Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forsti. Ég vil í upphafi fá að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns þar sem hann sagði að að sínu mati væri ólykt af þessu máli. Það er vissulega ólykt af því. Það er megn fnykur af því. Þetta mál var sett fram til að fá höggstað á ákveðnum aðila, en virðist fyrir þá sem óskuðu annars hafa orðið vindhögg.
    Ég get alveg tekið undir það, og ég held að flestir þingmenn geri það, að það þarf að taka kjaramál þingmnana til gagngerðrar endurskoðunar og launamálin í heild. En að taka einn lið alveg út úr er algerlega út í hött. Ég tek undir þær kröfur að kjaramál þingmanna og launamál verði tekin til endurskoðunar hið fyrsta. Ég á sæti í fjh.- og viðskn. sem ég reikna með að fái þetta mál til umfjöllunar. Ég mun mælast til þess að bæði hv. 1. flm. frv., Jón Helgason, og hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, komi á fund nefndarinnar þar sem þeir hafa báðir þegið slík biðlaun og geta kannski tjáð okkur hvernig þetta er í reyndinni, enda væri þeirra skoðun á málinu afar dýrmæt fyrir nefndina til að átta sig á umfangi þess.
    Í tillögutextanum segir að afsali þingmaður sér þingmennsku og hverfi til annarra launaðra starfa falli réttur hans til biðlauna niður. Nú getur það náttúrlega líka skeð að þingmaður hreinlega veikist. Það eru nokkrir hér inni eldri en ég og kannski með lakari heilsu en ég. Þeir geta veikst og farið þá í eitthvert þægilegt, rólegt starf sem er lægra launað, illa launað jafnvel. Þá eiga þessir aðilar ekki rétt á biðlaunum. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp. Ef ég yrði fyrir því áfalli að lamast að hálfu eða einhverju leyti gæti ég kannski fengið vinnu við eitthvað sem væri mér við hæfi, en þar sem það er launað starf og ég yrði að afsala mér þingmennsku fengi ég ekki biðlaunin. Þetta er algerlega út í hött.
    Í grg. með frv. segir: ,,Frumvarp þetta er flutt í samráði við þá þingforseta sem sæti eiga í neðri deild.`` Það hlýtur að vera krafa deildarinnar að þingforsetar tali fyrir þessu máli. Auðvitað áttu þeir að flytja málið og mæla fyrir því í upphafi. En það er enn opin umræða og ég hvet þingforseta til þess að tjá hug sinn og mæla fyrir málinu á réttan og eðlilegan hátt.
    Ég vil aðeins segja að ég er reiðubúinn að taka biðlaun sem slík til ... ( Forseti (HG): Vegna orða hv. ræðumanns er rétt að sá sem situr í forsetastól nú taki fram að hann hefur hvergi nálægt þessu máli komið og hafði ekki ástæðu til að mæla fyrir því.) Það er í sjálfu sér mjög athyglisvert að heyra þetta úr forsetastóli þar sem hér segir, eins og ég var að enda við að lesa, að frv. sé flutt í samráði við þá þingforseta sem sæti eiga í Nd. Það hlýtur að skiljast þannig að átt sé við alla þrjá forseta deildarinnar, aðalforseta og fyrsta og annan varaforseta. ( ÓE: Og sameinaðs þings einnig.) Já, og sameinaðs þings einnig. Ég hlýt að leggja til að þar sem hér er á borðum frv. sem fer ekki með rétt mál verði það hreinlega dregið til baka. Það hlýtur að vera réttmæt krafa að annaðhvort verði frv. prentað upp eða

tillagan hreinlega dregin til baka.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál, en ég lýsi mig reiðubúinn að taka kjaramál þingmanna í heild sinni til endurskoðunar en ekki taka einn sérstakan lið út úr.