Staðgreiðsla opinberra gjalda
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað allítarlega um þetta frv. og fékk ýmsa aðila til viðræðna, þeirra á meðal fulltrúa Alþýðusambandsins, Ásmund Stefánsson, Ara Skúlason og Láru V. Júlíusdóttur, Þórarin V. Þórarinsson og Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Lárus Ögmundsson frá fjmrn., Ragnar Hall borgarfógeta, Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra og þá Hjört Eiríksson og Eyþór Þorbergsson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.
    Nefndin er sammála í afstöðu sinni til málsins og leggur til að frv. verði samþykkt með einni brtt. sem flutt er á sérstöku þingskjali, en brtt. er við gildistökuákvæði laganna. Hún er til að taka af tvímæli og eyða réttaróvissu og orðast þannig, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og gildi um allar þær kröfur sem hér um ræðir og ekki hafa þegar verið gerðar upp við yfirstandandi búskipti``, þ.e. að taka af öll tvímæli um hvernig farið skuli með þau mál sem eru til skipta þegar þessi lög taka gildi.
    Ég endurtek að í nefndinni var einhugur um afstöðuna til málsins. Umsagnir og ummæli þeirra aðila sem komu til fundar við nefndina voru svo skýr og eindregin að menn velktust ekkert í vafa um afstöðu til málsins þótt sumir kunni að hafa gert það áður.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að fara mörgum orðum um það efnislega sem hér er á ferðinni. Ég hygg að sú andstaða sem gætti m.a. hjá hæstv. fjmrh. þegar mælt var fyrir þessu máli í Nd. og raunar hjá fleirum sé að verulegu leyti á misskilningi byggð vegna þess að svo skýr rök hafa komið fram fyrir þessu máli að ég er satt að segja sannfærður um að þeir hafi ekki hlustað nógu grannt þegar málið var skýrt. Ég held að frv. muni leiða til þess að innheimtumenn ríkissjóðs gangi betur fram við innheimtustörfin en gert hefur verið til þessa og það er óeðlilegt að krafa af hálfu ríkissjóðs, enda þótt þar sé um skattfé að ræða, skuli geta ógilt fyrri veðkröfur og veðsetningar.
    Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar mælir einróma með samþykkt frv.