Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi lýsa stuðningi við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir, í megindráttum, en fá þó að gera athugasemdir við einn ákveðinn þátt frv. sem er sá þáttur sem snýr að íþróttamálum, enda hef ég lagt fram brtt. við þann þátt málanna.
    Frv. virðist njóta víðtæks stuðnings sveitarfélaganna í landinu og þess vegna kannski ekki vert að vera að leggja til miklar breytingar á því heldur vonast til að agnúar sem fram muni koma verði sniðnir af í tímans rás.
    Íþróttalífið í landinu hefur fram að þessu verið viðurkennt sem þroskandi og hollt fyrir æsku þessa lands. Það hefur verið viðurkennt að það stuðlar að betri námsárangri og skilar betra fólki inn á vinnumarkaðinn. Það hefur verið viðurkennt að íþróttir eru eitthvert besta forvarnarstarf sem til er í baráttunni gegn bjór, áfengi og tóbaki og fíkniefnum öllum og eiturlyfjum. Það hefur verið viðurkennt að íþróttir eru einhver besta landkynning sem við eigum völ á og höfum fengið og nægir að nefna þar t.d. frábæran árangur handknattleikslandsliðsins okkar. ( Forseti: Það er fullmikill kliður í salnum.) Það er nú kannski eins og á íþróttavöllum, þar er oft mikill kliður og mikil fagnaðarlæti og ég var að minnast á það að við hefðum fagnað landsliði okkar í handknattleik vegna frábærrar frammistöðu nýverið. Auðvitað er þetta allt árangur þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í gegnum árin, þeirrar uppbyggingar sem við erum nú að leggja í mikla hættu.
    Varðandi landkynningu þá er náttúrlega hægt að nefna fjölda einstaklinga og liða sem hafa borið hróður þessa lands víða. Þessa dagana eru menn eins og Arnór Guðjohnsen og Ásgeir Sigurvinsson að kynna land okkar frábærlega. Einar Vilhjálmsson spjótkastari hefur gert það líka, Haukur spretthlaupari, sem ég man nú ekki í augnablikinu hvers son er, en keppir fyrir fatlaða og er nú ekki minna en heimsmeistari í sinni grein. Ég tel því skjóta mjög skökku við að nú eigi með þessu frv. að stofna uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í landinu í voða því frumvarpið gerir ráð fyrir að Íþróttasjóður í þeirri mynd sem hann er í í dag verði nánast lagður niður. Þá má náttúrlega spyrja: Hverjir koma til með að styrkja landssamtök og heildarsamtök, samtök á borð við HSÍ og KSÍ og önnur slík? Hverjir eiga að standa að byggingu nýju handknattleikshallarinnar? Varla gerir Reykjavíkurborg það ein og sér. Fyrir utan það að aðstöðumunurinn úti um allt land verður gríðarlegur. Þetta er lítið mál fyrir stærri sveitarfélögin en mikið mál fyrir þau minni. Það hlýtur því að leiða til þess að þeir einstaklingar og æska á viðkomandi svæðum, þar sem uppbygging kemur til með að drattast og dragast og verða engin, leitar þangað sem aðstaðan er, inn í stærri sveitarfélögin eða hingað á höfuðborgarsvæðið þar sem aðstaðan er best. Þannig að byggðastefnan í frv. hvað þennan þátt varðar er ekki góð. Íþróttafólki og æskunni verður því mismunað eftir búsetu í landinu. Og það er sárt til þess að vita að það þurfi að yfirgefa sína heimabyggð

til að geta stundað jafnsjálfsagðan hlut og íþróttir eru, enda ræður íþróttaaðstaða á svæðum oft úrslitum um það hvort fjölskyldur taka sig upp og flytjast á ákveðin svæði eða ekki.
    Ég varð svolítið hissa þegar ég sá að hvorki hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson né fulltrúi Kvennalistans, 12. þm. Reykv., gerðu athugasemdir við þennan þátt frv., sérstaklega með tilliti til þess sem þau sögðu um þennan þátt hér á síðasta þingi. Ég vil gjarnan fá að rifja það upp. Þar sagði hv. 1. þm. Vesturl. m.a. þegar hann var að ræða þennan þátt mála, með leyfi forseta:
    ,,Ég er ekkert hissa á því í sjálfu sér að menn séu kvíðnir í sambandi við þetta mál því það er eitt erfiðasta málið í landinu núna, þessi aðstöðumunur til íþrótta sem menn eru að gera sér grein fyrir að er að aukast núna með hverjum mánuði sem líður. Nú eru allar íþróttir í okkar landi miðaðar við keppnisíþróttir. Ég verð t.d. var við það í minni heimabyggð að ungir strákar sem eru stæltir og kröftugir vegna þeirrar aðstöðu sem þeir hafa í þessu byggðarlagi þar sem allt byggist á því að ungir menn fari að vinna um leið og þeir komast á legg, þeir hafa ekki sömu aðstöðu og hér. Þeir koma hingað suður og eru í körfubolta sem þeir eru búnir kannski að æfa í engri aðstöðu í ófullkomnu húsi en krafturinn er svo mikill í þeim að þeir geta lagt að velli menn hérna í Garðabæ og annars staðar þar sem aðstaðan er fyrir hendi. En þeir koma bara heim og segja: Pabbi eða mamma, þetta er ekki hægt. Við getum ekki búið á stað þar sem engin aðstaða er til.
