Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það málefni sem hér er til umræðu er mjög jákvætt innlegg í umræðu um vaxtandi samskipti við okkar nágrannaþjóðir. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að fara að senda þetta til utanrmn. eins og hæstv. 5. þm. Suðurl. var að stinga upp á. Það komu nákvæmlega engin rök fram hjá honum sem gáfu ástæðu til þess að þessu máli yrði vísað til utanrmn. Það er hugmynd úr lausu lofti sýnist mér.
    En ég get út af fyrir sig skilið að menn telji að einhverjir hagsmunir séu þarna í sambandi við samningsstöðu. En ég verð að segja að ef við fórnum meiri hagsmunum fyrir minni í sambandi við slíka samningsstöðu erum við að gera sjálfsmark. Það eru auðvitað stórkostlegir hagsmunir þessarar þjóðar að fá lönduðum meiri afla hér en er til í íslenskri fiskveiðilandhelgi.
    Ég verð að segja að mér finnst það eðlilegt að það komi fram tortryggni í okkar garð ef við viljum hafa einstefnu á samskiptum við aðrar þjóðir í sambandi við að landa afla. Við viljum mega landa í Færeyjum en þeir mega ekki landa hér. Það gengur ekki upp. Þetta gengur ekki upp að koma svona fram gagnvart nágrönnum sínum. Ég get ekki séð að þessir samningsstöðuhagsmunir séu þeir, þó þeir séu auðvitað einhverjir, að þeir séu nema bara til tjóns.
    Varðandi Grænlendinga verð ég að segja að mér finnst að við eigum einmitt að vera jákvæð gagnvart þeim. Grænlenska þjóðin á í sjálfstæðisbaráttu. Ísland hefur átt í sjáfstæðisbaráttu. Við ættum að eiga auðvelt með að setja okkur í þeirra spor og vera jákvæð og koma með jákvætt innlegg í þeirra sjálfstæðisbaráttu. Þeir eru að berjast fyrir sjálfstæði sinnar þjóðar og við hjálpum þeim mikið í baráttunni með því að opna dyr en ekki að vera með einhvers konar kverkatak á mönnum.
    Mér finnst að það gæti jaðrað við dónaskap að vilja ekki þiggja fisk sem er í boði án þess að það þurfi einhverja sérstaka leyfisveitingu svo að menn megi landa. T.d. koma loðnuskip upp að landinu til að veiða sinn kvóta sem búið er að semja um, veiðiskip frá fleiri ríkjum meira að segja en Færeyjum. Þegar þau fiska kannski slatta vilja þau landa því hér ef það gerir vont veður. Þó það sé ekki stórt eykur þetta allt saman framleiðslugetu íslenskra verksmiðja. Ég vil því mæla með því að það verði fleiri múrar rifnir niður í samskiptum við okkar nágranna og þá sérstaklega Færeyinga og Grænlendinga.
    Ég tel að nái þetta frv. fram að ganga og komist til framkvæmda séum við kannski að stíga nýtt skref í viðskiptum við nágrannaþjóðirnar sem meiri viðskipti gætu fylgt eftir. Þá á ég sérstaklega við Grænland. Grænland er mjög stórt land og mér er sagt að þar séu margir stórkostlegir möguleikar og Íslendingar ættu einmitt að horfa í kringum sig því að góð viðskipti fara þannig fram að þau séu hagur beggja. Það er það sem málið snýst um, að það sé hagur beggja þjóðanna að fyrirtæki og útgerðir fái að eiga sín viðskipti án þess að það þurfi að fara bónarveg að

of mörgum.
    Ég tel því að með því að samþykkja þetta séum við raunverulega að styrkja stöðu okkar og leggja jákvætt innlegg í samskipti við okkar nánustu nágrannaþjóðir. Ég vona því að frv. verði samþykkt.