Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) (frh.) :
    Herra forseti. Ég fór fram á það í dag að hæstv. sjútvrh. yrði við og ég sá að hann var inni í deildinni klukkan sex, en síðan er ríkisstjórnarfundur og má kannski segja af þeim sökum að erfitt sé um vik. Ég get auðvitað komið inn á eitthvað annað svo þetta dragist ekki úr hömlu, en ég hafði búist við því að hann yrði hér. ( Forseti: Ég vonast eftir honum líka á hverri stundu, en ef hv. þm. óskar eftir þá skal ég fresta fundi.) Ég vil fyrst ítreka það sem ég sagði í dag að ástæðan fyrir því hversu litla rækt einstakir ráðherrar leggja við að vera viðstaddir umræður og ástæðan fyrir því hversu mjög þeir láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum sem einstakir þingmenn beina til þeirra er vitaskuld að í fjölmiðlum kemur ekki fram hvernig umræður í þinginu raunverulega eru og skiptir ekki máli hvort spurt er um mjög afmarkaða hluti í ræðustól eða flókin atriði. Einstakir ráðherrar virðast komast upp með það úti í þjóðfélaginu að gefa yfirlýsingar sem ekki standast og það virðist eins og það komi ekki fram í fjölmiðlum þótt þeir láti undir höfuð leggjast að standa við þau orð og þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið fyrirheit um og jafnvel sagt að séu komin í framkvæmd.
    Ég er hér með í höndunum lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum. Einn kafli þessara laga fjallar um lántökugjaldið. Þetta lántökugjald var sett á til að draga úr þeirri miklu þenslu sem þáv. hæstv. ríkisstjórn taldi að væri hér á landi fyrir rúmlega einu ári. Fyrir 14 mánuðum var lagt 6% lántökugjald á erlend lán eftir ákvæðum þeirra laga og var gefið skýrt fyrirheit um að þetta lántökugjald yrði lagt niður hinn 31. des. sl. Þá höfðu aðstæður í þjóðfélaginu breyst svo að í stað þeirrar miklu þenslu og þeirrar miklu lánsfjáreftirspurnar sem verið hafði árið áður var kominn mikill afturkippur í atvinnulífið og í staðinn fyrir að menn báru kvíðboga áður yfir því að sú mikla eftirspurn sem þá var eftir vinnuafli mundi skrúfa upp raunverulegar atvinnutekjur landsmanna var það nú orðin yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að með hvers konar hömlum á atvinnureksturinn, hækkun skatta og öðru þvílíku, yrði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að atvinnutekjur landsmanna drægjust saman og jafnframt var það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að hinn almenni kaupmáttur í landinu væri of hár og þess vegna væri nauðsynlegt með beinum skattalegum aðgerðum að draga úr kaupmættinum. Þessi afstaða kom m.a. mjög skýrt fram við 1. umr. þessa máls þegar hæstv. iðnrh. aðspurður lýsti þeirri skoðun sinni að það hefði verið efnahagslega rétt ráðstöfun að draga til baka ýmsar leiðréttingar sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði gert í sambandi við skattlagningu á fyrirtækjum til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs, en á hinn bóginn urðu ummæli ráðherrans í því samhengi sem þau voru sögð ekki skilin öðruvísi en svo að hann teldi að atvinnureksturinn á því herrans ári 1989 væri undir það búinn að taka á sig

meiri byrðar en á undanförnum árum. Þó þetta hafi ekki beinlínis verið sagt af hæstv. iðnrh. kom þetta óbeint fram í hans yfirlýsingu þegar hann bætti því síðan við að það væri hans skoðun að á næsta ári væri rétt að lækka skattheimtuna á nýjan leik.
    Í viðræðum sem fjh.- og viðskn. átti við fulltrúa frá hinum ýmsu sjóðum atvinnuveganna kom fram að erlendum lántökum hjá sumum sjóðanna á þessu ári hefur verið varið með þeim hætti að þeir hafa sumir hikað við að taka erlend lán í von um að lántökugjaldið yrði fellt niður. Stofnlánadeild landbúnaðarins t.d. hefur ekki tekið nein erlend lán á þessu ári og þess vegna kemur ekki til þess að hún þurfi að greiða 6% lántökugjald. Hjá Iðnlánasjóði er ástandið þannig að hann hefur tekið verulegar fjárhæðir að láni sem ekki hefur nema að sumu leyti verið velt yfir á viðskiptavini sjóðsins og verður ekki annað séð en viðskiptamenn Iðnlánasjóðs verði látnir greiða lántökugjaldið í einhverju formi þó svo að brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. verði samþykkt. Hið sama á raunar við um Byggðasjóð. Þar er ástandið þannig að Byggðasjóður hefur greitt um 20 millj. kr. í lántökugjald til ríkissjóðs fram yfir þá fjárhæð sem sjóðnum hefur tekist að velta yfir á viðskiptavini sína.
