Málefni Sigló hf. og fleira
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur nú staðið hér lengi dags og í sjálfu sér væri æskilegt að reyna að ljúka henni áður en þessum fundi er slitið. Ég vil þó segja hér örfá orð en þó ekki á meðan hæstv. fjmrh. er fjarstaddur þannig að ég óska eftir að gera hlé á ræðu minni á meðan hann er í burtu. ( Forseti: Ég bað um að hæstv. fjmrh. yrði sóttur.) Ég geri bara hlé á ræðu minni á meðan. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er kominn í salinn svo hv. ræðumaður er beðinn um að halda ræðu sinni áfram.)
    Hæstv. forseti. Ég sagði að þessi umræða hefði nú staðið lengi dags og í sjálfu sér æskilegt að reyna að ljúka henni áður en þessum fundi verði slitið. En þessi umræða gefur þó tilefni til þess að hér sé drepið á nokkur atriði til viðbótar.
    Upphaf þessarar umræðu er öllum kunnugt og hún hefur verið rifjuð upp hér af allnokkrum ræðumönnum. En það var fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar sem var upphaf þessarar umræðu og svo stóryrði, ásakanir og brigslyrði hæstv. fjmrh. sem notfærði sér fyrirspurnatíma hér fyrr í vikunni til þess að ráðast með ósæmilegum hætti að fjarstöddum mönnum og reyndar einnig þingmönnum sem hér voru í salnum og notfærði sér það að hann hafði betri aðstöðu varðandi tíma heldur en almennir þingmenn hafa í fyrirspurnatíma.
    Viðbrögð okkar sjálfstæðismanna voru að sjálfsögðu mjög eðlileg við þessum brigslyrðum hæstv. ráðherra. Við óskuðum eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Og jafnframt var óskað eftir til samanburðar að getið yrði um afgreiðslur hæstv. fjmrh. sem sérstaklega hafa komið í fréttum nú undanfarnar vikur varðandi tvö fyrirtæki.
    Hæstv. ráðherra hefur líka haft uppi mjög stór orð í þessari umræðu. En þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar sem hér liggur fyrir sýnir að öll stóryrði hæstv. fjmrh. falla dauð og ómerk. Og það er mjög athyglisvert í þessari umræðu að það hefur enginn ræðumaður, það hefur enginn ræðumaður treyst sér til þess að taka undir brigslyrði hæstv. fjmrh. þegar hann er að væna sérstaklega sjálfstæðismenn um pólitíska spillingu í sambandi við þetta mál. Meira að segja hv. 1. þm. Norðurl. v., sem stundum leggur nú lykkju á leið sína til þess að þóknast hæstv. fjmrh., treysti sér ekki til að gagnrýna þær gerðir sem hæstv. fjmrh. hefur hvað stærst orð um í þessari umræðu nú og hér fyrr í vikunni.
    Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir að þetta fyrirtæki var komið í mjög slæmt ástand og var auðvitað nánast gjaldþrota. Skýrslan sýnir að fjárframlög ríkissjóðs til fyrirtækisins 10 ár fyrir sölu námu á verðlagi ársins í ár, þ.e. mars 1989, 134,6 millj. kr. og þar af árið 1983 tæpum 60 millj. kr. Af þeim að vísu rúmlega 10 millj. framlag vegna yfirtöku á tveimur lánum frá árunum 1981 og 1982. Þannig að framlög eiga frekar að dreifast á þau ár.
    Auðvitað var skylda þáv. fjmrh. að bregðast við. Það var auðvitað óverjandi að ríkissjóður héldi áfram

að greiða á þennan hátt með einstöku fyrirtæki eins og þarna um ræðir.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson lýsti mjög rækilega í sinni ræðu hvað síðan hefur gerst og ég skal ekki endurtaka það. Hann rakti mjög ítarlega þá erfiðleika sem fyrirtækið hefur lent í og ýmsar pólitískar ákvarðanir sem því hafa verið valdandi.
