Staðgreiðsla opinberra gjalda
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í fjh.- og viðskn. og þess vegna finnst mér rétt að það komi fram mín afstaða við þessa umræðu. Þannig var að þegar var verið að undirbúa að leggja fram þetta frv. hér á Alþingi kom varamaður minn til mín til þess að inna mig eftir því hvernig mér litist á það að hún væri þar meðflm. Ég benti henni einmitt á þá hættu sem í því felst að ef þetta frv. yrði að lögum væru innheimtumenn ríkisins neyddir til þess að ganga langtum harðar fram í innheimtu til að standa í stykkinu í sambandi við sín innheimtustörf. Þetta var fyrst og fremst ástæðan. Og í nefndinni kom ég með þennan rökstuðning, en á það var ekki hlustað.
    Fyrirtæki er kannski þannig að atvinnulífið stendur og fellur með því, eins og hefur verið hjá okkur og við horfum nú upp á, og ef ríkissjóður hefði gengið hart að væri búið að stöðva fyrirtækin sum hver fyrir löngu. Það getur vel verið að menn séu talsmenn fyrir því eins og síðustu tveir hv. ræðumenn að það eigi að gera það. Það er eins og þeim komi ekkert við það ástand sem er. Þeir hafa ekki komið nálægt því. Hverjir báru ábyrgð á því að hækka vextina um rúm 100% á ríkisvíxlunum fyrstu fimm mánuðina sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar ríkti? Var það þessi ríkisstjórn? ( FrS: Hver bar ábyrgð á víxlunum hjá Búnaðarbankanum?) Það var fyrst og fremst ríkisstjórn sú sem sat þá að völdum vegna þess að af þessu tóku sparifjáreigendur peningana sína út til að kaupa ríkisvíxla og ef það var gert þurftu bankarnir að borga refsivexti hjá Seðlabankanum af því að það er búið að koma því þannig fyrir að um 23% er bundið þar, bæði lausafjárbinding og hin venjulega skyldubinding. Þetta var ástæðan þannig að hv. 1. þm. Reykv. getur ekki þvegið hendur sínar af þessu máli.
    Nei, ég held að menn þurfi að hugleiða þetta mjög vel. Það er alveg rétt að það eru fleiri en ein hlið á þessu máli og þess vegna þarf að skoða þetta miklu betur en ætla að flaustra þessu af hér og nú.
    Ég vil að þetta komi fram og ég er eiginlega undrandi á tveimur síðustu hv. ræðumönnum hvernig þeir haga sínum málflutningi. En það er auðheyrt að þeir eru ekki í stjórnaraðstöðu núna. Þeir eru stjórnarandstæðingar og nota þess vegna hvert tækifæri sem býðst til að reyna að koma höggi á þessa ríkisstjórn. Ég hélt að það þyrfti ekki að nota svona tækifæri til þess.