Félagsmálaskóli alþýðu
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. 1. minni hl. hv. félmn. hefur skilað nál. á þskj. 1190 þar sem lagt er til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Sá sem hér stendur er einn í þessum minni hl., en hv. fulltrúi Kvennalistans skipar 2. minni hl. nefndarinnar.
    Ég sé ekki ástæðu til að eyða miklu af dýrmætum tíma deildarinnar í þetta vandræðamál. Ég hef skrifað langt og ítarlegt nál. þar sem það er rökstutt hvers lags fjarstæða er að vera að setja lög um þennan skóla sem svo er kallaður. Það er enginn ráðherra við þegar verið er að fjalla um þetta mál, en vill ekki félmrh. þá næst beita sér fyrir því að það verði sett lög til að mynda um Stjórnmálaskóla Sjálfstfl. eða Námsflokka Reykjavíkur eða fleiri aðila sem standa fyrir alls kyns námskeiðahaldi í landinu?
    Ég tel að hér sé farið inn á mjög varhugaverðar brautir eins og rökstutt er í mínu áliti. Ég tel að það eigi að vera metnaður verkalýðshreyfingarinnar að reka sína starfsemi sjálfstætt óháð ríkisvaldinu og það sé rangt að hlaða þessari starfsemi í öllu sínu veldi yfir á ríkið.
    Það er rétt og það er eðlilegt að styðja þessa starfsemi, hlynna að henni með framlögum úr ríkissjóði, en það er rangt að setja um hana sérstök lög þannig að ríkið taki á sig ábyrgðina á starfsemi sem þessari. Ég gæti eytt hér einhverjum tíma í að fara yfir einstakar greinar í þessu frumvarpi, en ég læt mér nægja að vitna til þeirra athugasemda sem ég hef gert í mínu nál. Ég sé að félmrh. er komin í salinn. Ég var með fyrirspurn til hæstv. ráðherra, og hún getur svarað því úr sæti sínu eða úr stólnum ef hún vill, hvort næsta skref í lagasetningu í þessum dúr sé að setja lög um Stjórnmálaskóla Sjálfstfl. ( Félmrh.: Nei.) Nei, af hverju ekki? Ég meina að það væri alveg rökrétt framhald á þessu máli að tína til alls kyns aðila og setja um þetta sérstök lög.
    En að öllu gamni slepptu, virðulegur forseti, tel ég að hér sé verið að gefa afar óheppilegt fordæmi alveg án þess að ég sé að gera lítið úr þeirri starfsemi sem þarna fer fram sem á að sjálfsögðu fullan rétt á sér og hefur gefið góða raun og hefur gert mörgum manninum betur kleift að átta sig á ýmsu því námsefni sem þar er boðið upp á til að mynda í sambandi við kjarasamninga og þau flóknu mál sem snúa að ýmsu því er fram fer á vinnumarkaðnum.
    Ég ætla eingöngu, herra forseti, að lesa niðurlag þessa nál., niðurstöðuna, ég hirði ekki um að lesa allar hinar blaðsíðurnar í þessu nál. en vísa mönnum á þær. Niðurstaðan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Að öllu þessu samanlögðu er það niðurstaða undirritaðs að rangt sé að setja sérstök lög um Félagsmálaskóla alþýðu. Jafnframt þykir vera sýnt fram á að frumvarp þetta er vanhugsað og illa undirbúið að flestu leyti. Þessi niðurstaða dregur hins vegar í engu úr því að á vegum Félagsmálaskóla alþýðu hefur til þessa farið fram merkt fræðslustarf sem sjálfsagt er að halda áfram að styðja með árlegu framlagi á fjárlögum. Til að tryggja sem best slíkan stuðning er einfaldast að gera samning hliðstæðan

þeim sem menntmrn. hefur gert við Slysavarnafélag Íslands um öryggismála- og slysavarnakennslu og birtur er hér sem fylgiskjal. Undirritaður leggur til að slíkur samningur verði gerður við aðstandendur Félagsmálaskóla alþýðu og að frumvarpi þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Í framhaldi af þessu vil ég benda á það, herra forseti, sem fram kom í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar og fram kemur í nál. meiri hlutans. Þar er mjög fróðleg setning, svofelld með leyfi forseta: ,,Margar athyglisverðar ábendingar komu fram sem meiri hl. sér þó ekki ástæðu til að fjölyrða um.``
    Margar athyglisverðar ábendingar komu fram sem meiri hl. sér þó ekki ástæðu til að fjölyrða um. Það vill svo vel til að ég var viðstaddur þetta nefndarstarf og hlýddi á þessar ábendingar og veit nákvæmlega hverjar þær eru og veit líka að margar þeirra hníga mjög í sömu átt og athugasemdir mínar um þetta mál. En að meiri hl. ríkisstjórnarinnar í þingnefndinni fari eitthvað að skipta sér af því er af og frá. Það er ekki ástæða til að fjölyrða um svoleiðis, eins og segir í nál., kemur bara ekki til greina.
    Ég hlýt að fordæma þessi vinnubrögð með fullri virðingu fyrir mínum góðu félögum í hv. félmn. Ég veit að þeir telja sig vera í erfiðri stöðu vegna þess að ríkisstjórnin hefur lofað aðstandendum þessa máls því í tengslum við kjarasamninga að þetta mál nái fram að ganga, telja sig bundna því loforði. En það fer ekkert á milli mála að í þessu frumvarpi eru mörg varhugaverð atriði sem snerta framkvæmd, stjórn, fjárhagsleg tengsl og margt fleira þess háttar fyrir utan það prinsipmál að setja lög um starfsemi sem þessa og setja verkalýðshreyfinguna í enn ríkari mæli á framfæri ríkisins. Ég tel að það sé rangt.
    Ég vil að lokum segja að ég mun styðja brtt. sem fulltrúi Kvennalistans í hv. félmn. hefur lagt fram, Kristín Einarsdóttir 12. þm. Reykv., en þær hníga að því að flytja forræði skólans undir menntmrn. eins og annað skólahald í landinu. Um það er sérstakur kafli í mínu nál. sem ég vísa til í því sambandi.