    Það er þessi lýsing, þó hún sé kannski í sumra eyrum skrýtin, þá er þetta staðreynd sem er að grafa um sig núna miklu meira úti um landið en við höfum gert okkur grein fyrir. Við erum að færast nær því að það eru gerðar miklar kröfur til íþróttafólks og um leið vaknar áhuginn hjá hinum, og þar sem ekki er til aðstaða gerist það einfaldlega að fólkið flyst burt frá þessum stöðum þangað sem aðstaðan er til. Ég hygg að þetta sé jafnvel enn þá meira vandamál en menn hafa gert sér grein fyrir og þess vegna er alveg ljóst að stjórnvöld og Alþingi verða að taka miklu, miklu fastar á þessu máli en nokkurn tímann hefur verið talað um áður. Það eru nýir tímar sem eru komnir yfir okkur hvað þetta snertir. Ég vil ekki þurfa að hugsa til þess að ungt fólk í byggilegum
byggðarlögum segi bara hreint og klárt: Við verðum að flytja héðan vegna þess að engin aðstaða er fyrir hendi.``
    Hv. 1. þm. Vesturl. tók mjög sterklega undir það sem ég hef verið að segja hér í dag þar sem hann segir að mikill aðstöðumunur sé til íþrótta. Hann segir í sínu dæmi, ef ég fæ að endurtaka það: ,,Pabbi eða mamma, þetta er ekki hægt. Við getum ekki búið á stað þar sem engin aðstaða er til.`` Það er þetta sem við erum að reyna að koma í veg fyrir með þessari brtt., nákvæmlega þetta hér, enda tekur hann undir þar sem hann segir að þar sem ekki er aðstaða gerist það einfaldlega að fólkið flytjist burt frá þessum stöðum þangað sem aðstaðan er til. Og í síðasta lagi, við

verðum að flytja héðan vegna þess að engin aðstaða er til og hann vill ekki þurfa að horfa upp á ungt fólk í byggilegum byggðarlögum þurfa að gera slíkt.
    Þetta eru frábær rök og mjög góð og ég trúi ekki öðru en að maður með þessi rök taki undir svona brtt. og í rauninni tel ég það klaufaskap hjá mér að hafa ekki boðið honum upp á að vera með. En allt sem hann sagði hér á síðasta þingi stendur nákvæmlega enn í dag. Þau rök standa fullkomlega fyrir sínu í dag.
    Þá vil ég aðeins leyfa mönnum að heyra hvað fulltrúi Kvennalistans hafði að segja sem einnig er á því nál. sem styður þetta frv. nánast óbreytt. Hún sagði um þennan þátt, með leyfi forseta:
    ,,Ef ég sný mér nú að II. kafla frv., sem fjallar um breytingar á íþróttalögum, nr. 49/1956, með síðari breytingum, þá er mjög erfitt að sjá það á þessu hvernig þetta á að vera einföldun. Þarna stendur að opinber stuðningur við byggingu íþróttamannvirkja eigi að vera á vegum íþróttafélaga og félagasambanda. Svo stendur síðar, með leyfi forseta: ,,Alþingi veitir þó árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður.`` Þarna er raunverulega verið að grauta saman. Það er bæði Íþróttasjóður enn þá sem Alþingi veitir fé úr og síðan er samt gert ráð fyrir því að sveitarfélögin styðji byggingu íþróttamannvirkja á vegum íþróttafélaga og félagasambanda þannig að það er nú erfitt að sjá að þetta sé til mikillar einföldunar. Ef maður les síðan aðeins aftar, þá á að bæta við einni reglugerðinni enn, en þar stendur:
    ,,Í reglugerð sem menntmrn. setur, að höfðu samráði við íþróttanefnd og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, skal ákveða nánar m.a. um skilyrði fyrir opinberum styrkveitingum, rekstur og afnot mannvirkja sem njóta styrks.``
    Það er sem sagt reglugerð sem menntmrn. setur um það sem mér skilst að sveitarfélögin eigi að gera. Ég botna ekkert í þessu, þetta er hálfskrýtið. Ég efast um að þetta geti staðist, að menntmrn. eigi að fara að setja reglugerð um það hvernig sveitarfélögin styrkja hin ýmsu íþróttafélög. Þetta getur því varla orðið til einföldunar. Með þessu er líka verið að auka verkefnin sem eiga að fara yfir á sveitarfélögin og getur þetta verið mjög bagalegt, sérstaklega fyrir fámenn sveitarfélög þar sem getur verið um að ræða mikil mannvirki. Ef um væri að ræða mannvirki sem væru byggð á vegum félagasamtaka og íþróttasamtaka sem ná yfir stór svæði --- það má t.d. nefna Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands sem nær yfir mjög stórt svæði og það má nefna Héraðssambandið Skarphéðin, HSK, hér á Suðurlandi og Ungmenna- og íþróttasamband Borgarfjarðar sem nær yfir mörg sveitarfélög --- þá ert vandséð hvernig þeim íþróttafélögum reiðir af sem þurfa að leita til fjölda sveitarfélaga, ef þau fá engan styrk til bygginganna úr ríkissjóði, því þessi styrkur sem þó hefur komið úr Íþróttasjóði hefur verið þeim til mikillar hjálpar. En það sem kannski skiptir mestu máli er að þarna er áfram verið að grauta saman hlutverki ríkis og sveitarfélaga og engin skýr mörk þar

á milli sem þó er einn aðaltilgangur frv.