    Verulegur hluti þeirra lána sem nú bíða óafgreidd í Byggðasjóði eru tekin vegna skipasmíðaiðnaðarins, þær 200 millj. kr. sem í lánsfjárlögum var gert ráð fyrir að rynnu til viðskiptamanna innlendra skipasmíðastöðva, og liggur nú fyrir að um 6 millj. kr. hafa verið greiddar af útgerðarmönnum sem hafa átt viðskipti við innlendar skipasmíðastöðvar. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir, bæði í þessari deild og eins í sameinuðu þingi, að þessi grein iðnaðarins yrði að þessu leyti undanþegin lántökugjaldinu. Ég hef gert athugun á þessu uppi í Byggðasjóði, raunar kom það fram í viðræðum sem fjh.- og viðskn. átti við Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðasjóðs, og þar kom fram að engin vitneskja hefur borist til Byggðasjóðs um að skipasmíðapeningarnir svokölluðu verði undanþegnir lántökugjaldi, 200 millj. kr. Það hefur verið greitt lántökugjald af þessum peningum þegar og það liggja ekki fyrir neinar tillögur um það frá meiri hl. fjh.- og viðskn. að til endurgreiðslu komi á þessu fé. Það liggur hins vegar fyrir að afföll sem útgerðarmennirnir og aðrir viðskiptavinir sjóðanna verða fyrir vegna
lántökugjaldsins nema um 1% á lánstímanum þannig að lántökugjaldið, þegar það er lagt á nú, þegar engar efnahagslegar forsendur eru fyrir því, þýðir í raun 1% þyngingu á fjármagnskostnaði þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga.
    Við í minni hl. fjh.- og viðskn. töldum þýðingarlaust að fara fram á það eða leggja til að sá lántökuskattur sem stofnlánasjóðirnir hafa endurheimt hjá viðskiptavinum sínum verði endurgreiddir úr ríkissjóði. Auðvitað stendur vilji okkar til þess að svo verði gert, en við töldum eftir þær undirtektir sem það fékk í fjh.- og viðskn. þýðingarlaust að hreyfa slíkri brtt. hér á Alþingi. Af þeim sökum létum við við það sitja að flytja brtt. þess efnis að fjárfestingarsjóðirnir

fengju þann hluta lántökugjaldsins endurgreiddan sem þeir hafa goldið ríkissjóði en ekki fengið endurgreiddan af lántakendum.
    Ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli hæstv. sjútvrh. á þessu. Það er sýnilegt að bæði Byggðasjóður og Iðnlánasjóður verða annað tveggja að taka á sig þessar skattaálögur, sem skipta tugum milljóna, eða ná lántökugjaldinu inn, annaðhvort hjá þeim viðskiptamönnum sjóðanna sem eiga eftir að fá sín lán greidd eða þá með því að auka vaxtamuninn í viðkomandi sjóðum til að ná peningunum inn þannig. Ég veit ekki hvort ástæða er til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvaða aðferð hann telji eðlilegt að hafa, hvort honum finnist rétt að þessi fjárfestingarsjóður taki á sig þennan skatt, hvort honum finnist rétt að þeir sem fyrstir eru í röðinni eftir nýjum lánum taki á sig skattinn eða hvort honum finnist rétt að dreifa skattinum á alla viðskiptavini sjóðsins nema þá væntanlega þá sem hafa að fullu greitt lántökugjaldið með því að lánsfjárhæð þeirra var skert um 6% eins og ég gerði grein fyrir. Auðvitað kemur líka til athugunar hvort rétt sé að láta þá sem afföllin bitnuðu á njóta þess með lægri vaxtagreiðslum eftirleiðis. Auðvitað getur margt slíkt komið til álita í þessu sambandi.
    En herra forseti, ég þakka fyrir það að hæstv. forsrh. skuli vera kominn hingað í salinn.
    Þar var komið ræðu minni í dag að ég vakti athygli á því að þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum og mikilli óvissu og raunar meiri óvissu en ég hafði þá gert mér grein fyrir sem annars vegar er fólgin í því að ýmsar stéttir háskólamenntaðra manna eiga nú í vinnudeilum við ríkisvaldið og hins vegar skapast óvissan af því að forustumenn bæði Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambands Íslands hafa lýst því yfir í fjölmiðlum nú í kvöld að þeir telji að ríkisstjórnin hafi brotið á sér samkomulag með því að gengi krónunnar hafi verið fellt nú um 1,5% og með því að Seðlabankanum hefur verið gefin heimild til þess að gengið verði látið síga um 2% til viðbótar.
    Það væri fróðlegt, hæstv. sjútvrh., að fá það upplýst hér í deildinni hvort í tilkynningu Seðlabankans um þessa gengisbreytingu eða kannski einhverjum innanhússpappír í Stjórnarráði eða Seðlabanka hafi verið gefin út tilskipan þess efnis að nú megi ekki lengur tala um gengissig heldur sé rétt að tala um gengisaðlögun. Þetta orð var mjög vinsælt þegar Svavar Gestsson var viðskrh. á sínum tíma. Þá var orðið ,,gengisaðlögun`` notað í tíma og ótíma. Ég tók eftir því að í ríkissjónvarpinu í kvöld hafði þetta orð allt í einu skotið upp kollinum á nýjan leik --- ,,2% gengisaðlögun``.
