Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er enn til umræðu mál sem flækst hefur á milli deilda þar sem hv. alþm. virðast ekki geta komið sér saman um hvernig og hverjir eigi að vera undanskildir þegar um aðstöðugjald er að ræða. Ástæðan fyrir því að ég kem í þennan ræðustól er að lýsa yfir stuðningi við tillögu hv. þm. Geirs H. Haarde, en þó fyrst og fremst til þess að fjalla um þær ræður sem hér hafa verið fluttar sem kannski sýna best í hvaða vanda hv. stjórnarþingmenn eru.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður fjvn., flutti ræðu þar sem hann lýsti yfir eindregnum stuðningi við þær hugmyndir sem fram hafa komið í tillögum flm., en niðurstaðan í hans málflutningi var sú að hann yrði að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni þar sem hann hefði í samningum við aðra stjórnarþingmenn verið kúgaður til þess. Það var það sem hann sagði í einföldu og skýru máli.
    Nú væri vissulega eðlilegt í framhaldi af ræðu hv. þm. að spyrja hvort það sé búið að kúga aðra þingmenn Alþfl. í þessu máli. Á ég þá sérstaklega við og beini máli mínu til þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem eru í salnum, manna sem greiddu fyrir því að gerð var breyting á þessu frv. í átt til upphaflegs frv., sátu þá hér í þingsölum en hurfu eins og huldufólk þegar kom að því að greiða atkvæði síðar um þetta. ( Utanrrh.: Þeir voru að sinna skyldustörfum.) Að sinna skyldustörfum sem mun þýða að hafa setið í veislu úti í bæ. Það getur vel verið að það sé rétt. (Gripið fram í.) Já, gott og vel. En nú reynir á þessa menn hvort þeir standa við sannfæringu sína eða hvort hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur talað fyrir hönd þingflokks Alþfl. í þessu máli. Þetta mál er nefnilega þannig vaxið að í upphaflegu stjfrv. var ekki gert ráð fyrir því að um neina undantekningu væri að ræða. Þetta held ég að hv. þm. og hæstv. ráðherrar Alþfl. ættu aðeins að hugleiða áður en þeir ganga endanlega í bland við tröllin í þessu máli.
    Þá kem ég að málflutningi hv. 5. þm. Suðurl. Hafi þingmaður einhvern tíma gengið fram af mér hér í ræðustólnum gerði hv. þm. það. Ætlar hv. þm. Geir H. Haarde að fara að hækka mjólkina fyrir börnin? Það er eins og börn kaupi einhverja sérstaka mjólk hér á landi. Ég veit ekki betur en við drekkum öll sömu mjólkina. ( ÓÞÞ: Nei.) Ja, ekki kannski sumir sem drekka léttmjólk vegna þess að þeir eru orðnir svo feitir að þeir mega ekki drekka öðruvísi mjólk. Ég þakka þeim sem kallaði hér fram í fyrir að minna á það. En allir venjulegir menn drekka þessa sömu mjólk, bæði börn, konur og karlmenn. ( MB: Þetta kostar alveg sama, mjólk fyrir feita.) Það er alveg rétt. Það er eðlilegt að menn þurfi að kalla þetta fram í ræðu mína af því að ég veit ekkert um þetta. Ég þarf ekkert á slíkri mjólk að halda. En þessi málflutningur, hv. þm., er náttúrlega þannig að hann er þingmanninum til mikillar vansæmdar.
