Íslenskur gjaldmiðill
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Flm. (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um íslenskan gjaldmiðil sem var flutt í fyrra en er nú endurflutt í breyttu formi. Ég harma það hvað illa hefur gengið að koma þessu máli á dagskrá. Það liggur við að manni finnist það hálfgert grín að vera að taka þingsályktunartillögur til umræðu á síðasta degi þingsins til þess að vísa þeim í salt. Í mínum augum lítur það út sem hálfgert grín, en engu að síður mun ég mæla fyrir tillögunni.
    Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að skora á viðskrh. að skipa nefnd til þess að kanna með hvaða hætti helst kæmi til greina að treysta íslenskan gjaldmiðil þannig að hann njóti alþjóðlegrar viðurkenningar. Ráðherra skal skipa fimm menn í nefndina, einn tilnefndan af ASÍ, einn af VSÍ og einn frá Seðlabanka Íslands, einn frá Þjóðhagsstofnun og einn tilnefndan af viðskiptadeild Háskóla Íslands og sé hann formaður nefndarinnar. Nefndin á að skila áliti sínu til Alþingis fyrir árslok 1989.
    Hlutverk nefndarinnar á einkum að vera að kanna þrjár leiðir í þessu sambandi.
    1. Að gera Seðlabanka Íslands að sjálfstæðri stofnun, óháða framkvæmdarvaldinu.
    2. Að láta framboð og eftirspurn ráða verði gjaldmiðilsins.
    3. Að tengja gjaldmiðilinn við stærra myntkerfi.
    Nefndin skal leita álits hjá erlendum seðlabanka um málefni þetta.
    Það þarf varla að fara mörgum orðum um að mikill óstöðugleiki hefur einkennt íslenska efnahagsstjórn. Markmiðið með þessum tillöugflutningi var að reyna að leita að leiðum til þess að auka stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu. En hér er ekki um neinar hugmyndir um patentlausn að ræða heldur að hér fari fram athugun á því hvort ekki finnist vænlegri leiðir en núverandi fyrirkomulag. Það má vera ljóst að Íslendingar hafa glatað miklum auðæfum og kaupmáttur á Íslandi væri miklu hærri ef ekki hefði verið allur þessi óstöðugleiki og verðbólga á erlendri skuldasöfnun. Það er því afar mikilvægt að leitað verði nýrra leiða til þess að auka stöðugleika og jafnvægisástand í efnahagslífinu.
    Það virðist vera að spákaupmennska alls konar hefur mikið grasserað á Íslandi undanfarin ár og ég vil meina að það endurspegli fyrst og fremst vantrú Íslendinga á gjaldmiðli þjóðarinnar, þ.e. tiltrú Íslendinga á gjaldmiðilinn er of lítil og tiltrú erlendra aðila á gjaldmiðilinn er enn þá minni. Það kannast allir við að það flýta sér allir að öllu, sérstaklega þegar verið er að fjárfesta. Alls staðar er stressið og spákaupmennskan. Síðan krefst verkalýðsforustan verulegra kauphækkana og nú er uppi kjaradeila sem er í þann veginn að ljúka. ( Gripið fram í: Það er búið að skrifa undir.) Gott að heyra það. Þetta er að hluta til spákaupmennska, þ.e. forustumenn verkalýðsfélaganna eru að verja sig fyrir þessum sífelldu hækkunum. Það er sama sagan. Allt verðlag hækkar sífellt og þeir eru að verja sig fyrir því og það er eðlilegt að þeir geri það. Síðan er offjárfesting

á öllum sviðum þjóðlífsins. Ég vil meta þessa offjárfestingu sem afleiðingu af efnahagsástandinu. Þetta er spákaupmennska. Allir að flýta sér að kaupa sér ísskáp, nýjan bíl, eldavél eða einhvern skollann áður en gengið hækkar. Þetta er eyðsluspákaupmennska sem mjög brýnt er að stöðva.
