Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós álit mitt á þeirri kjaradeilu sem hér er til umræðu. Í dag ríkja allt aðrar hugmyndir um mannréttindi, frelsi og þjóðfélagsrekstur en var á þeim tíma þegar stéttarvitund vaknaði og félagsbundin stéttabarátta hófst.
    Vitanlega er okkar þjóðfélag gjörbreytt frá því að þessi barátta hófst fyrir rétti launamanna, en þó eru ekki mörg ár liðin frá því að ríkisstarfsmenn fengu verkfallsrétt. E.t.v. byggist það á þeim rökum að ríkinu sé skylt að þjóna landsmönnum með þeirri starfsemi sem þetta fólk innir af hendi. En þetta fólk á einnig sinn rétt til launabaráttu eins og aðrir í þessu landi. Fram hjá því er ekki hægt að líta.
    Þessi staðreynd breytir því heldur ekki að ríkið á mjög mikilvægu þjónustuhlutverki að gegna, enda skattgreiðendur sem kosta þá þjónustu. Nú hefur verkfall háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna staðið yfir í tæpar sex vikur, og engin lausn sjáanleg, með þeim afleiðingum m.a. að fólk er farið að fordæma þennan hóp, velta því fyrir sér hvort ekki eigi að taka af þeim verkfallsréttinn o.s.frv. Þessi óeining og stéttasundrung sem komið hefur upp í þjóðfélaginu er óviðunandi og þótt þessi mál séu viðkvæm og oft og tíðum erfið, þá hlýtur maður að velta þeirri ábyrgð á hendur ráðamanna í þessari ríkisstjórn, sérstaklega hæstv. fjmrh. Auðvitað er hans staða erfið, m.a. vegna nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. En það er þó ekki þungamiðjan því að þetta verkfall sýnist mér vera skólabókardæmi um það hvernig ekki á að standa að vinnudeilum. Stóryrtar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í fjölmiðlum dag eftir dag hafa m.a. orðið til þess að koma þessu máli í algjöran hnút og meðferð hans á þessu máli hefur ekki verið ábyrgðarfull að mínu mati. Hann er ekki í stöðu kennara sem getur gefið nemendum sínum falleinkunn ef þeir svara ekki öllu rétt. Hann er ekki í stöðu fjármálaráðherra sem getur sagt: Ríkið, það er ég. Hæstv. ráðherra er hér fyrst og fremst í stöðu samningsaðila sem á að gæta hagsmuna almennings í þessu landi í sem víðtækustu samhengi. Í þessu sambandi þykir mér þó rétt að leggja á það áherslu að það er mitt mat að forsvarsmenn í vinnudeilum almennt verði að gæta fyllstu hófsemi í yfirlýsingum við fjölmiðla þegar mál eru í viðkvæmri stöðu.
    Það virðist ríkja nokkuð einkennilegt verðmætamat af hálfu ráðamanna í hæstv. ríkisstjórn. Átta þeir sig ekki á því hversu alvarlegt ástand hefur skapast hér í þjóðfélaginu? Þeir hljóta þó að eiga börn sem eru hluti af þeim 14 þúsund nemendum sem hér ganga um göturnar og vita ekki sitt rjúkandi ráð fyrir utan allt annað neyðarástand sem er að skapast víða í þjóðfélaginu vegna verkfalls þessara hópa.
    Því er haldið fram að það tilboð sem BHMR var gert um síðustu helgi sé samið af báðum aðilum í þessari deilu, en það er þó fremur ótrúlegt þegar litið er til þess að þetta tilboð felur ekki síst í sér nefndaskipan eða, eins og gerð er grein fyrir í þessu tilboði, að allar launakerfisbreytingar samanstanda af

sex liðum og hver einasti liður hefst á orðunum: Skipa nefnd. Skipa nefnd, skipa nefnd, skipa nefnd, skipa nefnd, og síðan nefnd til.
    Ég ætla ekkert að ræða það neitt ítarlegar hér hvað kemur fram í efni þessa tilboðs, tel það ekki réttan vettvang, en maður getur líka velt því fyrir sér, þegar litið er til þess að samningar hafi verið lausir í 17 mánuði, a.m.k. hvað kennara snertir, og að ástæða þess að þeir sögðu síðustu samningum lausum var m.a. svokölluð starfskjaranefndarskýrsla sem síðan var stungið ofan í skúffu að þeirra sögn, þá virðist hér um hreina endurtekningu að ræða og maður getur vel skilið sárindi þessa hóps.
    Í þessu sambandi er vert að minna á þá reglu að ef annar aðili í gagnkvæmum samningi vanefnir skyldur sínar verður þess ekki krafist af hinum að hann efni sínar skyldur. Það er einnig eins og það hafi líka alveg gleymst að hið opinbera ber fræðsluskyldu lögum samkvæmt.
    Það hefur verið gagnrýnt mjög að leitað er eftir samningum til þriggja ára. Þá er rétt að benda á þá friðarskyldu sem hvílir á aðilum vinnumarkaðarins. Að sjálfsögðu vill þetta fólk fá að sinna sínum störfum í friði. Því líður auðvitað illa yfir saklausum þolendum þessa verkfalls, hvort sem það eru nemendur, sjúklingar eða aðrir sem hagsmuna eiga að gæta.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn, en mig langar til að benda á það að það blandast auðvitað engum hugur um að launþegar ná oft ekki nema hluta af kjörum sínu og stöðu í gegnum kjarasamninga. Ytri aðstæður og stjórnun þjóðfélagsins ráða þar að sjálfsögðu miklu. Og fram hjá því verður heldur ekki litið að aðrir launþegahópar hafa samið m.a. með hliðsjón af erfiðum efnahagsaðstæðum. Engu að síður verður að gera kröfu til þess að hæstv. ríkisstjórn leggi sig nú fram um að leysa úr því ófremdarástandi sem hér hefur skapast því að ég leyfi mér að efast um að það hafi verið reynt til fullnustu. Margir af þeim hópum sem nú eru í verkfalli eru í þeirri erfiðu stöðu að ekki eru til hliðstæð störf á almennum vinnumarkaði. Til þessa verður að reyna að taka tillit.
    Ég talaði í upphafi um mannréttindi, frelsi og þjóðfélagsrekstur. Það er ekki síst um þessi þrjú atriði sem þetta mál snýst. Ég skora því á hæstv. ríkisstjórn að leysa þetta mál, enda er það hennar skylda.