Mér fannst af viðtölum við marga og þá sérstaklega konur víða á landsbyggðinni að um það væru talsvert skiptar skoðanir og færi þá kannski eftir því hvort um væri að ræða stórbændur eða smábændur.
    Hins vegar er mjög mikilvægt að bændastéttin fái að koma að þessu máli og að ákvarðanataka sé að einhverju leyti og kannski talsverðu einmitt líka í höndum hennar en ekki stjórnvalda einna. Þarna þarf að vera virk og góð samvinna til þess að vel takist. En umfram allt held ég að við verðum að hafa sjónarmið byggðastefnu í huga þegar við erum að endurskipuleggja og draga saman í hefðbundnum landbúnaðargreinum. Við verðum að hyggja að uppbyggingu annarra atvinnugreina úti á landsbyggðinni ef við ætlum að hafa byggð í landinu öllu.