Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram skrifa ég og hv. 14. þm. Reykv. undir nál. með fyrirvara og þykir mér því rétt að gera grein fyrir afstöðu okkar til málsins í heild.
    Ég gat þess við 1. umr. frv. að hér væri á ferðinni mikilvægt og gott mál. Ég er sömu skoðunar enn eftir að nefndin hefur haft þetta frumvarp til meðferðar. Það hefur verið unnið vel í hv. heilbr.- og trn. og það var vissulega styrkur að því að starfsmaður frá ráðuneytinu, Dögg Pálsdóttir deildarstjóri, hefur mætt á fundum nefndarinnar eftir því sem óskað hefur verið. Frv. var hins vegar ekki sent til umsagnar vegna þess hve stuttur tími var til stefnu, en eins og kunnugt er var mælt fyrir þessu frumvarpi 11. apríl og í dag er 9. maí svo að það er rétt um mánuður síðan frumvarpið kom til heilbr.- og trn. Nú er málið hér til 2. umr.
    En eins og ég sagði er hér á ferðinni gott mál og því var góð samvinna um að koma því áfram. Nefndin stendur öll að þeim brtt. sem hv. 5. þm. Norðurl. e., frsm. og formaður nefndarinnar, hefur nú gert grein fyrir.
    Með þessum brtt. hefur verið tekið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga sem fram komu hjá ýmsum þeim aðilum sem komu á fundi nefndarinnar að undanskildum atriðum sem lofað hefur verið að sett verði í reglugerð og ekki eru talin þurfa lagabreytingar við. Þar er m.a. um að ræða athugasemdir við 7. og 19. gr. frv.
    Nú liggur fyrir, eftir því sem ég hef fengið upplýst, að það hafi aldrei verið samin reglugerð við núgildandi lög þó því hafi oft verið lofað. Því þótti okkur, hv. 14. þm. Reykv. og mér, nauðsynlegt að tryggja að nú verði reglugerð við þessi lög sett þannig að hún liggi fyrir um leið og lögin taka gildi. Því erum við mjög ánægð með að nefndin samþykkti að taka það ákvæði upp í sínum brtt. sem á að tryggja þetta og kemur fram í breytingum við 30. gr. frumvarpsins.
    Ég endurtek að í heild lýsi ég ánægju minni með frumvarpið. Ef tekst að tryggja framkvæmd laganna, að þeim verði fylgt eftir, ætti það að stuðla að bættri þjónustu við aldraða bæði hvað varðar heilbrigðisþjónustuna og þá félagslegu. Heimaþjónustan er sá þáttur sem þarf að leggja á aukna áherslu og góðu heilli hefur skilningur aukist á mikilvægi slíkrar þjónustu en því miður víða engan veginn nægjanleg. Mikilvægi heimaþjónustunnar er tvíþætt. Annars vegar er þetta hagkvæm lausn til að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er til að sinna þörfum hvers einstaklings og miklu ódýrari en að vista fólk á stofnunum og hins vegar að hjálpa öldruðum til að búa sem lengst heima, hjálpa þeim til að halda reisn sinni og sjálfsvirðingu, hjálpa öldruðum til sjálfshjálpar. Þjóðfélagið stendur í þakkarskuld við aldraða sem hafa lokið sínum starfsdegi og lagt sitt af mörkum til þjóðarbúsins.
    Við 1. umr. um frv. gerði ég athugasemdir við tvær greinar þess. Við 10. gr., um tekjur

Framkvæmdasjóðs, þ.e. sérstakt gjald sem skattstjóri leggur á og er ætlað að vera 2500 kr. á árinu 1989. Fyrirvari minn eða athugasemdir voru að ég óttast að gjaldið fái ekki að renna óskert í Framkvæmdasjóð aldraðra því að það hefur reynslan sýnt okkur að markaðir tekjustofnar eru oftast nær skertir af hendi ríkissjóðs hverju sinni með fjárlögum. Það hefði verið fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. ráðherrum hvort það er fyrirhugað í sambandi við þessi lög eða hvort þau fá að þjóna sínu markmiði. Nú sé ég að eini hæstv. ráðherrann sem hefur litið inn í þessa deild gengur út þegar ég segi þessi orð svo það er lítið um að hér sé nokkur fulltrúi frá ríkisstjórninni til að svara. Engu að síður vil ég leggja á þetta áherslu. Ég vantreysti hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum, en ég hefði gjarnan viljað fá það staðfest hvort það ætti að standa við það sem hér kemur fram þegar þetta frumvarp er orðið að lögum.