    Þetta gengissig er í fullu samræmi við þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf við 1. umr. málsins þegar hann lýsti því yfir að gengið yrði látið síga á næstu vikum í þeim svifum sem hann lét þau orð falla eða hann talaði um að falla ekki í sömu gryfju, minnir mig að hann hafi sagt, og síðasta ríkisstjórn í sambandi við gengisstefnuna.

    Ég mun, herra forseti, geyma mér það þangað til hæstv. forsrh. kemur til landsins að ræða sérstaklega þann þátt málsins sem lýtur að gengisstefnu síðustu ríkisstjórnar og sem lýtur að þeim skoðunum sem hæstv. þáv. utanrrh. hafði á efnahagsmálum yfir höfuð að tala og væri skemmtilegt að fá þá í leiðinni stutta skýrslu hæstv. forsrh. yfir það að hvaða gagni heimsókn hans nú til Ungverjalands hefur komið íslensku þjóðinni, fá um það nákvæma greinargerð. Við munum að þessi hæstv. forsrh. hafði orð á því fyrir einu ári, ég tala nú ekki um í ágústmánuði sl., hversu þýðingarmikið það væri þegar erfiðleikar steðjuðu að sjávarútvegi og óvissa ríkti á launamarkaði að verkstjórinn væri heima. Við höfum upplifað það síðan hann fór að verkstjórnin í þinginu er með öllum hætti. Það er kannski ekki hæstv. forsetum að kenna. Mér dettur ekki í hug að álasa hæstv. forsetum þótt hæstv. fjmrh. haldi uppi málþófi í Nd. En kannski væru vonir til þess ef verkstjórinn kæmi heim að honum tækist að hemja hæstv. fjmrh. En þetta er heldur ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins nú í sambandi við það mál sem hér liggur fyrir er að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin hafi skuldbundið sig til þess að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum.
    Í fjh.- og viðskn. spurðum við fulltrúa fiskvinnslunnar að því hvað þetta þýddi og voru þau svör á sömu lund og við heyrðum í sjónvarpinu í kvöld. Fulltrúar fiskvinnslunnar skilja þessa yfirlýsingu á þá lund að fiskvinnslan skili hagnaði á þessu ári. Það er alveg laukrétt sem fulltrúar fiskvinnslunnar
segja. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli hver hundraðshlutinn sé á tapinu hverju sinni, hver er hundraðshlutinn í febrúar, hvernig reiknar Þjóðhagsstofnun hundraðshlutann í mars og hvernig í apríl og hvernig í maí. Það skiptir auðvitað ekki höfuðmáli. Það sem skiptir höfuðmáli er: Teljum við að hagur fiskvinnslunnar sé batnandi eða teljum við það ekki? Það er greinilegt á yfirlýsingu og minnisblaði hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin telur að samkeppnisstaða útflutningsgreinanna sé ekki viðunandi. Það er mat hæstv. forsrh. Það er alveg skýrt. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. geti líka verið sammála mér um það að þó svo að gengi krónunnar hafi verið fellt um 1,5% og þó svo að til standi að láta gengið síga kannski um ein 2% í næstu viku hafi enn ekki náðst það markmið að gera samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna viðunandi.
    Í fjh.- og viðskn. kom það glöggt fram að fulltrúar fiskvinnslunnar sáu ekki aðra leið til þess að ná því marki en þá að gengi krónunnar yrði fellt allverulega þó svo að þeir tækju fram í leiðinni að slíkar aðgerðir væru aldrei einfaldar og fleira þyrfti til að koma. Við spurðum fulltrúa fiskvinnslunnar að því hvernig þeir skildu 1. gr. frv., þ.e. 3. málsgr. 1. gr. frv., en eins og þingdeildarmönnum er kunnugt er í greininni lagt til að Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verði heimilt að taka 400 millj. kr. að láni sem verði varið til greiðslu verðbóta á freðfisk og hörpudisk.
    Það kom skýrt fram hjá fulltrúum Samtaka

fiskvinnslustöðva að þeir töldu að það sama ætti við um þessa fjárhæð og um það lán sem tekið var á sl. hausti, að ekki væri ætlast til þess að Verðjöfnunarsjóðurinn greiddi þetta fé til baka heldur litu þeir svo á að þessir peningar væru settir inn í Verðjöfnunarsjóðinn og settir út í fiskvinnsluna gegnum Verðjöfnunarsjóðinn til að reyna að draga úr þeirri gengisbreytingu sem ella yrði óhjákvæmileg þó þeir að vísu í leiðinni bentu á það, kannski meir til gamans en þó fylgdi því gamni full alvara, að það mismunandi gengi sem sjávarútvegurinn og aðrar greinar útflutningsframleiðslunnar búa nú við hefur valdið því að fiskvinnslumenn tala ósjálfrátt um gengi dollarans sem 56 kr. meðan aðrir telja gengi hans 53 kr. Þetta er bein afleiðing af því þegar unnið er eftir mismunandi gengi í landinu til langs tíma og millifærslur af þessu tagi eru látnar ganga til jafnþýðingarmikils atvinnurekstrar og fiskiðnaðurinn er.
