Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég gerði ekki athugasemd við það þegar málið var tekið úr nefnd, en vil á hinn bóginn minna á að ég hafði beðið um tilteknar upplýsingar frá Seðlabanka og viðskrn. varðandi erlendar lántökur sem ég tel nauðsynlegt að liggi fyrir nú um leið og þessi umræða fer fram og var það upplýst af fulltrúa Hagsýslustofnunar að þessar upplýsingar lægju fyrir hendi hjá Seðlabanka fram í marslok og hjá viðskrn. fram í apríllok, að vísu sem trúnaðarmál, en ég hygg að eftir atvikum hljóti að vera hægt að fallast á, hæstv. forseti, að nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. sé trúandi fyrir slíku og þá merkt sem trúnaðarmál ef ekki þykir ástæða til að þeir geti skýrt þingheimi frá. ( EG: Ég skal skýra það mál fyrir hv. þm. á eftir. Mér láðist að gera það fyrir umræðuna.) En ég treysti því að áður en klukkan verði hálffjögur liggi þessar upplýsingar fyrir í þingdeildinni þannig að þessi plögg hafi borist nefndarmönnum. Það er ekki meira en hálftíma gangur ofan úr Seðlabanka og viðskrn. niður á Alþingi og það ætti ekki að taka þessar stofnanir meira en tíu mínútur að ljósrita þessi plögg. Ef það dugir ekki held ég að það sé nauðsynlegt að gera hlé á þessari umræðu til að við getum þá kallað fulltrúa frá þessum aðilum til fundar við okkur. ( Forseti: Forseti vill verða við þeirri beiðni að gert sé fimm mínútna hlé á umræðunum meðan þessi mál eru könnuð til þess að hægt sé að verða við óskum hv. þm.) --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Af einhverjum ástæðum hafði farið fram hjá mér, kannski hef ég ekki verið staddur á fundi fjh.- og viðskn., þegar dreift var plöggum frá Seðlabanka Íslands meðan fundur var haldinn í þingflokkshberbergi Alþfl. í asanum í gær og hafa verið gerðar ráðstafanir til að ég fái það plagg í hendur. Ég vil í annan stað, hæstv. forseti, vekja athygli á því að nefndarmenn í fjh.- og viðskn. hafa ekki fengið í hendur neinar upplýsingar eða neinar umsagnir um brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem lýtur að atvinnuleysisbótum, þ.e. breyting á lögum um ríkisábyrgð á launum, en svo óheppilega vill til að sá starfsmaður félmrn. sem fjallar um þessi sérstöku mál er erlendis. Það vill enn fremur svo óheppilega til að sá sem gæti gefið nefndinni upplýsingar í Atvinnuleysistryggingasjóði er í verkfalli og af þessum sökum hefur nefndin ekki getað kynnt sér þessi mál sem skyldi og ítreka ég það, sem ég sagði á nefndarfundi, að nauðsynlegt er fyrir nefndarmenn að fá umsagnir um þessi mál ef fyrir liggja í félmn. Nd. þar sem málið var til umræðu. Ef svo er ekki væri mjög gott að fá einhverjar frekari upplýsingar hjá hæstv. staðgengli forsrh. um þau sjónarmið sem lágu til grundvallar í sambandi við breytingu á framkvæmd laga um ríkisábyrgð á launum og eftir atvikum heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs til að innheimta slíka kröfu.
    Þar sem ég fékk ekki brtt. meiri hl. í hendur fyrr en rétt í þann mund sem ég stóð upp hef ég ekki haft tíma til þess að bera nákvæmlega saman texta í 7. gr.

frv. og í brtt., en við fyrstu sýn virðist sem í frv. sé gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóði sé heimilt að tryggja launafólki fyrirtækja sem verða gjaldþrota rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um ríkisábyrgð á launum, en hins vegar virðist þetta ákvæði vera mun víðara eins og brtt. liggur fyrir og samkvæmt þeim breytingum sem gert er ráð fyrir á lögum um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi`` o.s.frv.