    Ég vil meina það að þessari spákaupmennsku verði ekki eytt nema það finnist leiðir til þess að íslenski gjaldmiðilinn njóti alþjóðlegrar viðurkenningar. Ég get ekki séð neitt sem bendir til að það eigi ekki að vera hægt vegna þess að íslenska þjóðin er örugglega með auðugustu þjóðum í heimi ef við mundum meta auðlindir á landsmann því verðmæti íslenskra auðlinda er mjög mikið. Það væri hægt að nefna þar fiskstofna, fallvötnin, jarðvarmann, möguleika til fiskeldis og ómengaða náttúru landsins. Þetta eru stórkostlegir möguleikar. Það er ekkert sem fær mig til að trúa því að ekki sé hægt að hafa hér alvöru gjaldmiðil.
    Ég vil meina að það hafi aldrei verið jafnþýðingarmikið og nú, það hefur auðvitað alltaf verið þýðingarmikið, að ná stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum til langframa vegna þess að öll samkeppni bæði innan lands og erlendis fer sífellt harðnandi. Flutningar, upplýsingar og samskipti milli einstakra markaðssvæða og landa verða alltaf auðveldari vegna framfara á öllum sviðum. Við skulum ekki gleyma því að Evrópubandalagið opnar sína markaði innbyrðis árið 1992 og þá harðnar þessi samkeppni enn þá meira. Ég tel því að þjóðin hafi glatað miklum verðmætum vegna óðagots í fjárfestingu, verðbólgu og spákaupmennsku og það sem er stærsta vandamálið í dag er að útflutnings- og samkeppnisiðnaður og önnur verðmætaframleiðsla verður undir í þessum verðbólgudansi og þessari spákaupmennsku. Eiginfjárstaða atvinnulífsins sem framleiðir verðmæti sem þjóðin lifar á hefur farið ört rýrnandi undanfarin ár og það er mjög alvarlegt mál. Ég vara við þeirri þróun því að höfuðstól atvinnuvega íslensku þjóðarinnar vil ég líkja við stofnstærðir íslenskra nytjastofna. Það er alvarlegri hlutur að rýra höfuðstól íslenskra atvinnuvegna en að stunda rányrkju á þorkstofninum. Við vitum að við getum byggt þorskstofninn upp aftur en við vitum ekki fyrir víst hvort við getum byggt upp
eiginfjárstöðu atvinnulífsins sjálf aftur. Hver verður það sem byggir upp atvinnulífið aftur ef það heldur áfram að tapa fjármunum eins og það hefur verið að gera? Það skyldi nú aldrei verða að við mundum neyðast til þess að erlendir aðilar kæmu og keyptu upp íslenskar fiskvinnslustöðvar á uppboðum? Hver ætlar að stöðva það ef enginn á peninga? Þetta er mjög alvarlegt mál og ég vil lýsa furðu minni á því hvað virðist ríkja mikið kæruleysi varðandi þetta mál, þá á ég við rýrnun höfuðstóla atvinnulífsins.
    Það er alltaf verið að tala um það að við stefnum að því að auka kaupmátt og menn tala um það á tyllidögum að það þurfi að bæta lífskjör og auka kaupmátt. En menn verða þá að meina eitthvað með þessu. Það er ekki hægt að tala bara um þetta og gera svo ekkert raunhæft því að stöðugleiki í íslensku

efnahagslífi og það að drepa verðbólguna niður er alger forsenda þess að hægt sé að bæta lífskjör á Íslandi og auka kaupmátt. Um það er engum blöðum að fletta.
    Varðandi þessa tillögu langar mig til að segja að núverandi löggjöf um Seðlabankann varðandi gengisskráningu virkar ekki. Það er ekkert farið eftir því sem Alþingi ákvað að skyldi verða gert. Það stendur í 18. gr. seðlabankalaganna að ákvörðun um gengi íslensku krónunnar skuli miðast að því að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Það er meginsjónarmið varðandi löggjöfina um gengisskráningu að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Ég skil ekkert í því að stjórnvöld skuli síðan komast átölulítið upp með það að hafa bullandi viðskiptahalla. Það er það sem ég á við með fölsku gengi. Það á að skrá gengi krónunnar þannig að það sé jafnvægi. Framkvæmdarvaldið gerir það ekki. Þess vegna vil ég finna nýjar leiðir að því. Samkvæmt lögunum virðist það ekkert fara á milli mála að Alþingi hefur ætlað framkvæmdarvaldinu að viðhalda jafnvægisástandi með þessari lagasetningu. Það tel ég vera meginsjónarmið.