    Málið snýst um það, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, hvort það á að vera jafnræði á milli atvinnugreinanna, milli þeirra sveitarstjórna þar sem mismunandi atvinnugreinar eru stundaðar, og þótt

mjólk hækki um 2--3% hefur það ekki svo stórkostlega þýðingu þegar m.a. er tekið tillit til þess að þessi vara er stórlega niðurgreidd og ríkisvaldið hefur gert annað eins og að greiða með mjólkurlítranum. Það mundi vega upp á móti þessu. Ég er ekki að mæla með þeirri aðferð. Ég er bara að benda á að það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem ræður því hvort mjólkin hækkar eða lækkar um 2--3%. Ég gæti auðvitað staðið í ræðustól og haldið því fram að hv. þm. Guðni Ágústsson vildi gera fólk sem hefur unnið t.d. á prjónastofu eða saumastofu á Hvolsvelli atvinnulaust vegna þess að hann kýs að láta leggja aðstöðugjald á iðnfyrirtæki eins og t.d. prjónastofur og saumastofur en ekki á mjólkurbú og sláturhús. Þar með get ég haldið fram með nákvæmlega jafnmiklum rökum, jafnmikilli sannfæringu og hv. þm. að hv. þm. Guðni Ágústsson vilji að fólk verði atvinnulaust sem hefur starfað við slíkan iðnað á Hvolsvelli. ( GuðnÁ: Það er orðið það.) Það er orðið það. Þá má sem sagt halda því fram að hv. þm. vilji stuðla að slíku. Ég held því ekki fram. Ég held nefnilega að hv. þm. hafi gripið hér til þess ráðs, sem er ekki boðlegt neinum hv. þm., að segja það úr ræðustól að ástæðan fyrir því að hann vilji ekki ganga inn á þessa jafnræðisreglu sé sú að hann vilji ekki að það hækki mjólkin til barna á Reykjavíkursvæðinu. Þessi málflutningur er ekki mönnum bjóðandi, ekkert frekar en sá málflutningur minn að kenna hv. þm. um að hann vildi að prjóna- og saumakonur á Hvolsvelli yrðu atvinnulausar. Málið snýst einfaldlega ekkert um það. Það snýst um jafnræðisregluna og það snýst um að sveitarfélögin hafi heimild til þess að leggja aðstöðugjöld á atvinnurekstur algerlega burtséð frá því um hvað sá rekstur snýst. Því eiga sveitarstjórnirnar að hafa rétt á, enda var frv. hugsað þannig í upphafi.
    Ég vildi, virðulegur forseti, koma þessu til skila af því að mér finnst, jafnvel þó menn hafi verið kúgaðir til þess af einhverjum ástæðum að greiða atkvæði gegn tillögu hv. þm. Geirs H. Haarde og ganga gegn upphaflegum ákvæðum frv., miklum mun skemmtilegra að menn segi það beint út í ræðustólnum en klæði það í einhvern annan búning. Það þarf enginn að halda því fram þó að það sé
það sem hv. þm. Guðni Ágústsson átti við, hann átti einfaldlega við það, að landbúnaðurinn fari illa út úr slíkri skattlagningu. Ég held að svo sé ekki. Ég held að t.d. hvað varðar bæði dilkakjöt og sláturafurðir og enn fremur mjólk að almenningur í þessu landi kaupi slíka vöru jafnvel þótt hún hækkaði um 1--2% og hefði gert það vegna þess að þessi vara er góð og hún er nauðsynleg og hennar verður neytt í framtíðinni á meðan framleiðslan á henni er með þeim hætti að þetta er vara sem fólk þarf á að halda heilsu sinnar vegna. En að halda því fram að sú neysla hverfi þó að um slíka skattlagningu sé að ræða er ekki boðlegt með þeim hætti sem hv. þm. hélt fram. Þetta mál kemur börnum í Reykjavík ekkert við því að hæstv. ríkisstjórn greiðir svo mikið niður mjólkurverðið að það munar langtum hærri upphæðum en hér er um að ræða.

    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi hér fram áður en menn grípa til þess ráðs að nota málflutning á borð við þann sem hv. þm. notaði og væri þá hreinlegra og þrifalegra af hans hálfu að hann segði hreint út að hann áliti það sem fulltrúi landbúnaðarins að það væri verið að ráðast gegn landbúnaðinum hér í landinu. En ég held að það sé enn fremur misskilningur.