Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Mér er alveg ljóst að þeir sem þessar veiðar stunduðu hafa orðið fyrir verulegu tjóni og eru óánægðir með sinn hlut og telja sig hafa fengið litlar bætur.
    Að því er varðar þá spurningu af hverju hrefnuveiðar hafa ekki verið teknar upp að nýju, þá er svarið einfalt. Við höfum fallist á að leggja niður hvalveiðar í atvinnuskyni og hrefnan er hvalur í skilgreiningu Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem fjallað er um slíkar veiðar. Það var hins vegar ætlunin að taka 80 hrefnur í vísindaskyni á ári hverju, en frá því hefur verið fallið af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að ekki hefur a.m.k. enn þá reynst unnt að tryggja nægilega góða aðstöðu til þess. Síðan verður það að segjast alveg eins og er að við höfum átt í erfiðri baráttu á alþjóðavettvangi með okkar mál. Við höfum átt í samningum við aðrar þjóðir um þessi mál sem ég veit að öllum hv. þm. er kunnugt um. Af þeim sökum hefur verið fallið frá því að taka þessar hrefnur í vísindaskyni, en hvalveiðar í atvinnuskyni og ákvarðanir þar um bíða síðari tíma eins og öllum er kunnugt um.