Ritvinnslusamningur
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans þó ég verði að sumu leyti undrandi þar sem hann talaði um þá fáu daga síðan þessi fsp. kom fram. Auðvitað er það í þessum ráðuneytum að þar er einn dagur sem þúsund ár o.s.frv. Ég held að það séu allmargar vikur síðan þessi fsp. kom fram, jafnvel mánuðir. Hún er alla vega búin að vera lengi á dagskrá í sameinuðu Alþingi. Þetta mun vera fjórði fundurinn. Þetta var því auðvitað undansláttur.
    En eigi að síður upplýsti hæstv. ráðherra að þarna væri um verksamning að ræða sem væri upp á heilar 16 millj. kr. og þá sjálfsagt á vegum Háskólabókasafns og Landsbókasafns þannig að þarna er um mikið verk að ræða. Það sem ég spurði hér um og vildi vita var hvort ráðuneytið hefði áður en það staðfesti slíkan samning tryggt að Íslendingar hefðu átt kost á því að fá að bjóða í þetta verk og vinna það eða hvort þeir voru gjörsamlega afskrifaðir og ekki treyst til þess.
    Um svarið er í sjálfu sér fátt að segja, en ég hef vakið athygli á þessu máli og ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel brýnt að áður en slík verkefni, sem munu á næstu árum verða miklu fleiri, eru seld úr landi sé Íslendingum gefinn kostur á að vinna slík verk. Ef það er ekki kunnugt í ráðuneytinu, þar sem einn dagur er sem þúsund ár og þúsund ár sem dagur ei meir, vona ég að þeir gefi sér tíma til að gefa Íslendingum kost á að vinna slík verk. Það eru þegar að komast í gang stofur sem sækjast eftir slíkum verkefnum og það væri þeim styrkur í upphafi að fá svona verk til hliðar í sín fyrirtæki til þess að vinna. Ég er ekkert frá því að það gæti orðið jafnhagstætt tilboð sem þeir gerðu í slík verk og örugglega þjóðhagslega miklu hagkvæmara að Íslendingar reyni sjálfir að vinna sem flest verkefni í þessu landi.