    Það kom raunar líka fram á þessum fundi að fulltrúar fiskvinnslunar, fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna, voru allir sammála um að nú væri svo komið að grundvellinum hefði verið kippt undan Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Menn töldu að hann hefði á sínum tíma haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna, en hins vegar væri sú pólitíska íhlutun í sjóðinn sem nú væri orðin lenska búin að valda því að ekki yrði lengur við hana unað.
    Það kom fram hjá einum fulltrúa fiskvinnslunnar sem sæti á í Verðlagsráði að hann treystir sér ekki til að samþykkja þá 400 millj. kr. lántöku sem hér er lögð til nema áður liggi fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að endurgreiðslan falli á ríkissjóð. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að fá það fram hér við umræðurnar hvernig hæstv. sjútvrh. lítur á þetta mál, hvort hann er reiðubúinn að gefa yfirlýsingu um að þær 400 millj. kr. sem um getur í 1. gr. falli á ríkissjóð og nafn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sé eingöngu notað í frv. sakir smekks, það sé smekksatriði nánast hvort Verðjöfnunarsjóðurinn tekur lánið eða ríkissjóður. Það er nauðsynlegt að fá þetta fram hér núna.
    Þá er talað um í frv. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að greiðslur verðbóta á freðfisk úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verði lækkaðar á næstu mánuðum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Það væri mjög gott ef hægt væri að fá frekari upplýsingar um þetta atriði.
    Vilhjálmur Egilsson, forstjóri Verslunarráðsins, kom á fund nefndarinnar og ég tel, herra forseti, óhjákvæmilegt að lesa nokkra kafla úr minnispunktum sem hann afhenti nefndinni, þá minnispunkta sem sérstaklega varða sjávarútveginn, og spyrja hæstv. sjútvrh. hvað hann vilji um þá segja, hvort hann hafi athugasemdir við þá að gera og ef hann er sammála hvernig hann hyggist þá bregðast við þeim vanda sem Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur dregur upp í þessum minnispunktum. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Áframhaldandi samdrætti er spáð í

þjóðarbúskapnum á yfirstandandi ári. Enn er verið að vinna út frá síðustu spá Þjóðhagsstofnunar um 1,7% minnkun landsframleiðslu og 4% minnkun einkaneyslu. Þessi spá virðist full bjartsýn ef eitthvað er. Nýgerðir kjarasamningar við BSRB og ASÍ leiða ekki til mikilla hækkana á launum og verðlagi umfram það sem áður hafði verið búist við. Forsendur stjórnvalda í áætlunum fyrir ríkissjóð, byggðar á 7% launahækkun á árinu, og spár Þjóðhagsstofnunar um hækkun framfærsluvísitölu á árinu voru komnar í 13,5% fyrir samningana. Launahækkun í samningum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er metin á bilinu 10--12% á samningstímanum. Með því að gengisbreytingar það sem eftir er ársins verði í takt við launabreytingarnar má sjá fram á að framfærsluvísitala hækki um 20--22% frá upphafi til loka árs. Meðalhækkun verðlags frá fyrra ári yrði þá um 20%.
    Atvinnustig hefur haldist uppi meðal annars vegna góðrar vertíðar og með því að erlendu lánsfé hefur verið dælt inn í sjávarútvegsfyrirtækin. Um 2500 manns voru atvinnulausir í mars, en atvinnuleysi hefur ekki undið upp á sig eins og horfur voru á. Hins vegar þýðir mikill afli á fyrstu mánuðum ársins tilflutning á atvinnu frá sumri og hausti. Minni aflakvóti á þorski og öðrum botnfiski og minni framleiðsla af þeim ástæðum leiða væntanlega til aflaminnkunar í sjávarútvegi á árinu um 600--700 ársverk. Þessi samdráttur hefði getað komið fram að hluta til á vertíðinni, en hann hefur ekki gert það heldur þvert á móti. En þegar samdrátturinn dreifist á seinni hluta ársins er hann að meðaltali 1200--1400 heil störf á mánuði og 2400 og 2800 störf á mánuði ef samdrættinum er dreift á þrjá síðustu mánuði ársins. Atvinnuleysisvofan er því enn til staðar, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þorskveiði eftir fyrstu fjóra mánuði ársins er líklega 20--30 þús. tonnum meiri en í fyrra. Þá má reikna með því að atvinnusamdrátturinn á síðari hluta ársins vegna minni sjávarafla nemi a.m.k. 1600 heilum störfum á mánuði að meðaltali.``
    Enn segir Vilhjálmur Egilsson um afla og útflutningsframleiðslu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Úthlutaður þorskkvóti samsvarar um 330 þús. tonna ársafla í ár sem er 10% skerðing frá fyrra ári. Annar botnfiskafli á enn fremur að dragast saman um 12.000 tonn. Samtals er miðað við að aflaverðmæti á föstu verði verði 5,6% minna í ár en á árinu 1988. Á fyrstu þremur mánuðum ársins veiddist svipað magn af þorski og á sama tíma í fyrra. Tölur eftir aprílmánuð liggja ekki fyrir, en flest bendir til að þorskafli fyrstu fjóra mánuði ársins verði 20--30 þús. tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. Annar botnfiskafli er væntanlega nokkuð svipaður og í fyrra. Mikill þrýstingur mun án ef verða á stjórnvöld um að auka á veiðiheimildir þegar líða fer á árið. Ástæðan er einfaldlega sú að margir bátar eru nú á síðustu kílóunum í þorskkvóta og það sem eftir er ársins verður ekki aðeins að taka út fyrirhugaðan 40 þús. tonna samdrátt í þorskafla heldur líka þau 20--30 þús. tonn sem umframaflinn er.