    Það kemur líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að kaupverð eða söluverð ríkissjóðs á þessu fyrirtæki var mjög viðunandi eins og glöggt kemur fram í skýrslunni. Það kemur líka fram að skilmálar, þ.e. greiðsluskilmálar voru viðunandi í upphafi, síðan lendir fyrirtækið í vanskilum og í algjörum þrotum og þá er endursamið um kjörin og það er um þann þátt sem Ríkisendurskoðun segir að telja megi að þeir samningar séu afar sérstæðir sem þá voru gerðir í viðskiptum sem þessum. En jafnvel ekki þessa endursamninga um greiðslukjör treysti hv. 1. þm. Norðurl. v. sér til þess að gagnrýna og má þá sjá að hæstv. fjmrh. hefur engan liðsmann hér á Alþingi, ekki úr neinum stjórnmálaflokki til þess að hafa uppi eða taka undir þau stóryrði sem hann hefur viðhaft hér í garð sjálfstæðismanna og einstakra ráðherra hans um þetta mál. Hann stendur aleinn og einangraður í þessu máli. Það má því glöggt sjá af þessu að upphlaup hæstv. fjmrh. í þessu máli er með öllu ástæðulaust.
    Eitt er að rekja sérstaklega sölu þessa fyrirtækis og hvernig hún hefur orðið. Ég sagði áðan að ég teldi að þáv. hæstv. fjmrh. hefði ekki átt annarra kosta völ en að leita eftir kaupendum að fyrirtækinu eins og þá var komið, ef reyna átti að halda því gangandi. En eitt er að rekja sérstaklega sögu þessa fyrirtækis og annað er að ræða almennt um einkavæðingu í atvinnurekstri. Það er auðvitað ekki efni til þess að gera það ítarlega að umræðuefni í umræðu eins og þessari, ekki síst þegar svo er liðið á dag. Ég get þó ekki orða bundist vegna orða hæstv. fjmrh. þegar hann sagði hér í sinni ræðu áðan að einkavæðingin væri lykill að spillingu. Það er það sem hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu hér áðan. ( Fjmrh.: Hjá Sjálfstfl.) Hjá Sjálfstfl. Við skulum taka fleiri dæmi um það, hæstv. ráðherra, um einkavæðingu sem sýna að þessi orð eins og önnur stóryrði hæstv. ráðherra eru marklaus. Það hafa nefnilega fleiri
fyrirtæki verið einkavædd fyrir forustu sjálfstæðismanna og þess sama eða þeirra sömu ráðherra sem þar lögðu hönd á plóg, þ.e. þáv. hæstv. iðnrh., Sverris Hermannssonar, og þáv. hæstv. fjmrh., Alberts Guðmundssonar. ( Fjmrh.: Eigum við að tala um söluna á Ferðaskrifstofu ríkisins?) Við skulum tala um Landssmiðjuna t.d., hæstv. ráðherra, og við skulum líka tala um söluna á Ferðaskrifstofu ríkisins. Ég er alveg tilbúinn að gera það.
