Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjh.- og viðskn. skýrði frá er aðeins eitt nál. og undir það rita allir hv. nefndarmenn, en þrír þó með fyrirvara og eru það auk mín Halldór Blöndal og Júlíus Sólnes. Efnislega má kannski segja að ekki sé mikill ágreiningur á milli okkar í nefndinni og kannski raunar enginn, það sé meira formsatriði, en þó með þeim hætti að ég a.m.k. gat ekki staðið að því að samþykkja 1. gr. frv. eins og hún er orðuð í frv. Þess vegna leggjum við sem fyrirvara gerum til að 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
    Ég skal í örstuttu máli gera grein fyrir ástæðunum fyrir þessari brtt. En með leyfi forseta hljóðar upphaf 1. gr. á þennan veg: ,,Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð.``
    Hér er auðvitað um það að ræða að setja í almenn lög það sem þegar er auðvitað í stjórnarfarsrétti og stjórnarskránni sjálfri, þ.e. að menn eigi að sitja við ein og sömu lögin. Það hefur tíðkast, að vísu í litlum mæli hérlendis og ég man raunar ekki nema eitt dæmi sem vakti athygli og það er svokölluð Ólafslög, að í löggjöf eru tekin ummæli eins og þau: Stefnt skal að, ríkisstjórnin mun o.s.frv. Þetta hefur ekki þekkst í íslenskri löggjöf og eru vægast sagt hortittir að hafa í lögum ummæli sem þessi. Þar að auki er það svo alveg ljóst sem fram kemur í 2. gr. grg., en þar stendur, með leyfi forseta, og ég les fyrst 1. mgr.:
    ,,Fyrir Alþingi liggur vitneskja um að fjármálaráðherrar hafi tekið sér vald sem þeir ekki hafa að lögum til að leyfa einstökum aðilum að greiða háar fjárhæðir opinberra gjalda með skuldabréfum til lengri eða skemmri tíma og með mismunandi kjörum að öðru leyti eftir geðþótta ráðherra.``
    Ég skal engan dóm leggja á þessa fullyrðingu, en 2. mgr. hljóðar svo:
    ,,Með þessu hefur verið brotið gegn sjálfri meginstefnu allrar skattalöggjafar að allir þegnar þjóðfélagsins, sem eins stendur á um, hljóti sömu meðferð og þá eingöngu samkvæmt lögum eins og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins.``
    Þarna segir í stjórnarskránni sjálfri það sem talið er að skuli vera stefna hér. Það er ekki hægt að setja í stefnu eins eða neins eitthvað sem brýtur stjórnarskrána í þessu efni. Raunar, svo að menn skilji málið alveg til hlítar, kemur í umsögn um 1. gr. nákvæmlega það sem segja þurfti, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Með þessari grein eru sett skilyrði fyrir því að fjmrh. sé heimilt að leyfa einsökum aðilum að greiða opinber gjöld með skuldaviðurkenningu til lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt greininni skal einungis heimilt að lána opinber gjöld í þeim tilvikum þar sem skattheimtuaðili telur að krafan fáist ekki greidd nema með því að semja um greiðslu á henni. Í slíkum tilvikum er fjmrh. heimilt að samþykkja greiðsluskilmála, enda liggi fyrir umsögn Ríkisendurskoðunar. Þá kveður greinin á um að

Ríkisendurskoðun gefi Alþingi árlega skýrslu um slíka samninga.``
    Í síðari hluta 1. mgr. segir allt sem segja þarf og allt það sem í lög á að setja. Það á ekki að setja greinargerðir og stefnuyfirlýsingar í lög. Það getur verið málefni flokka, það getur verið málefni stofnana að skilgreina hvað þeir vilji og hvers þeir óski. En í lögum eiga einungis að vera fyrirmæli sem eru skýr og einföld og 1. gr., þegar sleppir 1. málsl. sem við leggjum til að falli niður, segir allt sem segja þarf. Þar stendur: ,,Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu á kröfu`` o.s.frv. skal með farið eins og þar stendur.
    Ég tel það vera til vansa að samþykkja greinina óbreytta, en jafnvel þótt svo sé er ég sammála meiri hl. nefndarinnar um efni málsins og hlýt því að láta það yfir mig ganga þó að þessi tittur verði settur í lög sem er þess eðlis að þetta verður vonandi afmáð úr lögum þegar skattalög verða endurskoðuð. Ég vildi hins vegar ekki láta þetta frv. fara í gegn öðruvísi en að ég og aðrir sem gera fyrirvara bentum á að svona eigi löggjöf ekki að vera. Þetta er til vansa og ef löggjöfin verður útbíuð í svona hortittum og óþarfa staðhæfingum, stefnumálum o.s.frv. er það til mikils tjóns þegar fram í sækir.