    Ég get tekið það fram að þeir sem komu á fund nefndarinnar og fjölluðu um þetta svið, sem voru bæði fulltrúar frá ÍSÍ og UMFÍ og frá íþróttanefnd ríkisins, vöruðu eindregið við þessum breytingum. En ég ætla ekki að fara nánar út í það sem þar var talað um.``
    Nú er náttúrlega nærtækast að spyrja: Hvað hefur í rauninni breyst? Þetta er nákvæmlega sama málið og þessir hv. tveir þm. sem ég hef verið að vitna hér í frá síðasta þingi styðja í dag. Það er engin breyting á því, hún er ekki til. Það sem hins vegar er athyglisvert við nefndarstarfið er það að nefndin taldi sig ekki, í þetta sinn, þurfa að kalla til fulltrúa íþróttasamtakanna. Fulltrúar ÍSÍ eða UMFÍ fengu ekki að koma á fund nefndarinnar og tjá sig og má það heita mjög furðulegt. Ég vona að hv. þm. skipti um skoðun í þessu máli og vakni af þeim draumi eða svefni sem þeir eru í.
    Það skortir hins vegar ekki á tyllidögum og hátíðisdögum að ráðamenn þjóðarinni skilji og skynji tilgang íþróttarinnar og hversu mikilvægur þáttur hún er í öllu lífi landsmanna. En það nær bara yfirleitt ekkert lengra en það.
    Ég er nýkominn að vestan þar sem var verið að opna íþróttahús að Laugum og hlustaði þar á hæstv. menntmrh. fara mjög fögrum orðum um íþróttalífið í landinu og líkti því við --- ekkert líkti því við, hann sagði að það væri snar þáttur í menningarlífi þjóðarinnar. En það nær bara ekkert lengra. Stóru orðin ná ekkert lengra en til ræðna á tyllidögum og væri hægt að fletta hér upp í þessari sömu umræðu og draga fram ummæli þeirra þingmanna Alþb. sem nú sitja
hinum megin við borðið þar sem þeir voru ekkert annað en skilningsríkir í garð íþróttanna hér á síðasta þingi. En það er nú annað í dag.
    Þær brtt. sem ég er að leggja hér fram eru í rauninni annars vegar um það að halda Íþróttasjóði að mestu leyti óbreyttum frá því sem hann er í dag og hins vegar um það að ríkisvaldið greiði til baka þær upphæðir sem íþróttafélögin og þeirra samtök hafa lagt í verkefnin, þ.e. að þær endurgreiðslur séu verðtryggðar og skili sér að fullu til baka. En með leyfi forseta hljóða brtt. þannig og þetta er á þskj. 1134:
,,1. Við 49. gr. 3. efnismgr. orðist svo:
    Alþingi veitir árlega á fjárlögum fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Úr sjóðnum skal veita styrki til byggingar íþróttamannvirkja og annarrar félagslegrar aðstöðu fyrir félög og heildarsamtök, tengd íþróttum, innan Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins. Samþykki íþróttanefndar um að mannvirki sé styrkhæft skal liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.``
    Í öðru lagi er, eins og ég sagði, verið að tryggja það að félögin fái til baka það sem þau hafa lagt fram en ekki stórlega skert framlög, en sú grein er svohljóðandi, með leyfi forseta:
,,2. Við 74. gr. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. komi tveir

nýir málsl. svohljóðandi: Ríkissjóður greiðir skuld Íþróttasjóðs og Félagsheimilasjóðs við íþróttafélög og sveitarfélög á fjórum árum með ríkistryggðum skuldabréfum og skal fyrsta greiðsla fara fram á árinu 1990. Jafnframt skal veita árlega fé á fjárlögum til að ljúka þeim framkvæmdum sem í gangi eru.``
    Þannig hljóðar sú brtt. Auðvitað er það hart að þurfa að setja það í lög að ríkið endurgreiði að fullu það sem það hefur í rauninni lofað að endurgreiða, en reynsla íþróttahreyfingarinnar af því að fá fé til baka hefur verið sú að sá 40% hlutur sem oftast hefur fallið á ríkið hefur skilað sér að verðgildi u.þ.b. 10%. Það skortir ekki eða hefur ekki skort fram að þessu að ríkið sé aðgangshart og --- ja, nánast gróft í því að kalla inn það fé sem það á með alls konar dráttarvöxtum og óþverraskap, en þegar það á að fara að greiða til baka skiptir það minna máli.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.