Efling löggæslu
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Mín reynsla er sú af þingstörfum og í sambandi við mál sem koma fram á þingi að oft er það þannig að það eru hin stærri mál, sem ættu helst að fá góða og mikla umfjöllun, sem margir hv. þm. forðast. Ég hef oft mælt í árum hvað slík mál þyrftu langan tíma til þess að ná fram að ganga. Ég gerði það í sambandi við svokallað frjálst útvarp á sínum tíma. Svokallað frjálst útvarp byggðist á breytingum á lögum um að einkaréttur Ríkisútvarpsins yrði afnuminn, það tæki 4--5 ár að hrinda því máli í framkvæmd. En það tók 5--6 ár.
    Það mál sem hér er til umræðu er líklegast sama efnis. Það er einkennandi að þeir menn sem hafa komið sér fyrir í valdakerfi þjóðarinnar, og á ég þar sérstaklega við hæstv. ráðherra, forðast að vera inni þegar þetta mál er til umræðu. Margir af forsvarsmönnum og frammámönnum þingflokkanna eru ekki í þingsæti þegar þetta mál er til umfjöllunar, en það hefur legið hér í þingskjölum, ef ég man rétt, frá því í desember. Það ber vott um að þeir ágætu menn sem hafa nú tryggt sér völdin í landinu, og á ég þar sérstaklega við þá sem ráða og stjórna í hæstv. ríkisstjórn, forðast að vera hér inni og fjalla um þetta vandasama, erfiða og viðkvæma mál. Að vísu vil ég, virðulegi forseti, taka það fram að hér er mættur og hefur setið í sæti sínu hæstv. viðskrh. sem var dómsmrh. um tíma og ég vil taka undir þau orð hv. þm. Árna Gunnarssonar að sá hæstv. ráðherra, þó hann sé ekki lengur dómsmrh., sýndi mikla tilburði í þá átt að fjalla um þessi mál með þeim hætti sem ég tel að ráðherra þessara mála eigi að gera.
    Það er líklegast skýringin á því hvers vegna þessir völdu valdamenn, sem ég hef vísað til án þess að tilgreina nánar, skuli ekki vera hér inni að þeir gera sér grein fyrir því að dómsmál og löggæslumál á Íslandi eru komin í þá niðurníðslu í dag m.a. vegna þess og kannski fyrst og fremst að pólitísk afskipti hafa verið of mikil af stöðuveitingum á þessu sviði. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að afnema hinar pólitísku stöðuveitingar eins og þær eiga sér stað í gegnum dómsmrh. og dómsmrn. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka upp það sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum að í þeim efnum eigi framkvæmdarvaldið ekki að ráða því hverjir eru t.d. tilnefndir sem sýslumenn eða hafa áhrif á hverjir setjast í dómarasæti eða eru yfirleitt í æðstu stöðum í íslenskri löggæslu. Það er tími til kominn og er hluti af því sem þarf að taka til athugunar á grundvelli þessarar þáltill. að breyta þessari framkvæmd, þ.e. að slíta hinar pólitísku hefðir í þessum efnum sem koma niður á framkvæmd þessara mála og koma niður á ég vil segja borgurum þessa lands m.a. í þeirri mynd sem við sjáum íslenska löggæslu í dag.
    Ég gat um það í fyrri ræðu, virðulegi forseti, að við flm. hefðum flestir kynnt okkur þessi mál allrækilega í vetur. Þess vegna höfum við ekki ýtt eins mikið á að þessi þáltill. kæmi til meðferðar þar sem við vildum vera vel undir búnir. Þær athuganir, þær viðræður hafa staðfest þá skoðun okkar, sem fram

kemur í grg., að það er brýn nauðsyn á að það verði tekið föstum tökum að endurskipuleggja og að efla íslenska löggæslu.
