Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið var ég flm. að því litla frv. sem hér hefur verið afgreitt frá hv. fjh.- og viðskn. og ég þakka nefndinni fyrir að hafa nú afgreitt þetta mál út úr nefndinni. Að vísu hefur ekki náðst samstaða um málið þar sem hér hefur verið skilað meiri- og minnihlutaáliti, en ég vil engu að síður þakka nefndinni fyrir að hafa tekið málið fyrir til afgreiðslu og sérstaklega þakka þeim hv. þm. sem skrifa undir meirihlutaálit nefndarinnar.
    Hv. 3. þm. Vesturl., frsm. minni hl., gerði grein fyrir afstöðu minni hl. nefndarinnar sem byggist fyrst og fremst að mér skilst á bréfi vararíkisskattstjóra og er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Hins vegar er það í mínum huga kannski ekki endilega einhlítt að þingmenn eða nefndir þingsins fari ævinlega eftir því sem embættismönnum þykir vera rétt. Þá væri það vissulega óþarft sem við erum að vinna.
    En af því að hv. 3. þm. Vesturl. kom inn á að hann taldi það hæpnar brautir að setja lög um einstök tilvik vil ég aðeins segja að mér þykir það ekkert óeðlilegt þó að þingmenn taki sig stundum til og reyni að fá leiðréttingu á ýmsum lögum sem sett hafa verið hér þegar í ljósi reynslunnar er sýnt að þau eru að einhverju leyti gölluð eða þau gæta ekki kannski réttlætis í öllum þeim tilvikum sem þeim hafði e.t.v. verið ætlað að gera.
    Það eru greinilega mismunandi viðhorf til þess í þessu máli hvort réttlætis er gætt samkvæmt lögunum, hvort lögin nái til allra sem um er að ræða, en eftir að ég varð vör við að það geta komið upp tilvik, og þá tek ég sérstaklega fram að þau eru sem betur fer ekki mörg og eins og hv. 8. þm. Reykv. tók fram, frsm. meiri hl., getur hér aldrei orðið um stór fjárútlán að ræða því að sem betur fer er ekki mikið um að íbúðaeigendum eða húseigendum sé gert að rífa húsin sín vegna þess að þau séu bókstaflega heilsuspillandi eins og var um að ræða í því tilviki allt til þess er ég fór að skoða þessi lög.
    En það er líka rétt að benda á að svona tilvik verða kannski fyrst og fremst úti á landsbyggðinni. Þau eru kannski sjaldgæfari einmitt hér í þéttbýlinu eða í Reykjavík má segja, en geta frekar komið upp úti á landsbyggðinni. Þess vegna sé ég ekkert athugavert við það að við reynum að lagfæra lögin ef við komumst að raun um það að skattstjórar taki ekki tillit til slíkra undantekningartilvika eins og um var að ræða og ég tilgreindi. Ég vil taka sérstaklega fram að það er ekki verið að leggja hér fram frv. til að biðja um lög fyrir einhvern einn einstakling heldur miklu frekar að þarna er ljóst að það er réttlætismál að gera undantekningar í tilvikum sem þessum.
    Þegar skattstjóri hefur svarað viðkomandi aðilum sem sækja um húsnæðisbætur skiptir engu máli þó húsnæðismálastjórn hafi veitt viðkomandi leyfi sem um nýbyggingu á fyrstu íbúð væri að ræða. Það skiptir skattstjóra eða skattálagninguna engu máli, einungis lögin eins og þau eru sett.
    Varðandi bréf vararíkisskattstjóra, þá einmitt talaði hann um að þessi lög nái til flestra tilvika sem þýðir

að það eru tilvik sem ekki er hægt að skilgreina innan ramma þessara laga. Þess vegna finnst mér það skjóta svolítið skökku við þegar hann í síðustu málsgr. bréfsins segir að sú tillaga sem hér er lögð til sé í mótsögn við megintilgang laganna um húsnæðisbætur sem þeim var ætlað að leysa, en í lok síðustu setningar þessarar síðustu málsgreinar segir hann: ,,Sé þörf á breytingu á gildandi reglum er bent á að fremur beri að breyta reglugerð en lögum um umrætt atriði.``
    Það má vel vera. Ég skal viðurkenna að ég er ekki lögfræðingur, en ég hefði haldið að það væri þá ekki hægt að breyta reglugerðinni innan ramma laganna úr því að þetta er í mótsögn við þau. Þess vegna tel ég að hér sé um réttlætismál að ræða sem megi taka tillit til og þurfi ekki að kalla á neina skriðu af alls konar beiðnum eða undanþágutilvikum. Það er svo skýrt skilgreint hvað átt er þarna við. Þetta er m.a. einn liður í því að stuðla að því að fólk geti búið í betra húsnæði, þ.e. að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Nú skulum við hafa hugfast að oftast á efnalítið fólk í hlut þegar um slík tilvik er að ræða eins og ég er með hér í huga. En það verður bara að koma í ljós hvaða afgreiðslu þetta mál fær hér. Ég vil engu að síður endurtaka þakklæti mitt til nefndarinnar og þá fyrst og fremst meiri hl. sem mælir með að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem flutt er og ég að sjálfsögðu styð.