Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skilgreiningu sem sýnir ljóslega að það upphlaup sem hér varð í sambandi við þetta mál var algerlega óþarft. Það hefur enginn verið að túlka þessa grein mér vitanlega þannig að það ætti að fara að taka upp aðra siði en hafa verið í framkvæmd þessa máls frá fyrstu tíð, frá því að aðstöðugjaldið var lagt á þessa starfsemi. Það hefur aldrei verið breytt út frá því og það var nauðsynlegt að fá upp hvort það væri verið að túlka einhverjar nýjar aðferðir hér. Með því sem hæstv. ráðherra hefur sagt og vitnaði í Ævar Ísberg skattstjóra er augljóst mál að það er ekki verið að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Það er verið að staðfesta að þetta frv. hafi ekki í sér neina breytingu. Þess vegna er allt þetta tal um þetta mál algerlega óþarfi.
    Ég get bætt því við að það dettur engum manni í hug að sláturleyfishafa sem slátrar sé ekki heimilt að taka aðrar umbúðir utan um kjötið en bara strigapoka eða eitthvað þess háttar. Markaðssetning fylgir frá sláturleyfishafanum þannig að smásalinn tekur við eða heildsalinn eða hvernig sem það er. ( SighB: Það er ekkert í kjötvinnslunni).
    Þetta er engin breyting á því sem hefur verið og ég fagna því að það hefur komið hér skýrt fram svo að menn þurfa ekki að vera að vaða í villu um hvað hér er um að ræða. Það er nauðsynlegt þegar upp kemur misskilningur að láta leiðrétta hann á eðlilegan máta og það tel ég að hæstv. ráðherra hafi gert og ég þakka fyrir það.
    Ég vildi undirstrika þetta svo að þessum þætti málsins væri endanlega lokið.