    Ég vil einnig taka fram að það er slæmt að einn af stjórnarþingmönnum, hv. þm. Árni Gunnarsson, skuli koma upp á síðustu dögum þingsins og ítreka og skýra frá því að framkvæmdarvaldið, sem þýðir á mæltu máli hæstv. núv. dómsmrh. og þeir sem sitja í ráðherrastólum, hefur greinilega verið samtaka um að stöðva framgang þess frv. sem hann hefur flutt um eflingu Lögregluskóla ríkisins. Það er ein grundvallar- og meginforsendan fyrir því að íslensk löggæsla geti verið með þeim hætti sem við gerum kröfu til að löggæslumenn séu vel menntaðir og vel þjálfaðir, þ.e. að í íslenska löggæslu veljist þroskað, greint og gott fólk. Vegna þessara ummæla hv. þm. vil ég skýra frá því og láta það koma fram að þetta er eitt af mestu vandamálum í sambandi við íslenska löggæslu í dag. Í þeirri skýrslu sem ég greindi frá áðan, sem Lögreglufélag Reykjavíkur hefur látið gera og unnið, kemur einmitt fram það atriði sem lýtur að menntun lögreglumanna og að því frv. sem hv. þm. Árni Gunnarsson nær ekki fram vegna þess að hæstv. ríkisstjórn sinnir því ekki og hæstv. dómsmrh. virðist sitja á því. Þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því hvernig dómsmálaráðherrar undangenginna ára hafa tryggt ákveðnum flokki flestallar æðstu stöður í dóms- og réttarkerfi íslensku þjóðarinnar.
    Ég skil ekki hæstv. ráðherra Alþfl. að þeir skuli líða að þessi hæstv. dómsmrh. geti sest á mál sem þessi, og á ég þar við frv. um eflingu Lögregluskóla ríkisins, og einnig að hann skuli ekki ætla að sinna því máli sem nú er til umfjöllunar sem er efling löggæslunnar almennt. En það eitt get ég sagt hæstv. ráðherra sem hér er staddur, og ég vona að hann færi þau skilaboð inn í ríkisstjórnina, að það fær enginn að stöðva framgang þessa máls. Ég talaði um að stundum væri hægt að mæla hvaða ár till. til þál. eða frv. næðu fram að ganga. Ég er sannfærður um að ef hæstv. ríkisstjórn fer frá völdum á þessu ári, sem er æskilegt með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar, mun Sjálfstfl. tryggja að við mælum það ekki í mörgum árum að íslensk löggæsla verði efld. Ég vil einnig segja að sú löggæsla sem þarf að efla snýr ekki hvað
síst að börnum okkar og þeim unglingum sem vara sig ekki á þeim hættum sem nútímaafbrotamönnum og nútímaglæpum fylgja og á ég þar sérstaklega við það sem snýr að fíkniefnum.
    En ég vil, virðulegi forseti, fá að greina frá þeim kafla í skýrslu Lögreglufélags Reykjavíkur er lýtur einmitt að menntun lögreglumanna og hvaða þýðingu það hefur að þessir menn séu vel menntaðir. En í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vandinn er hins vegar sá að þar með er liðsaflinn til útkalla á vöktunum að stórum hluta lítt vanir lögreglumenn eða afleysingarfólk sem gegnir verkum meðan verið er að mennta hina yngri lögreglumenn til starfans. Þetta afleysingarfólk skortir bæði lágmarksstarfsmenntun og reynslu í lögreglustarfi. Samt er verið að nota það til afgreiðslu á

viðkvæmustu málum.
    Nú er svo komið að skortir nægilega stóran kjarna reyndra lögreglumanna til að stýra og leiðbeina hinum óreyndari. Ástandið er slæmt á veturna en þó hálfu verra á sumrin þegar sumarafleysingafólk kemur til. Þá er næsta algengt að tveir óreyndir lögreglumenn séu skráðir saman í bíl til útkalla. Þekking og reynsla eru auðvitað meginforsendur þess að vandasöm mál fái rétta afgreiðslu og erfið vandamál borgaranna fái farsæla úrlausn. Óreyndir lögreglumenn vita oft ekki hvernig á málum á að taka og koma oft fyrir mistök sem ekki er unnt að bæta um síðar.``
    Þetta eru vissulega alvarleg orð. Það er vissulega alvarlegt að þetta skuli koma fram í skýrslu Lögreglufélags Reykjavíkur með þeim hætti sem það birtist, en þarna eru að verki menn sem gjörþekkja það sem þeir eru að fjalla um. Og ég segi bara: Hvar eru hv. þm. í umfjöllun þessara mála? Er það ekki skylda þingmanna að hlýða á raddir þeirra sem gerst þekkja til í þessu máli sem öðrum?