    Meginathugasemd mín við þetta frumvarp er við 27. gr. og er í mínum huga grundvallarviðhorf til þessa hóps í þjóðfélaginu, hinna öldruðu. Það er þessi forsjárhyggja þegar fjárráðin eru bókstaflega tekin af fólki sem hefur unnið sér rétt til eftirlauna með greiðslu í lífeyrissjóði árum saman sem skilar sér í 27. gr. Ég tel þarna vera um mismunun að ræða í þessu efni á milli þeirra aldraðra sem fá eingöngu sínar tekjur úr Tryggingastofnun ríkisins og hinna sem hafa öðlast rétt með því að greiða í lífeyrissjóð sinn árum eða áratugum saman til að verða sjálfbjarga í ellinni og eiga eitthvað til þeirra ára þegar starfsdegi lýkur. Samkvæmt þessari 27. gr. á nú að taka ráðin af þessu fólki.
    Þeir sem hafa eftirlaun og því aðeins grunnlífeyri frá Tryggingastofnuninni eiga að greiða vistgjöld af launum síum að fullu ef þau hrökkva til þess, en mega náðarsamlegast halda eftir svolitlum vasapeningum, 11.000 kr., og ef eftirlaunin eru hærri en vistgjöldum nemur og þessum 11.000 kr. mega þeir eiga það sem afgangs er. En ég geri ráð fyrir að slíkir eftirlaunamenn séu nú færri en hinir.
    Svo er annað sem gerist með þessari 27. gr. Nú á einnig að taka laun þeirra eftirlaunaþega sem þurfa að leggjast inn á hjúkrunardeildir sem ég vil meina að séu ekkert annað en sjúkrahús fyrir aldraða þegar þeir þurfa slíkrar
umönnunar við og læknisþjónusta verður ekki veitt annars staðar. Þeir eiga að greiða fyrir það. --- Ég ætla að leyfa mér að vitna í 18. gr. frv. þar sem eru skilgreindar hjúkrunardeildir eða hjúkrunarheimili. Skv. 27. gr. á dvalarkostnaður á stofnunum fyrir aldraða skv. 18. gr., þ.e. þjónustuhúsnæði og hjúkrunarrými, að greiðast af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 27. gr. Þegar aldraðir þurfa hjúkrunar við eiga þeir að greiða fyrir slíka hjúkrun á hjúkrunardeildum en almennir sjúklingar á sjúkrahúsum þurfa þess ekki hversu góðar tekjur sem þeir hafa.
    Þetta er viðhorf sem ég get ekki fellt mig við. Ég get ekki greitt þessu atkvæði eins og það er í frumvarpinu og þar mæli ég einnig fyrir hönd hv. 14. þm. Reykv. En til þess að ná fram nokkurri breytingu

sem væri þó til bóta höfum við lagt fram brtt. á þskj. 1103 við 27. gr. um að orðin ,,eða öllu`` í lok 2. málsgr. falli brott sem þýðir að það yrði þá tryggt að þessir aðilar mundu þá aldrei greiða nema hluta af tekjum sínum en ekki að öllu leyti eins og gert er ráð fyrir í greininni fyrir utan þessar 11.000 kr. í vasapeninga. Það mætti kannski hugleiða hvað hægt er að fá fyrir 11.000 kr. á mánuði.