Ekkert hefur þó enn komið fram annað en að ríkisstjórnin haldi fast við fyrri ákvarðanir um afla, enda sjálfsagt óviturlegt að slá þann víxil á framtíðina sem viðbótarkvóti mundi vera.
    Í febrúarspá sinni gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir 4% samdrætti í útflutningsframleiðslu sjávarafurða, m.a. á grundvelli aukinnar hagkvæmni í ráðstöfun aflans og meira vinnsluvirði. Þetta er allhæpin forsenda vegna þess að við hið háa raungengi krónunnar er tilhneiging til þess að flytja vöruna út með lægra vinnsluvirði en ella.``
    Svo mörg voru þau orð og raunar höfum við orðið varir við þessa tilhneigingu víða og þarf ekki að fjölyrða um hana.
    Til viðbótar við það óöryggi sem atvinnuminnkunin veldur beinlínis, 800 eða 900 ársverk, og til viðbótar við að þessi atvinnuminnkun lendir á síðari hluta ársins hefur sú staða komið upp í byggðarlögum úti á landi, víðs vegar úti um landið, að þau fyrirtæki sem halda uppi atvinnunni, burðarásar byggðarlaganna, hafa mörg hver átt við versnandi afkomu að búa. Það kom jafnframt fram í viðræðum við stjórnarformann Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina að þær upplýsingar sem lágu fyrir eftir septemberuppgjör á sl. ári voru misvísandi að því leyti að síðustu þrír mánuðir ársins, október, nóvember og desember, komu mun verr út en sjóðsstjórnin hafði gert ráð fyrir þannig að þegar kom fram í febrúarmánuð taldi sjóðsstjórnin þá pappíra gagnslausa og treysti sér ekki til að fjalla um einstök fyrirtæki nema nýir ársreikningar lægju fyrir. Þessi versnandi afkoma síðustu mánuði ársins hefur valdið því að mati stjórnarformanns Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina að mörg fyrirtæki sem fengu fyrirgreiðslu á sl. hausti þurfi á nýrri fyrirgreiðslu að halda nú. Nokkur hafa sótt, örfá, og eitt þeirra sem sótti fer fram á fyrirgreiðslu til hlutafjáraukningar.
    Það liggur því fyrir að þær ráðstafanir sem gerðar voru í gegnum Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina hafa ekki reynst fullnægjandi og það kom raunar líka fram í máli formanns stjórnarinnar að það fjármagn sem sjóðurinn hefur til umráða á þessu ári muni að öllum líkindum og kannski eflaust ekki duga eins og honum virðist ástandið vera nú og reyndi hann þó að tala gætilega, en orð hans urðu ekki skilin öðruvísi.
    Það kom einnig fram á þessum sama fundi að stjórnarformaður Hlutabréfasjóðs hafði engar fregnir að flytja um hvort þeir aðilar sem stjórn Hlutabréfasjóðsins hefur snúið sér til, ég nefndi sérstaklega Landsbanka Íslands, Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð, vegna þess að þessar þrjár stofnanir voru sérstaklega nefndar af hæstv. forsrh. á sínum tíma þegar hann ræddi um hlutabréfasjóðinn, --- formaður sjóðsstjórnarinnar sagði að Hlutabréfasjóðurinn hefði rætt við fleiri aðila, en hann kunni engar fréttir að flytja um það hver yrðu viðbrögð þessara stofnana við málaleitan Hlutabréfasjóðs um kaup á aðildarbréfum, hvorki í A-deild né B-deild Hlutabréfasjóðs. Nú liggur það á hinn bóginn fyrir að hjá mörgum fyrirtækjum er stöðvun yfirvofandi nema hægt sé að grípa inn í

með sérstökum ráðstöfunum
og er fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. sjútvrh. hvenær þess er að vænta að einhverjar fréttir berist af því hvaða undirtektir verði við beiðni eða beiðnum stjórnar Hlutabréfasjóðs um að tilteknar stofnanir kaupi aðildarbréf af sjóðnum.
    Ég gat heldur ekki skýrt eða skilið þær viðræður sem ég átti við þessa stjórnarformenn báða öðruvísi en svo að allar líkur væru á því að nauðsynlegt yrði síðar á árinu að afla frekari heimildar til ríkisábyrgðar í gegnum A-deild Hlutabréfasjóðsins ef sjóðurinn ætti að standa undir þeim vonum sem við hann voru bundnar þegar hugmyndin um Hlutabréfasjóðinn var sett fram á sínum tíma.