    Þarna er talað almennt um kröfur til launa samkvæmt lögum um ríkisábyrgð á launum en ekki bundið sig við uppsagnarfrest eins og er í 7. gr. Ég átta mig ekki alveg á hvernig meiri hlutinn hugsar sér framkvæmd þessara tveggja lagaparagrafa. En ég þykist vita að frsm. meiri hl. muni útskýra með hverjum hætti framkvæmdin verði. Það eru oft deilur uppi um hvort krafa sem liggur fyrir skiptarétti um vangoldin laun eigi rétt á sér. Það er margt sem getur komið til sem veldur því að krafan er ógild --- ef viðkomandi er eigandi, ef viðkomandi er barn eiganda, náfrændi eiganda, tengdasonur eða tengdadóttir eiganda. Það er meira að segja svo, hæstv. forseti, að í vissu máli sem ég er kunnugur er talið að krafa sé ógild vegna þess að viðkomandi er tengdabarn manns sem átti sæti í stjórn viðkomandi félags fyrir þó nokkrum mánuðum. Kröfur eru með margvíslegum hætti, seinagangur í úrskurði mikiill og væri auðvitað mjög þýðingarmikið, hæstv. ráðherra, ef hægt væri að flýta fyrir því að úrskurðir yrðu gefnir um réttlæti launakrafna í þrotabúum. Ég hygg að slík flýting, ef möguleg væri, yrði ekki síður mikil réttarbót en ný lagaparagröf sem auðvitað kalla öll á meira eða minna málavafstur og spurning um hvort krafa sé réttmæt eður ei kemur hvort eð er upp í dæmið.
    Það má líka spyrja í þessu sambandi hver sé hugsun meiri hl. ef svo fer að skiptaréttur dæmir kröfu á hendur ríkissjóði vegna laganna um ríkisábyrgð á launum ógilda, en Atvinnuleysistryggingasjóður hefur á hinn bóginn innt greiðslur af hendi eða þá sveitarfélag eða stéttarfélag. Það má spyrja hver
beri ábyrgð á slíkum greiðslum.
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er flutt vegna ráðstafana vegna kjarasamninga og er það fyrst að segja að því er síður en svo að heilsa að kjarasamningum sé lokið. Verkfall háskólamennaðra ríkisstarfsmanna stendur enn yfir og því miður hefur maður fulla ástæðu til að ætla að ekki hafi verið haldið á samningamálum ríkissjóðs með þeim hætti að maður geti treyst því að hæstv. ráðherra sem með þessi mál fer og ríkisstjórnin hafi lagt sig fram um að finna lausn á þeim málum. Við heyrum um það í fréttum dag eftir dag, kvölds og morgna. Við lesum það í öllum fjölmiðlum sem út koma hversu miklu

tjóni þessar kjaradeilur hafa valdið. Annars vegar horfum við á að ekki er hægt að ljúka skólaárinu með eðlilegum hætti og hægt að færa fyrir því mjög gild rök að ýmsir námsmenn muni af þessum sökum hverfa frá námi. Öll sú óvissa sem nú er í skólamálunum --- og ekki aðeins óvissan um það hvort viðkomandi nemendum verði gefinn kostur á því að ljúka námsárinu nú á þessu vori heldur líka óvissan um það hvenær það verði gert og ekki bætir úr skák þegar farið verður að tala um það að nemendur megi búast við því að þurfa að taka próf sín jafnvel í júnímánuði, ágústmánuði eða september, próf sem þeir að öllu réttu ættu að hafa lokið fyrir næstu mánaðamót.
    Enn fremur blasir við t.d. í landbúnaðinum að bændur standa frammi fyrir miklum búsifjum og það má færa fyrir því gild rök að til fjárfellis kunni að koma ef fóðurbætir berst ekki í tíma til þeirra byggðarlaga sem harðast hafa orðið úti nú í harðindum hjá bændum sem kannski hafa verið illa undir þau búnir. Í gær ræddi hv. 14. þm. Reykv. um þá sérstöku erfiðleika sem nú steðja að í sambandi við fiskeldið og þannig mætti lengi telja.
    Hæstv. sjútvrh. talaði með þeim hætti í gær að við því væri að búast að ríkisstjórnin mundi kannski grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón á vissum sviðum, en vék minna að hinu hvort slíkar ráðstafanir yrðu almennar og mundu taka til allra þátta þessarar kjaradeilu og afleiðinga hennar. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið hæpið að löggjafarvaldið grípi inn í.
    Hæstv. forseti. Nú stendur svo á að Svavar Gestsson menntmrh. úr Alþb., Halldór Ásgrímsson staðgengill forsrh. og sjútvrh. úr Framsfl. og Jón Sigurðsson viðskrh. og iðnrh. úr Alþfl. hafa allir gengið úr fundarsalnum á sama tíma og ég hef verið að tala um þær alvarlegu vinnudeilur sem hér eru uppi, allir þessir þrír hæstv. ráðherrar. Hins vegar kæmi mér ekki á óvart þó svo kynni að fara að nú í kvöldfréttum verði það einmitt þessir þrír stjórnmálamenn sem verði spurðir um það hvaða álit þeir hafi á kjarasamningunum vegna þess að fjölmiðlunin er með þeim hætti að sú rödd sem hæst kveður í þinginu heyrist ekki í gegnum fjölmiðlana, en á hinn bóginn eru einstakir ráðherrar farnir að ganga á það lagið að þeir þurfa ekki að vera við í þingsölum vegna þess að fréttamennirnir koma hlaupandi að þeim á eftir og þá geta þeir talað til þjóðarinnar í gegnum fjölmiðlana en þurfa ekki að standa fyrir máli sínu á hinu háa Alþingi.