    Það er engu líkara en að menn telji sig geta hugsað fyrir aldraða, tekið af þeim ráðin og ákveðið það að þeir þurfi ekki á peningum að halda. Þeir þurfa líklega ekki að klæða sig. Þeir þurfa ekki að hafa peninga til að gleðja ástvini sína, til að gleðja barnabörnin sín eða jafnvel barnabarnabörnin sem oft geta verið mörg. Þeim er ekki ætlað að hafa ráðrúm til þess. Eins og ég sagði áðan er þetta viðhorf sem ég get með engu móti sætt mig við.
    Ég geri mér vonir um að þessi litla brtt. finni náð fyrir augum hv. þingdeildarmanna og hún væri þó aðeins lítið spor í rétta átt til að sýna þarna viðleitni til skilnings.
    Það mætti e.t.v. í þessu sambandi rifja upp að í tíð þáv. heilbrmrh. Matthíasar Bjarnasonar, ég held að það hafi verið 1983 eða 1984, það var í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar núv. hæstv. forsrh., hann var einnig forsrh. á þeim tíma, kom til tals innan þeirrar ríkisstjórnar hvernig mætti gera einhverjar ráðstafanir til að reyna að spara í heilbrigðiskerfinu og þá ekki síst í kostnaði á sjúkrahúsum. Það kom til tals að það mætti e.t.v. láta sjúklinga sem legðust inn á sjúkrahús en væru á fullum launum, takið eftir því, væru á fullum launum og ekki á lágum launum heldur þá sem væru á góðum launum, greiða gjald sem næmi að hámarki fæðispeningum í tíu daga, aldrei lengur þó um langlegu væri að ræða en tíu daga á ári. Þetta hafði komið til tals innan þessarar ríkisstjórnar og hafði þáv. heilbr.- og trmrh. viðrað þessar hugmyndir. Ég þarf sennilega ekki að rifja það upp fyrir ýmsum sem hér eru inni hvílíkt fjaðrafok varð út af þessum hugmyndum og þar áttu ekki síst hlut að máli ýmsir þingmenn Alþb. Þeir voru svo hugmyndaríkir að þeir gáfu þessu nafnið ,,sjúklingaskattur`` sem íhaldið ætlaði að leggja á þá sem þyrftu á heilbrigðisþjónustu að halda, þá átti að skattleggja.
    Það hefði vissulega verið fróðlegt að heyra nú hvað Alþb. vill kalla þennan skatt sem á að fara að leggja á aldraða sjúklinga, taka launin þeirra til að greiða kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu. --- Það er, hæstv. forseti, heldur dapurlegt að hugsa til þess að ef það eru ekki einhver uppákomumál, ef ég má orða það svo, í þessari hv. deild virðast menn ekki hafa áhuga á að ræða mál. Þetta er sennilega of, ja, ég veit ekki hvað ég á að segja --- ómerkilegt mál í hugum sumra til þess að þeim þyki taka því að fjalla um það, málefni þeirra sem hafa lokið sínum starfsdegi, sem hafa skilað sínu til þjóðfélagsins með sínum störfum og ættu nú að uppskera laun sinna verka.
    Ég ætla að láta máli mínu lokið, hæstv. forseti. Ég gat ekki á mér setið að minna á þetta því mér finnst vera fyllsta tilefni til að taka þessi atriði hér fyrir

þegar verið er að ræða þetta mál því þetta er að mínu viti grundvallaratriði, þær hugmyndir sem liggja að baki 27. gr. Ég endurtek að ég get ekki fellt mig við og ég mun ekki greiða 27. gr. atkvæði. Ég mun greiða atkvæði á móti henni, en ef svo vel vildi til að brtt. 1103 næði fram að ganga mundi ég breyta afstöðu minni til þess.
    En ég ítreka að lokum að að öðru leyti en þessu er hér um mjög gott og mikilvægt mál að ræða sem við munum standa að og styðja og ég vænti þess að það fái greiðan og góðan aðgang í gegnum þingið.