    Landssmiðjan var seld starfsfólki verksmiðjunnar í ársbyrjun 1985. Það er fróðlegt að lesa ummæli núv. framkvæmdastjóra Landssmiðjunnar Sigurðar Daníelssonar. Ég kannast ekki við hann sem flokksmann í Sjálfstfl. En það er fróðlegt að sjá og heyra hvað hann segir í viðtali við tímaritið Stefni um

sölu á Landssmiðjunni til starfsfólks fyrirtækisins. Nú vil ég leyfa mér að vitna í tímaritið, með leyfi forseta:
    Hann er spurður: ,,Hvaða breytingar hafa átt sér stað á rekstri síðan þá?`` Svar Sigurðar er: ,,Strax í upphafi viðræðnanna hófu sérfræðingar í samráði við starfsmenn að skoða reksturinn. Komu fram vissar ábendingar um hagræðingu í rekstri og í framhaldi af því var dregið verulega saman, m.a. í stjórnun. Við hættum einnig rekstri á ákveðnum deildum sem við sáum að voru ekki arðbærar, en reyndum jafnframt að hlúa að því sem eftir var bæði í verslun og í rekstri.``
    Síðan er spurt: ,,Hvernig hefur afkoman verið síðan og hverjar sérðu greinilegastar breytingar í rekstri með þessum kaupum?`` Svar: ,,Afkoman hefur síður en svo versnað. Meginbreytingin er án efa sú að svör fást strax við spurningum sem upp kunna að koma og ákvarðanataka verður þannig mun auðveldari. Áður var við iðnrn. að eiga og þrátt fyrir að þar sé mikið af hæfu starfsfólki þá varð ákvarðanataka afskaplega þung í vöfum. Áður gat maður fengið jákvætt svar frá einum stað en neikvætt svar á öðrum stað út af sama máli.``
    Spurning: ,,Nú voru starfsmenn Landssmiðjunnar nokkuð harðir í andstöðu sinni við sölu fyrirtækisins til að byrja með. Hvað kom til að viðhorfin breyttust svo mjög?`` Sigurður svarar: ,,Fólkið í þessu fyrirtæki hefur ávallt lagt metnað sinn í starfsemi fyrirtækisins. Umræðan á sínum tíma um að þetta fyrirtæki ætti ekki rétt á sér lagðist þungt í starfsfólkið. Allt í einu var engin þörf fyrir okkur og enn fremur vorum við orðnir að pólitísku bitbeini. Ekkert samráð var haft við okkur á þessum árum, þ.e. á árunum í kringum 1980. [Ég vek athygli á að það var á árunum þegar Alþb. fór með iðnrn., það var einmitt á þeim árum sem hann vitnar til.] Nýbygging Landssmiðjunnar í Skútuvogi varð til þess að koma fyrirtækinu í þau vandræði sem menn muna. Þær framkvæmdir voru ákveðnar af stjórnmálamönnum, en andinn var þannig að fólkið virtist skilja það á þann veg að sökum leti og ónytjungsháttar starfsmanna væri þetta gífurlega tap. Við gátum ekki heldur í nokkur ár fengið vitneskju um það hvort fyrirtækið ætti að lifa eða deyja. Þannig urðum við eins konar jójó í kerfinu. Við þetta varð ekki unað svo það varð meginástæðan fyrir því að við ákváðum að halda út í samningaviðræður við stjórnvöld um kaup á fyrirtækinu.``
    Spurning: ,,Væru starfsmenn tilbúnir að gera Landssmiðjuna aftur að ríkisfyrirtæki? ,, Og Sigurður Daníelsson svarar: ,,Það er af og frá. Nú sitja í stjórn fyrirtækisins fimm starfsmenn þess. Við erum ekki lengur komnir undir geðþóttaákvörðunum stjórnvalda. Áður vissum við sáralítið um gengi fyrirtækisins fyrr en ríkisbókhald hafði farið í gegnum það hálfu ári eftir uppgjör. Nú liggur reglulega fyrir vitneskja um stöðu fyrirtækisins. Starfsmennirnir hafa nú vald á stjórnuninni og við sjáum ekki ástæðu til þess að breyta því.``
    Það er athyglisvert að það tímabil sem Sigurður Daníelsson, núv. forstjóri Landssmiðjunnar, er að vitna

til er það fimm ára tímabil, 1978--1983, sem Alþb. fór með iðnrn. og stjórnaði málefnum Landssmiðjunnar. Hæstv. þáv. fjmrh., þ.e. á tímabilinu 1980--1983, var einnig í Alþb. Þetta eru lýsingar þessa núv. forstjóra Landssmiðjunnar hf. á skiptum sínum við þessi ágætu ráðuneyti og þá sem þar fóru með völd. Er það nokkur furða þótt menn hafi áhuga á því að reyna að koma fyrirtækjum af þessu tagi úr ríkiseign og koma þeim í eigu manna sem, ja, kunna til slíks reksturs, taka sjálfir ábyrgð á honum og standa sig vel eins og þeir hafa gert sem nú fara með stjórn Landssmiðjunnar?
