Búfjárrækt
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um búfjárrækt. Það er 465. mál. Þá hefur frv. verið dreift á þskj. 1097 eins og það kom frá hv. Ed.
    Frv. er að hluta til ætlað að koma í stað gildandi laga um búfjárrækt, eða laga nr. 31/1973, og það felur í sér talsverðar breytingar frá gildandi lögum. Við samningu þess voru einkum höfð að leiðarljósi tvö markmið, þ.e. að skipta skyldi upp núverandi lagabálki um búfjárrækt þannig að sett yrðu sérstök lög um búfjárhald annars vegar og hins vegar almenn löggjöf um búfjárrækt og er þetta frv. afrakstur þeirrar vinnutilhögunar og lýtur að búfjárræktarstarfinu sjálfu.
    I. kafli frv. fjallar um tilgang laganna og yfirstjórn, II. kafli um skipan búfjárræktar og III. kafli um verndun séreinkenna í íslensku búfé, þ.e. erfðageymd eða varðveislu erfðaeiginleika í íslensku búfé, og um útflutning búfjár. Í IV. kafla laganna eru svo almenn ákvæði.
    Meðal helstu nýmæla í frv. má nefna að í 2. mgr. 4. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti með samþykkt Búnaðarfélags Íslands viðurkennt einstök búgreinasamtök til að fara að einhverju eða öllu leyti með þau verkefni sem ákveðin eru í lögum þessum og snerta þá viðkomandi búgrein. Þetta ákvæði á sér í raun hliðstæðu í 4. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og er sem sagt áframhald á því í lagasetningu að viðurkenna möguleika einstakra búgreinasamtaka til að hafa forræði um sín mál.
    Síðan eru ýmis önnur nýmæli í frv. sem ég rakti í framsöguræðu fyrir málinu í hv. Ed. og vísast til þess hér.
    Ég vil geta þess að hv. Ed. fjallaði ítarlega um þetta mál og svo vel tókst til að samstaða varð um afgreiðslu þess og sameiginlega flutti landbn. Ed. ákveðnar brtt. sem margar hverjar lutu að því að taka til greina athugasemdir frá aukaþingi búnaðarþings sem kallað var saman sérstaklega til að fjalla um ekki síst þetta frv. Ég tel því að málið sé, í þeim búningi sem það kemur til hv. Nd., orðið vel undirbúið og að góð samstaða hafi tekist um meginefni þess eins og afgreiðsla Ed. ber vitni um.
    Ég vísa svo að öðru leyti til framsöguræðu þeirrar sem ég flutti fyrir málinu í hv. Ed. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.