    Ég skal ekki, herra forseti, víkja nánar að 1. gr. þessa frv. Ég legg sem sagt áherslu á að fulltrúar fiskvinnslunnar litu svo á að í fyrirheitinu um viðunandi samkeppnisstöðu útflutningsgreina fælist skuldbinding um að rekstrargrundvöllur fiskvinnslunnar á þessu ári yrði jákvæður. Ég legg jafnframt áherslu á að nauðsynlegt er að fá úr þeirri óvissu skorið hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur um hver skuli greiða það lán sem Verðjöfnunarsjóðnum er ætlað að taka. Það liggur fyrir að einstakir menn, a.m.k. einn fulltrúi í stjórn Verðjöfnunarsjóðsins treystir sér ekki til að samþykkja slíka lántöku nema áður liggi fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að peningarnir eigi að greiðast úr ríkissjóði hvað sem líði hækkunum á afurðum á næstu þrem árum.
    Í þriðja lagi vil ég minna á að talið er að gengi krónunnar þurfi að falla um a.m.k. 10% á samningstímanum ef nokkur von eigi að verða til þess að sjávarútvegurinn búi við viðunandi rekstrarstöðu. Væri fróðlegt að fá álit hæstv. sjútvrh. á því hvort hann telji að þar sé offarið með þá gengisfellingu, en segja má að í þeim plöggum sem ég hef í mínum höndum sé raunar gengið út frá því að ef ríkisstjórnin taki ákvarðanir í stíl við þær sem hún hefur áður tekið muni gengisbreytingar verða nokkuð í takt við launabreytingarnar. Verð erlendra gjaldmiðla mundi þá hækka um 10% frá maíbyrjun til áramóta í einhverjum skömmtum. Ég hygg þetta sé síður en svo vanáætlað og væri fróðlegt að fá um það vitneskju frá hæstv. sjútvrh. hvað hann vill um það segja.
    Ég hygg að ástæðulaust sé að spyrja ráðherra Alþfl. um hans álit á þessu máli. Margar yfirlýsingar liggja fyrir um það frá formanni Alþfl. að gengið sé afgangsstærð og þar eð hugsunarháttur Alþfl. er sá að gengið sé afgangsstærð hygg ég að ástæðulaust sé að hafa fleiri orð um það.
    Hins vegar, úr því að hæstv. iðnrh. er kominn, vil ég ítreka þá fyrirspurn sem ég gerði að honum fjarstöddum áðan. Ég hef heyrt það hér í deildinni að lántökugjald hafi verið afnumið af lánum til skipasmíðaverkefna. Byggðasjóður hefur tekið það fé að láni, 200 millj. kr., vegna skipasmíðaverkefnanna. Byggðasjóður hefur greitt lántökugjald af þessum peningum. Nú þegar hefur Byggðasjóður innheimt lántökugjald af útgerðarmönnum vegna þessara skipasmíðapeninga. Byggðasjóður hefur ekki fengið

neina tilkynningu um það frá stjórnvöldum að þessir peningar eigi að vera undanþegnir lántökugjaldi. Nú er það spurning mín til hæstv. iðnrh. og ég vona að ég fái skýr svör við henni: Er hæstv. iðnrh. reiðubúinn til að beita sér fyrir því að lántökugjaldið af þessum skipasmíðapeningum verði endurgreitt úr ríkissjóði eða telur hann úr því sem komið er, úr því að Byggðasjóður hefur ... Herra forseti, það er erfitt þegar maður heyrir orðræður ráðherranna upp í ræðustólinn að festa sig við fyrirspurnir til þeirra rétt á meðan. Ég var að spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort hann sé reiðubúinn til að staðfesta það að sú yfirlýsing hans standi að lántökugjald verði ekki greitt af skipasmíðapeningunum á þessu ári. ( Viðskrh.: Svar: Já.) Svar já. Er þá hugmyndin að lántökugjaldið verði endurgreitt þeim útgerðarmönnum sem þegar hafa greitt lántökugjaldið? ( Viðskrh.: Byggðastofnun verður að bera ábyrgð á framkvæmd sinni á þessu máli. Hafi hún fyrirgert rétti sinna viðskiptamanna er það miður.) Byggðastofnun verður að bera ábyrgð á þessu máli. Hafi hún fyrirgert rétti viðskiptavina sinna er það miður. Þetta er svarið. Byggðastofnun hefur tekið erlent lán vegna skipasmíðaverkefnanna. Hæstv. iðnrh., ráðherra skipasmíðaiðnaðarins, lýsir því hér yfir, herra forseti, eða gefur í skyn að Byggðastofnun hafi fyrirgert rétti viðskiptavina sinna. Í þessum orðum felst, herra forseti, að Byggðastofnun hafi fengið fyrirmæli um það eða vitneskju um það frá réttum stjórnvöldum að henni bæri ekki að greiða lántökugjald af þeim 200 millj. sem hún tók vegna skipasmíðaiðnaðarins.
