Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þetta eru orðnar nokkuð merkilegar umræður. En hæstv. fjmrh. sagði áðan að fyrirtækin lékju það að taka traustataki fé, sem þeim hefur verið falið að innheimta, í eigin vörslu, sem ætti að skila í sameiginlega sjóði landsmanna. Hvað á svona talsmáti að þýða? Þetta er rekstur. Það er ekki til nein sérstök skilgreining á því hvað er fé hvers í rekstri fyrirtækis. Þetta er áhætturekstur. Og áhættan er auðvitað jöfn allra rekstraraðila fyrirtækis, ríkissjóðs sem annarra.
    Ríkisstjórnin á að fylgjast með rekstri fyrirtækja í gegnum bankaeftirlitið. Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands á Seðlabankinn sem stundar bankaeftirlit að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja í gegnum þessa deild. Þetta er hin rétta deild ríkisins til þess að fara með eftirlit með fyrirtækjum. En ef það á að skilgreina sérstaklega vörslufé ríkisins í rekstri fyrirtækis, á þá ekki að skilgreina líka vörslufé annarra viðskiptavina? Á að skilgreina vörslufé allra viðskiptavina fyrirtækisins sem einhverja sérstaka eign þeirra? Eru ekki allir jafnir fyrir lögum, ég hélt það, og ríkið líka?
    Nú um stundir og fram í tímann snýst þetta um að laga efnahagsástandið þannig að ríkissjóður þurfi ekki að glata fjármunum því að fjármunir verða ekki til þegar framleiðslan er stopp eða hætt er að framleiða verðmætin. Hv. formaður fjvn. sagði áðan að innheimtumenn ríkissjóðs yrðu að ganga mjög hart fram ef þetta frv. yrði að lögum. Þetta er hótun um að senda fógetann á liðið með harkalegri hætti en nokkru sinni fyrr ef þetta frv. verður að lögum. Ef ríkissjóður á að vera jafn öðrum viðskiptavinum fyrirtækisins fyrir lögum á að senda fógetann á liðið með einhverri ofbeldisaðgerð. Þetta er alveg furðuleg skilgreining og furðulegur hugsunarháttur.
    Raunverulega eru fyrirtæki á Íslandi orðin fórnarlömb efnahagslegrar óstjórnar. Það er skrýtið að fórnarlömbin skuli vera gerð að sökudólgum. Það er að hengja bakara fyrir smið. Ætli sökudólgurinn sé ekki m.a. sú ofsköttunarstefna sem þessi ríkisstjórn kýldi í gegnum Alþingi fyrir áramót, hækkaði skatta um 7 milljarða á fyrirtækjum sem hún sagðist ætla að bjarga. Hver er sínum gjöfum glíkastur í björgunaraðferðunum. Það er ekki hægt að segja annað.
    Kjarni þessa máls er sá að það eru allir jafnir fyrir lögum og ríkissjóður líka. Það hefur engin önnur skilgreining komið fram. Mér þætti gaman ef hæstv. fjmrh. vildi þá útskýra fyrir okkur hvaða lög það eru sem segja að ríkið gangi fyrir í lögum, að ríkissjóður sé fyrst og síðan einhverjir aðrir. Sú saga er bara þekkt úr bókinni ,,Dýrabær`` þar sem dýrin á búgarðinum rændu völdunum og sömdu fyrst þá reglu að öll dýrin væru jöfn. Síðan rændu svínin völdunum. Og þá hljóðaði reglan: Öll dýrin eru jöfn, en sum eru jafnari en hin. Ég þekki þessa líkingu ekki í annarri sögu en þessari. Ég veit ekki til þess að hún eigi sér stoð í íslensku réttarfari.
    Kjarni þessa máls er sá að það eru allir jafnir fyrir lögum. Það er niðurstaðan í þessu máli. Og ég vona

að þetta frv. verði samþykkt.