Kvikmyndin Lífsbjörg í norðurhöfum
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 873 hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um kvikmyndina ,,Lífsbjörg í norðurhöfum.`` Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Hefur ríkisstjórnin eða sjávarútvegsráðuneytið styrkt eða boðist til að styrkja kvikmynd Magnúsar Guðmundssonar, ,,Lífsbjörg í norðurhöfum``? Ef svo er ekki, hyggst ríkisstjórn eða ráðuneyti gera það síðar?``
    Þessu þarf í sjálfu sér ekki að fylgja eftir með miklu lengra máli. Öllum þingheimi er ljóst að nokkur umræða hefur orðið um þessa kvikmynd, ekki bara hér heldur og víða um heiminn, um hana trúlega deildar meiningar að einhverju leyti, en líka um það spurt: Hver borgar?
    Um það heyrast líka sögur. Það hefur verið sagt, án þess að ég vilji neitt um það fullyrða, að stjórnvöld hafi með einhverjum hætti stuðlað að framgangi þessarar kvikmyndunar. Því hefur líka verið neitað af hálfu viðkomandi einstaklings sem sér um þessa kvikmynd og mér finnst rétt í ljósi þessa að fá um það svör frá stjórnvöldum eða hæstv. sjútvrh. hvort hér sé um það að ræða að stjórnvöld eða ráðuneyti, eitt eða fleiri, hafi með einhverjum hætti greitt fyrir að þessari mynd var á laggir komið.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er ekki að bera þessa fsp. fram til þess að gagnrýna þó að slíkt hefði verið gert, en ég tel rétt að a.m.k. fólkið í landinu fái um það vitneskju með hvaða hætti þetta var gert.