Útbreiðsla Stöðvar 2
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Sú fjölmiðlabylting sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur svo sannarlega ekki farið fram hjá neinum. Dagblöð, tímarit og prentað mál yfirleitt eru orðin fjölbreyttari og miklu betur úr garði gerð en þau voru fyrir örfáum árum. Meiri fjölbreytni hefur einnig átt sér stað á öldum ljósvakans þar sem margar nýjar útvarpsstöðvar hafa komið til og þær hafa kannski orðið til þess að menn hafa lært að meta ótvíræða yfirburði og kosti ,,gömlu Gufunnar``. Kostir nýju útvarpsstöðvanna hafa kannski ekki verið á þann veg að gæðin hafi aukist, en hafa þó orðið til þess að ,,gamla Gufan`` svokallaða virðist bera höfuð og herðar yfir þessar nýju útvarpsstöðvar. En fjölbreytnin hefur komið til.
    Stórkostlegar breytingar hafa einnig orðið á örskömmum tíma á sviði sjónvarps. Nægir að minna á upphafið með svarthvítu sjónvarpi fyrir um það bil 25 árum, en þá var lögð á það áhersla að allir landsmenn fengju notið þess sem fyrst að fá að horfa á sjónvarp og það virtist ganga mjög greiðlega, fljótt og vel að sjónvarpið breiddist út um gervallt landið. Síðan kom litsjónvarpið og enn höfðum við þá þekkilegu tíma, vildi ég segja, að við fengum notið sjónvarpsfrís á fimmtudögum og í júlímánuði ár hvert var sjónvarpsfrí. Það voru notalegir og skemmtilegir tímar sem maður sér svolítið eftir. En því var síðan breytt og síðan þá er svo að segja ekkert skjól fyrir sjónvarpi.
    Svo kom að því að sjónvarpsstöðvum var fjölgað í tvær og nú er e.t.v. von á þeirri þriðju þannig að breytingar eru þar mjög skjótar og undraverðar. Ég vil einnig í þessu sambandi nefna myndbandavæðinguna sem gekk yfir allt landið og gerðist einnig á undraskjótum tíma þannig að menn hafa svo sem nóg við að dunda hvað snertir afþreyingu frá fjölmiðlum.
    En þegar úrval er orðið svo mikið finna þeir meira til þess sem út undan verða og einhvern veginn er það svo að útbreiðsla Stöðvar 2 hefur ekki orðið með slíkum hraða sem varð með svarthvítu sjónvarpi fyrir 25 árum þannig að það virðist ætla að verða bið á því að allir landsmenn fái notið þess sem sú stöð hefur upp á að bjóða.
    Það virðist ekki endilega vera þannig að afskekktustu staðirnir verði út undan. Þannig hefur mér verið sagt að tveir af kaupstöðum landsins hafi ekki enn þá fengið þann tæknibúnað sem nauðsynlegur er til að geta náð útsendingu þessarar stöðvar og munu það vera Siglufjörður og Stykkishólmur. Því langar mig til að spyrja hvort það sé rétt, og fá það þá staðfest að Siglufjörður sé annar af þessum tveimur kaupstöðum, og síðan í framhaldi af því spyrja hvenær megi búast við að nauðsynlegum tæknibúnaði verði komið upp til að íbúar Siglufjarðar og þá væntanlega Stykkishólms einnig, svo að ég segi það í leiðinni, fái notið þess sem Stöð 2 hefur upp á að bjóða.