    Auðvitað er áhætta í öllum rekstri --- og áhættan minnkar ekkert við það þó að einstaklingar kaupi fyrirtæki af ríkinu --- og getur auðvitað farið misjafnlega eins og við þekkjum um allan fyrirtækjarekstur. Svo fór greinilega um það fyrirtæki sem við höfum rætt hér aðallega í dag, þ.e. Sigló hf., að því fyrirtæki hefur gengið illa og til þess eru ástæður sem m.a. hafa verið raktar hér í dag.
    Við sjálfstæðismenn óskuðum eftir því til samanburðar að Ríkisendurskoðun kæmi með upplýsingar um skuldbreytingar eða niðurfellingu skuldar til tveggja fyrirtækja vegna skattskulda, þ.e. Nútímans og Svarts á hvítu. Og ég árétta það sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði áðan: Við óskuðum einungis eftir upplýsingum, við óskuðum ekki eftir neinu mati eða neinum dómi um það hvort rétt hefði verið að staðið og þetta væru réttlætanlegar ákvarðanir. Málefni Svarts á
hvítu komu til umræðu sérstaklega af síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Reykv., sem lagði ákveðnar spurningar fyrir hæstv. fjmrh., þ.e. sérstaklega hvernig mat hefði farið fram á veðhæfni þess hugbúnaðar sem þarna er um að ræða. Stofnkostnaðurinn segir auðvitað ekki allt í þeim efnum heldur hlýtur eitthvert mat að þurfa að fara fram til þess að hægt sé að veðsetja slíkan búnað.
    En ég vil aðeins geta þess fyrst að ég hafði allnokkra reynslu af þessu fyrirtæki Svart á hvítu og Íslenska gagnagrunninum hf. þegar ég var í menntmrn. og ég skynjaði að það sem þessi tvö fyrirtæki voru að gera var að ýmsu leyti mjög merkilegt og reyndar vildi leggja mitt af mörkum til þess að stuðla að því að þessi fyrirtæki gætu haldið áfram sinni starfsemi. Það var gert m.a. með sérstökum samningi sem menntmrn. gerði við Íslenska gagnagrunninn hf. um styrk að upphæð 400 þús. kr. til að vinna að gerð gagnagrunns um Ísland. En á móti á Íslenski gagnagrunnurinn að leggja til efni til tilraunakennslu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Síðan er í samningnum gerð sérstök grein fyrir hvaða efni hér um ræðir. En í 3. gr. samningsins segir: ,,Notkun þess umfram það sem kveðið er á um í samkomulagi þessu, svo og afritun hvers konar er háð frekara samkomulagi milli aðilja.``
    Það liggur enn fremur fyrir að munnlega var um það rætt, vegna þess að það lá fyrir á þessum tíma þegar þessi samningur var gerður, í september 1988, að fyrirtækið Svart á hvítu, sem vitað var að var stór

eignaraðili og stærsti eignaraðilinn að Íslenska gagnagrunninum hv., stóð höllum fæti fjárhagslega, að þá varð það að munnlegu samkomulagi milli starfsmanna menntmrn. og þeirra sem skrifuðu undir þennan samning að fjárreiðum þessara tveggja fyrirtækja yrði ekki ruglað saman að því er þennan samning snerti. Og í ljósi þess ber að skilja þetta orðalag um notkun á gagnagrunninum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hver skipti hafi verið við menntmrn. um þessa veðsetningu þar sem menntmrn. er greinilega óbeinn aðili að þessu máli vegna þess sérstaka samnings sem gerður var á milli menntmrn. og Íslenska gagnagrunnsins hf. á sínum tíma.
