Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að hreyfa þessu mikla alvörumáli sem tíðarfarið er nú og jafnframt hæstv. landbrh. fyrir þá greinargerð sem hann hefur flutt hér um þær ráðstafanir sem þegar hefur verið ákveðið að gera til þess að koma í veg fyrir að afleiðingarnar verði alvarlegri en óhjákvæmilegt er. Þannig hefur jafnan verið reynt að standa að málum áður á síðustu áratugum þegar svona harðindi hafa komið. Sem betur fer erum við á ýmsan hátt sífellt að verða betur í stakk búnir til þess.
    Að sjálfsögðu er mikilvægasta atriðið að halda fénaðinum þannig að afurðatjón verði sem allra minnst af slíku. En jafnframt þá að kostnaður og fjárhagsleg áföll fyrir bændur verði líka í lágmarki. Þar eru að sjálfsögðu ýmsar leiðir, eins og hæstv. ráðherra benti á, og virðist t.d. liggja beinast við að fella niður fóðurgjöld af því innflutta fóðri sem þarna þarf að nota í miklu ríkara mæli en í venjulegu árferði.
    Ég vil sem sagt vonast til þess að hér takist sem best til við að draga úr þeim áföllum sem íslenskur landbúnaður verður fyrir af þessum sökum.