    Ég vil, virðulegi forseti, síðan fá að ljúka þessu með því að vitna í það sem segir um þessi mál, þ.e. menntun lögreglumanna:
    ,,Ástandið í almennri deild er nú (í nóvember 1988) þannig að til útkalla og almenns hverfaeftirlits á fjórum vöktum er samtals 81 lögreglumaður [þ.e. í Reykjavík]. (Sú tala er vart marktækt stærri en var árið 1944.) Þar af eru afleysingarmenn 24, eða 29,6% [þ.e. þriðji hver maður]. Í umferðardeild eru síðan 19 lögreglumenn til almenns eftirlits og vettvangsverkefna, þar af tveir afleysingarmenn. Þannig eru aðeins til útkalls og vettvangsverkefna 100 lögreglumenn af rösklega 260 manna liði, eða um 38%. Þá eru ekki taldir frá þeir sem eru frá þeir sem eru frá sökum veikinda eða eru í orlofi eða að starfi við tilfallandi sérverkefni. Hópurinn er því í reynd nokkru smærri.
    Sífellt stærri hópur hefur verið settur til annarra verkefna. Þau eru að vísu nauðsynleg. Flestum býður þó í grun að ekki hafi verið tekið tillit til undirstöðunnar þegar yfirbyggingin var reist.`` --- Ég vek athygli á þessu orðalagi: þegar yfirbyggingin var reist.
    Það er einnig annar megintilgangur þessarar tillögu að fá fram hvernig stjórnun og skipulagi þessara mála sé háttað. Er svo komið að fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna, fyrir tilstuðlan fyrrv. dómsmrh. og núv. dómsmrh. sé búið að yfirhlaða, ég undanskil hæstv. fyrrv. dómsmrh. Jón Sigurðsson, yfirhlaða í stjórnunarstörf mönnum sem eru ekki í nokkru sambandi við raunveruleikann, sem gera sér ekki grein fyrir hvernig ástandið er orðið á vettvangi? Þetta eru spurningar sem verður að fá svör við.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, ljúka þessu, ég geri ráð fyrir að mínum tíma sé að ljúka, aðeins víkja að því atriði er lýtur að ávana- og fíkniefnamálum. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem ekki hefur verið mikið ræddur á hinu háa Alþingi. Þetta er nútímavandamál sem við Íslendingar stöndum því miður frammi fyrir. Það hefur ekki verið unnið að því með þeim hætti

sem þörf krefur. Ég vil að lokum, virðulegi forseti, fá að lesa upp einn kafla úr umræddri skýrslu er lýtur að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Niðurskurður peninga til löggæslu hefur bitnað illa á starfi við rannsóknir fíkniefnamála. Dregið hefur verið úr aukavinnu, og þótt mönnum hafi verið fjölgað kemur það auðvitað niður á rannsókn þegar sá sem stjórnar henni og heldur utan um allar upplýsingar er sendur heim er dagvinnu lýkur vegna þess að hann er búinn með aukavinnukvótann sinn og annar sem veit minna um málið látinn taka við.``
    Hvar á byggðu bóli halda menn að þannig sé staðið að málum í sambandi við þennan alvarlegasta og hættulegasta flokk sem lögreglan þarf að fjalla um, þar sem við er að glíma stórhættulega menn sem vinna ekki vaktavinnu, sem vinna ekki dagvinnu, sem vinna sín myrkrastörf hvenær sem það hentar þeim? Að svona skuli vera komið í íslenskri löggæslu er hörmulegt og það er krafa okkar flm. og Sjálfstfl. að þessum málum verði komið í lag og þau verði efld með þeim hætti að ég vil segja að börn okkar geti lifað í sæmilegu öryggi í framtíðinni í þessu landi.