    Nú vil ég óska eftir því, herra forseti, að þingið sjái til þess í kvöld áður en þessari umræðu lýkur að ég fái afrit af þeirri reglugerð sem það byggist á að þessir peningar voru undanþegnir lántökugjaldinu eða ég óska eftir því að ég fái áður en þessari umræðu lýkur það bréf í hendur sem Stjórnarráðið, eftir atvikum Seðlabanki, ég veit ekki hver innheimtuaðilinn er, sendi Byggðastofnun þar sem Byggðastofnun var vöruð við skattheimtu ríkisins, að henni bæri ekki að greiða þetta gjald. Er það rétt að 6% lántökugjald átti ekki að falla á þær 200 millj. sem Byggðastofnun var heimilt
að taka vegna skipasmíðapeninganna og það hafi týnst bréfið í ráðuneytinu eða týnst bréf í Byggðastofnun? Hafa þá útgerðarmennirnir fyrirgert rétti sínum sem versluðu við innlendu skipasmíðastöðvarnar? Fyrirgerðu þeir sínum rétti? ( Viðskrh.: Það hafa þeir ekki gert.) Fyrirgerði Byggðastofnun rétti þeirra? ( Viðskrh.: Það er hætta.) Er það hættan? ( Viðskrh.: Þú verður að rannsaka þetta, stjórnarmaður.) Ég held, herra forseti, að það sé nauðsynlegt að það verði gert hlé milli 2. og 3. umr. um þetta mál þannig að þingmenn geti fengið úr því skorið hvernig í þessu liggur. Það er algerlega útilokað annað en þetta mál verði athugað ofan í kjölinn. Það er ekki líðandi að ráðherrar í deildinni haldi því fram að að embættismaður sem kemur á fund þingnefndar, forstjóri Byggðastofnunar, hafi farið með rangt mál á fundi fjh.- og viðskn. ( Viðskrh.: Það hef ég ekki

gert.) þegar hann sagði það við nefndina að þeir peningar sem hann hefði tekið vegna skipasmíðaverkefnanna væru gjaldskyldir að þessu leyti, af þeim fjárhæðum ætti að greiða lántökugjald. Ef á hinn bóginn málið liggur þannig fyrir að hæstv. ráðherra er að hafa það að gamanmálum hér í deildinni að forstjóri Byggðastofnunar hafi fyrirgert rétti útgerðarmanna með þeim afleiðingum að þeir hafi borgað 6% lántökugjald af peningum sem þeir fengu úr Byggðasjóði vegna skipasmíðaverkefna og ef það ber að skilja orð hæstv. ráðherra svo að útgerðarmenn fái ekki leiðréttingu mála sinna, þá er það mál sem óhjákvæmilegt er að taka upp í fjh.- og viðskn. milli 2. og 3. umr.
    Þetta atvik, herra forseti, sem hér er komið upp í þessum sökum er þess eðlis að ég tel nauðsynlegt, ef ekki koma fram skýrari yfirlýsingar ráðherra hér við umræðuna en gefnar hafa verið, að þingnefndin fái þetta mál aftur til meðferðar. Á hinn bóginn dugir það mér ef hæstv. ráðherra lýsir því yfir að hann muni beita sér fyrir því að þetta lántökugjald verði endurgreitt. Það dugir mér fullkomlega. Og þá get ég fallist á það að nefndin verði ekki kvödd saman. ( Viðskrh.: Því skal ég lýsa yfir strax.) Að þetta verði endurgreitt? ( Viðskrh.: Að því leyti sem um lántökur vegna skipaviðgerðanna var að ræða. Fyrir því er ríkisstjórnarsamþykkt og það veit þingmaðurinn.) Ég veit ekki hvort fyrir því sé ríkisstjórnarsamþykkt því að það er leyniplagg hvað er ríkisstjórnarsamþykkt. ( Viðskrh.: Þú hefur fengið hana. Þú veist það.) Hitt veit ég að það hafa engin fyrirmæli komið til Byggðastofnunar um að þetta lántökugjald sé fellt niður. Það kom skýrt fram í fjh.- og viðskn. Ed. að lántökugjaldið hafi verið greitt af slíkum peningum. Hér sé ég einn nefndarmann fyrir framan mig. Er það ekki rétt með farið? ( EKJ: Ég efa það ekki.) Formanni fjh.- og viðskn. var kunnugt um að ég athugaði sérstaklega þennan þátt málsins í nefndinni þannig að formaður fjh.- og viðskn. hafði alla möguleika á því að kanna það áður en málinu var vísað úr nefndinni hvort hér væri rétt með farið eða ekki. Þar sem formaður nefndarinnar gaf okkur engar upplýsingar um hið gagnstæða hafði ég fulla ástæðu til að ætla að þessi samþykkt hefði stöðvast einhvers staðar á leiðinni. En ég er á hinn bóginn ákaflega þakklátur hæstv. iðnrh. fyrir að hann skuli nú hafa gefið yfirlýsingu sem ég tel fullnægjandi um það að þeir útgerðarmenn sem hafa greitt lántökugjaldið fái það endurgreitt. ( Viðskrh.: Það er byggðastofnunarmál að framkvæma.) Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að það sé byggðastofnunarmál að skrifa ráðuneytinu bréfið um það að endurgreiða þetta. Það er alveg rétt. En ef hugmynd ráðherrans er sú að Byggðasjóður eigi að endurgreiða útgerðarmönnunum en ekki ríkissjóður ( Viðskrh.: Að sjálfsögðu.) þá er það nú ekki mál ráðherrans því hann ræður engu í Byggðastofnun. Það eru allt aðrir menn sem ráða því og ég held að hæstv. ráðherra ætti að spara sér yfirlýsingar um það. Hins vegar hefur ráðherrann sitthvað að segja í ráðuneytinu. Ég held að hann ætti