    Í gær sá maður mjög glöggt dæmi þessa þegar hæstv. menntmrh. var spurður um hvað hann vildi gera í sambandi við skólamálin og svaraði því einu til að þetta væri mjög alvarlegt mál, eins og allir vissu það ekki, eða þegar hæstv. félmrh. lét sem það væri einhver sigur fyrir hana þegar það tókst með hörmungum að ná húsbréfafrv. í gegnum Nd. Og smekkvísi hæstv. félmrh. var slík að hann gat ekki í útvarpsfréttum stillt sig um að gefa í skyn að þingmenn Kvennalistans hefðu brugðist Alþfl. með því

að greiða atkvæði með þeim brtt. sem afgreiddar voru. (Gripið fram í.) Þetta er ekki satt, segir hv. þm. Keflvíkinga. Ég sagði gefið í skyn. (Gripið fram í.) Hæstv. félmrh. sagði: Ég læt öðrum eftir að dæma um það eða ég læt þingmönnum Kvennalistans eftir að dæma um það. Ef einhver vafi leikur á hvor fer með rétt mál í þessu, ég eða hv. þm. Keflvíkinga, væri kannski hægt, hæstv. forseti, að leiða til vitnis þingmenn Kvennalistans, hvernig þeir hafi skilið ummæli hæstv. ráðherra í gærkvöld, eða það, sem kannski væri enn þá betra, að biðja þingið að ná í viðtalið klukkan sjö í Ríkisútvarpinu í gærkvöld og senda það og reka það ofan í nefið á þingmönnum Alþfl. þannig að þeir geti lesið það sem ráðherrann lætur hafa eftir sér.
    En ég harma það hins vegar, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrar skuli ekki vera hér við meðan ég fjalla um þær kjaradeilur sem uppi eru og óska eftir því að það verði gert korters hlé á fundinum þannig að ég geti beint máli mínu til hæstv. ráðherra af þessu tilefni. ( Forseti: Má ég upplýsa hv. þm. um það að Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjútvrh., gegnir hlutverki forsrh. og er því á fundi forsrh., forseta þingsins og þingflokkssformanna frá þrjú til a.m.k. hálffjögur. Í salinn er genginn Jón Sigurðsson, hæstv. viðskrh. En vill hv. þm. fara fram á það að menntmrh. sæki þennan fund?) Það vill svo til, hæstv. forseti, að það mál sem hér er til umræðu heyrir undir hæstv. forsrh. og ég held að það sé óhjákvæmilegt að fresta þá fundi deildarinnar þangað til sá ráðherra sem málið heyrir undir getur verið viðstaddur. Ég óska eftir því að það verði gert hlé á ræðu minni þangað til hæstv. forsrh. sér sér fært að vera
hér í deildinni og gegna skyldustörfum sínum. Við höfum beðið um það stjórnarandstæðingar svo vikum skiptir að fá einhverjar upplýsingar um það frá stjórnarflokkunum hvernig eigi að ljúka þessu þinghaldi, hver séu þau mál sem eigi að ganga fyrir, hvenær þinginu eigi að ljúka --- er það í þessari viku eða er það í næstu viku? Og svarið hefur verið í styttingi frammi á göngum og hvar sem maður hefur komið: Það á að ljúka þinginu á föstudaginn eða laugardaginn. Og það var í hverri einustu viku og það hefur ekki fengist fram að þessu svo mér sé kunnugt nein skýring á því hvaða mál eigi að sitja fyrir.
    Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. sé hér við. Hann gegnir störfum forsrh. sem ég þarf sérstaklega að ræða við. Þar að auki þarf ég sérstaklega að ræða við hæstv. sjútvrh. Ég óska eftir því að þessari umræðu verði frestað, það má taka önnur mál á dagskrá mín vegna, þannig að hæstv. forsrh. geti heyrt mitt mál.
    Það var ekki talað um það, þegar ég greiddi fyrir því að þetta mál gæti komið hér til umræðu í dag, við mig einu einasta orði að hæstv. forsrh. yrði ekki við umræðuna eða staðgengill hans, hæstv. sjútvrh. Það er algjörlega út í bláinn að við séum að standa hér upp og beina fyrirspurnum til ráðherra sem er fjarverandi þó hann heyri þær.