    Það er síðan önnur leið í þessum tillöguflutningi að láta framboð og eftirspurn ráða verði gjaldmiðilsins. Það er leið frjáls markaðar. Það er mjög eðlilegt að það sé skoðað og síðan að tengja gjaldmiðilinn við stærra myntkerfi. Það er líka fullkomlega eðlilegt að það sé skoðað. Þessi tillaga gengur ekkert lengra í þá átt en að skipuð verði nefnd til að skoða málið. Og ég skil ekki áhugaleysið hjá hv. Alþingi að vilja ekki skoða það hvort hægt sé að finna einhverja betri lausn á þessum málefnum. Ég kalla það áhugaleysi að vera að taka svona tillögu til umræðu á síðasta degi Sþ. eins og talað er um í dag, þó að enginn viti nú reyndar hvað verður á morgun.
    Í Íslandssögunni er sagt frá því að einu sinni hafi verið reynt að selja Íslendingum maðkað mjöl. Danska einokunarverslunin gerði það hér fyrr á tímum. Það gekk um tíma að selja Íslendingum maðkað mjöl með því að hafa fallegt mjöl á botnunum á tunnunum en maðkað mjöl í miðjunni. Ég vil að vissu leyti líkja því við það að afhenda mönnum ónýta peninga í staðinn fyrir alvörupeninga. Það er svona svipað og þegar danska einokunarverslunin seldi mönnum maðkað mjöl.
    Það er líka til annað dæmi úr Íslandssögunni, sem ég hef áður rakið, og það er þegar Skúli fógeti var búðardrengur á Húsavík hjá dönskum einokunarkaupmanni, en þegar Skúli starfaði að afgreiðslunni hrópaði kaupmaðurinn jafnan til hans: ,,Mældu rétt, strákur.`` Það þýddi það sama og að halla skyldi á kaupendur. En Skúli sagði afa sínum allt af létta um hætti manna í búðinni. Varð karl þá æfur og mælti: ,,Ætlar þú, drengur minn, að gera þig sekan um svo auðvirðilegt athæfi?`` Ég vil því spyrja: Hversu lengi ætlar framkvæmdarvaldið á Íslandi að gera sig sekt um svo auðvirðilegt athæfi að afhenda fyrirtækjunum, sem standa undir verðmætaframleiðslunni í útflutnings- og samkeppnisiðnaði, ónýta peninga í skiptum fyrir

alvörupeninga? Því ég kalla það ónýta peninga sem ekki er hægt að nota hér innbyrðis í lokuðu hagkerfi. Stærsta vandamálið í efnahagsmálum er raunverulega gjaldmiðillinn og margt mundi leysast af sjálfu sér ef það tækist að koma lagfæringu á þau mál.
    Ég held því að það að drepa spákaupmennskuna, sem ég ræddi um hér áðan, sé alger forsenda þess að vextir geti lækkað, taprekstur útflutningsatvinnuveganna og annarra atvinnuvega verði stöðvaður, lífskjör bætt og kaupmáttur aukinn. Þetta eru allt markmið sem við viljum ná og því skyldum við þá ekki reyna í alvöru að drepa spákaupmennskuna með því að finna leiðir til þess að gera íslenska gjaldmiðilinn að alþjóðlega viðurkenndri mynt?
    Það er enn fremur ástæða til þess í lokin að ítreka að við verðum að drepa þessa spákaupmennsku til þess að geta komið verðbólgunni fyrir kattarnef áður en hún drepur efnahagslegt sjálfstæði þessarar auðugu þjóðar. Ég legg til að þessu máli verði vísað til allshn. og vona að það verði ekki sett í salt.