að gefa yfirlýsingar um það sem þeir ætla að gera í Stjórnarráðinu. ( Viðskrh.: Hv. ræðumaður hlýtur að hafa misskilið þetta. Ég var einmitt að segja að þetta væri byggðastofnunarmál.) (Gripið fram í.) ( Viðskrh.: Akkúrat. Ég skil ekkert í þessu. Þetta snýr alveg öfugt.) Já ég heyri að ráðherrann hefur svolítið gaman af því að velta sér upp úr því hvernig þetta er og skal ég ekki gera athugasemdir við það, en ég lýsi ítrekað þakklæti mínu til hæstv. ráðherra að hann skuli nú hafa lýst því yfir að hann vilji vinna að því að þetta verði leiðrétt og ég mun strax í fyrramálið hafa samband við forstjóra Byggðastofnunar og biðja hann um að gefa hæstv. ráðherra skipasmíða glögga skýrslu yfir þá útgerðarmenn sem hafa verið látnir greiða lántökugjald af þeim lánum sem til eru orðin vegna skipasmíðaverkefna.
    Ég vil líka láta í ljósi ánægju mína yfir því þegar ég kem að kaflanum um tollskrárnúmerin, 4. gr. frv., að hæstv. iðnrh. skuli vera hér í deildinni til þess að ég geti fullvissað hann um að Sjálfstfl. skal standa á bak við hann eins og hann lifandi getur til þess að koma því þrifnaðarmáli í framkvæmd að vörugjald af þeim tollskrárnúmerum sem um getur í 4. gr. verði fellt niður sama daginn og frv. er lögfest. Ég veit að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því að margvíslegur ruglingur sem orðið hefur í sambandi við vörugjaldið hefur valdið bæði mismunun, misskilningi og ýmsum erfiðleikum hjá þeim iðnfyrirtækjum sem þurfa að búa við þennan hringlanda. Og ég vonast til þess að hæstv. iðnrh. meti viðleitni okkar sjálfstæðismanna til að létta þessu oki
af honum nú strax þannig að iðnfyrirtækin þurfi ekki að bíða eftir þessari leiðréttingu til 1. sept. næstkomandi.
    Ég sé ekki, hæstv. forseti, hæstv. sjútvrh., en þyrfti gjarnan að fá að leggja fyrir hann eina spurningu. --- Það er nú ekki hægt að neita því að hjónasvipur er með þeim, fjármálaráðherranum og viðskiptaráðherranum, þegar þeir grúfa sig hvor yfir annan. Ég var að segja það, herra forseti, að ég vildi varpa þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. í von um að hann svaraði henni í kveðju hvaða hugmyndir hann hafi í sambandi við tölul. 7 í yfirlýsingu eða bréfi hæstv. forsrh. til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Evrópubandalagsins. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun. Ríkisstjórnin mun við heildarendurskoðun eignarskattlagningar taka til athugunar álagningu eignarskatts á atvinnufyrirtæki.``
    Það væri mjög gagnlegt ef hægt væri að fá, hæstv. fjmrh., upplýsingar um hvað liggi hér til grundvallar og hvaða hugmyndir hæstv. fjmrh. hafi í sambandi við þessar viðræður, hvaða atriði skattalaganna hann hyggist sérstaklega taka til athugunar og hvort rétt sé

eins og ég hef skilið það að hér sé fyrst og fremst haft í huga að fyrirtækjunum verði gert kleift að leggja fé í sérstaka sveiflusjóði eða fjárfestingarsjóði og í öðru lagi hvort hér sé gert ráð fyrir að auka fyrningar og afskriftir á nýjan leik hjá fyrirtækjum og loks hvort meiningin sé að lækka eignarskattsprósentu fyrirtækjanna. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh.
    Að síðustu, hæstv. sjútvrh. Það er aðeins þessi eina spurning: Er það rétt skilið hjá forustumönnum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að ríkisstjórnin hafi gefið fyrirheit um að gengið yrði ekki látið síga og það ekki fellt á samningstímanum? Það er nauðsynlegt að fá fram hver skoðun hæstv. sjútvrh. er á þessu máli.
    Hv. 14. þm. Reykv. hefur gert að öðru leyti afkomu sjávarútvegsins mjög að umtalsefni hér í deildinni og skal ég ekki í minni framsöguræðu víkja nánar að því, en ítreka það sem segir í greinargerð minni hl. Það vekur athygli að í minnispunktum hæstv. forsrh. er ekki vikið einu einasta orði að málefnum samkeppnisiðnaðarins.