Kosningar, nefndarstörf o.fl.
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að koma í ræðustól og gefa skýringu á þessari afstöðu Borgfl. og um leið harma jafnómerkilegan málflutning og hér var viðhafður úr ræðustól af hálfu hv. 11. þm. Reykn. Þannig var að fyrir nokkrum vikum síðan leitaði þingflokksformaður Borgfl. eftir samvinnu við þingflokksformenn bæði Sjálfstfl. og Kvennalista um samstarf um þessa kosningu, sem hér hefur nú farið fram, en á 111. þingi, veturinn 1988--1989, hefur verið samvinna stjórnarandstöðuflokkanna, Sjálfstfl., Borgfl. og Kvennalista, um kosningu fulltrúa flokkanna í þingnefndir, utanþingsstjórnir og ráð.
    Þegar leitað var eftir því fyrir einum tíu dögum síðan að þessi samvinna héldi áfram bar svo við að þingflokksformaður sjálfstæðismanna hafnaði algerlega að hafa nokkra samvinnu við Borgfl. eða Kvennalista. Þingflokksformaður Borgfl. leitaði þá eftir samvinnu við Kvennalista um samstarf um þessa kosningu að minni beiðni þar sem að við gátum reiknað það út eins og hver annar að í samstarfi við þingflokk Kvennalistans hefði þingflokkur Borgfl. fengið einn mann kjörinn inn í aðra hvora þessa stjórn og þingflokkur Kvennalistans þá væntanlega fengið einn mann kjörinn í hina stjórnina. Þessu hafnaði þingflokkur Kvennalista og taldi að þær mundu kjósa frekar að standa einar sér við þessa kosningu.
    Þá ræddum við þetta í okkar hópi og hvað gera skyldi næst. Átti þingflokkur Borgfl. að hlíta þessu. Með fimm manna þingflokk liggur það nokkuð ljóst fyrir að við hefðum ekki komið neinum manni að, hvorki í stjórn Áburðarverksmiðju né Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, né heldur fengið varamann inn í þá stjórn. Auðvitað gátum við unað því, en við töldum það samt skyldu okkar sem stjórnmálaflokks að reyna að ná áhrifum þar sem við gætum. Því leituðum við eftir samvinnu við þingflokka stjórnarflokkanna um samstarf um þessa kosningu og það samstarf náðist. Þá bar svo við á fundi formanna þingflokka og forseta Alþingis að þingflokksformaður Sjálfstfl. lýsti því yfir skyndilega að hann mundi vilja hafa samvinnu við hina stjórnarandstöðuflokkanna. Þetta er sagt til þess að skýra þetta mál út, en þau ummæli sem hv. 11. þm. Reykn. hafði hér uppi áðan eru ekki svara verð.