Jöfnun á raforkukostnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Út af fyrir sig get ég verið ánægður yfir því að það er verið að vinna í þessum málum. Hitt er annað mál að það má ekki vera lengi að velta þessu fyrir sér vegna þess að við erum komin á þann punkt að það er hætt við því að fólk fari í auknum mæli að fara hingað til Reykjavíkur vegna þeirrar óvissu sem ríkir í atvinnumálum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Egill Jónsson sagði. Það fer allt of stór hluti af launum þessa fólks til að borga t.d. orkukostnað og það kemur sem kauplækkun hjá þeim. Þess vegna er það á þessu sviði sem öðrum að við Íslendingar þurfum að fara að taka á þessum byggðamálum eitthvað líkt og jafnaðarmenn í Noregi gera og reyna að spyrna við fótum og jafna lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu. Þó að talað sé um húshitun í þessum málefnasamningi okkar er það í mínum huga allur orkukostnaður sem þarf að jafna. Það er ekkert minna mál fyrir Reykvíkinga en fyrir landsbyggðina að halda fólkinu úti á landi sem vinnur við framleiðslustörfin.
    Ég óska mjög eftir því, hæstv. ráðherra, að ég geti fengið að tilnefna mann til þess að fylgjast með þessum málum sem er í fullu samræmi við það sem talað var um þegar við mynduðum ríkisstjórnina því að þetta er eitt af höfuðmálum landsbyggðarinnar.