    Hitt málið sem við vildum fá samanburð um var um Nútímann og aðgerðir hæstv. fjmrh. í þeim efnum. Fjmrh. reynir að skjóta sér á bak við það að þetta sé mjög eðlileg aðgerð og venjuleg aðgerð að fella niður 6,4 millj. og krefjast 2,6 millj. Hæstv. fjmrh. hefur ekki nefnt eitt einasta dæmi um slíkt. Hæstv. fjmrh. vitnaði hér m.a. í skýrslu sem lögð var fram á Alþingi í fyrra samkvæmt beiðni hv. þm. Kjartans Jóhannssonar þar sem tilgreind eru 127 dæmi um samninga við skuldunauta en í engu slíku tilviki er getið um að skuld hafi verið felld niður. Það er um það að ræða að skuldir hafi verið greiddar með skuldabréfum með mismunandi veðum og skuldabréfum til mismunandi langs tíma, en ekki í einu einasta tilviki í þessu þingskjali er getið um að skuld hafi verið felld niður. Og ég skora á hæstv. fjmrh. að nefna um það dæmi. Mér er nær að halda --- og miðað við þau gögn sem við þingmenn höfum fengið í hendur samkvæmt beiðni þingmanna frá fjmrn. --- að þetta sé algjört einsdæmi að svo stór hluti af skuld sem hér um ræðir hafi verið felldur niður.
    Hv. 1. þm. Reykv. gat um það í sinni ræðu hvernig dagsetningar um þróun mála hefðu verið, þ.e. ákvörðun hæstv. fjmrh. um stórkostlega niðurfellingu skuldarinnar, hvernig kaupin síðan fara fram þegar Vífilfell kaupir fyrirtækið Farg hf. og síðan þegar greidd er þessi rúmlega 2 millj. kr. eftirstöðvaskuld við fjmrn. En hæstv. ráðherra svarar þegar hann er spurður: Ég vissi ekkert um þennan eftirleik. Ég vissi bara um þá samninga sem ég gerði. Ég vissi ekkert um eftirleikinn. Með öðrum orðum: Þeir fóru á bak við mig.
    Hverjir voru það sem voru að fara á bak við hann? Voru það einhverjir viðskiptamenn úti í bæ? Voru það einhverjir bissnesmenn, einhverjir fyrirtækjaeigendur úti í bæ sem voru að gera slíkan samning við hæstv. fjmrh.? Hverjir voru eigendur Nútímans? Var það ekki Framsfl.? Hverjir eru formenn og forustumenn Framsfl.? Þarf ég að tilgreina það hér fyrir hæstv. fjmrh.? Hann var að eiga við hæstv. forsrh. og hann var að eiga við hæstv. sjútvrh. í þessum samningum. Og síðan segir hann: Ég hafði ekki hugmynd um hvernig stóð á því að þeir voru að gera þessa samninga við mig. Þeir fóru algerlega á bak við mig. Trúi þessu hver sem trúa vill. Ég segi ekki meir.
    Þessir samningar sem þarna voru gerðir eru að

mínu mati mjög gróft dæmi um pólitíska spillingu og hæstv. fjmrh. getur ekki þvegið hendur sínar af því máli með því að vitna í fordæmi vegna þess að það sem við hv. þm. höfum hér séð um þetta efni bendir ekki til þess að dæmi séu um eftirgjafir af þessu tagi, þar sem svo stór hluti, þ.e. um 75% af skuldinni, sé felldur niður. Þetta vildi ég sagt hafa um þetta mál.
    Ég vil þó að lokum aðeins benda á varðandi Nútímann að rök hæstv. fjmrh., að hann hafi verið að fá í ríkissjóð það sem hann mögulega gat og betra var að fá eitthvað en ekki neitt, í þessu dæmi standast ekki vegna þess að salan á fyrirtækinu gerði það örugglega að verkum að ríkissjóður tapaði meiru, stærri upphæðum, meiri upphæðum heldur en þessum eftirstöðvum af skuldinni nam sem
ríkissjóður fékk greidda frá Nútímanum, þannig að þau rök hæstv. fjmrh. í þessu efni standast ekki.
    Niðurstaðan af þessari umræðu er auðvitað sú að hæstv. fjmrh. hefur enn einu sinni með upphrópunum, hávaða og brigslyrðum hlaupið á sig. Hann stendur einn hér í þessari umræðu. Það hefur enginn af hv. þm. treyst sér til þess að taka undir brigslyrði hans í þessu máli og segir það sína sögu.